Í umræðum um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar og stöðu efnahagsmála verður þingmönnum tíðrætt um að styrkja þurfi tekjustoðir ríkisins. Þessi umræða er mörkuð af þeirri ranghugmynd að ríkissjóður hafi tekjur. Hann hefur engar tekjur. Það hafa hins vegar einstaklingar og fyrirtæki í þeirra eigu. Ríkissjóður leggur hins vegar á skatta á afrakstur erfiðis einstaklinga og fyrirtækja í þeirra eigu. Allt tal um að styrkja tekjustofna snýst því um að hækka skatta á almenning og fyrirtæki.

Það er afleit hagstjórnaraðgerð á verðbólgutímum. Þensla ríkisins leikur stóran þátt í þeirri þenslu sem hefur einkennt efnahagslífið eftir heimsfaraldurinn. Það að „styrkja tekjustoðir“ ríkisins í núverandi efnahags-ástandi er ekki til þess fallið að draga úr verðbólgu. Hærra vaxtastigi til að spyrna við verðbólgu er ætlað að auka á sparnað einstaklinga og fyrirtækja. Það að hækka skatta í slíkum aðstæðum er einungis til þess fallið að draga úr mögulegum sparnaði. Ríkið eyðir öllu því sem það aflar.

Þó svo að seðlabankastjóri kvarti yfir tásunum á Tene þá er staðreynd málsins að ríkið gengur ekki fram með góðu fordæmi. Verðbólga mælist tæplega 10% og hagvöxtur mælist um 6%. Á sama tíma er hallarekstur ríkisins ríflega 4% af landsframleiðslu. Þetta er til þess fallið að festa verðbólgu og hátt vaxtastig í sessi með tilheyrandi skelfingum fyrir atvinnulífið.

Þegar gengið er miðborgina er hvergi hægt að líta án þess að sjá stórframkvæmdir á vegum ríkisins og stofnana og fyrirtækja í þess eigu. Stækkun Seðlabankans og annarra stofnanna meðal annars til að rýma þá miklu fjölgun sem hefur verið á opinberum störfum í þessum stofnunum undanfarna áratugi. Það sama gildir um stjórnsýsluna. Ekki sér fyrir endann í þessum efnum.

Enginn þingmaður gerir athugasemd við þessa þróun. Þeir eru uppteknir að spóka sig á erlendri grundu í svokölluðum fræðslunefndum þingnefnda. Seðlabankastjóri hefði frekar átt að gera myndirnar sem þingmenn birta af slíkum ferðum á samfélagsmiðlum að umtalsefni í stað sólbrenndra táa hins vinnandi manns.

Það er full þörf að spyrja grundvallarspurninga um þá þróun sem hefur verið á útgjöldum ríkisins undanfarna áratugi og þá miklu fjölgun sem hefur orðið á störfum hjá hinu opinbera. Nokkuð breið þverpólitísk sátt hefur lengi ríkt hér á landi um hvaða grundvallarþjónustu ríkið eigi að veita. Það er útilokað að slík breyting hafi orðið á hlutverki ríkisins og stofnana þess að það kalli á stjórnlausa útgjaldaaukningu og sífellt fleiri sérfræðistörf.

Engar vísbendingar eru um að þingmenn axli þá ábyrgð. Þannig má nefna að á tveimur árum frá útgáfu fjármálaáætlunar árið 2021 til útgáfu fjármála-áætlunar árið 2023, hafa væntingar ríkissjóðs um heildarútgjöld á árinu 2025 aukist um 24 prósent. Þetta ábyrgðarleysi þýðir einfaldlega að Seðlabankinn neyðist til þess að hækka vexti enn frekar en ef ríkisfjármálunum væri stjórnað með ábyrgum hætti.

Nú þegar sjást þess skýr merki að hátt vaxtastig og viðvarandi verðbólga er farið að leika efnahagslífið grátt. Sveitarfélagið Árborg rambar á barmi greiðslufalls og það sama gildir um Reykjavíkurborg. Fleiri eiga eftir að fylgja í kjölfarið. Staða Reykjavíkurborgar ætti að vera þingmönnum holl áminning um hvaða afleiðingar það hefur þegar rætt er um fjármál borgarinnar af léttúð og kæruleysi. Það þarf að takast á við vandann meðan hann er viðráðanlegur.

Engin þörf er að styrkja tekjustoðir ríkisins – að hækka álögur á heimili og fyrirtæki – frekar. Hins vegar er þörf á að ráðast í verulegan niðurskurð í ríkisrekstrinum og áræðni til þess að stofnanir ríkisins fari í megrun eftir að þeim hefur verið leyft að hlaupa í spik á síðustu áratugum.