Í efnahagssamdrættinum sem nú ríkir er mikilvægt að missa ekki sjónar á því hvert skuli stefna í framtíðinni. Hagsmunahópar hafa komið fram, hver af öðrum, og reyna að telja stjórnvöldum trú um að mikilvægast sé að sinna þeirra verkefnum umfram önnur. Í einfölduðu máli er hægt að skipta hugmyndunum í tvennt, þær sem duga til skamms tíma og hinar sem gefa af sér um langt skeið.

Að hækka útgreiðslu bóta er ekki lengri tíma lausn. Að fjölga þeim sem þiggja listamannalaun í 7.500 er fráleitt. Auknar millifærslur skapa ekki verðmæti heldur þvert á móti rýra lífskjör komandi kynslóða. Ástæðan er einföld, peningaprentun eða skuldasöfnun í dag er ekkert annað skattar framtíðarinnar. Það þarf fyrst að skapa verðmætin áður en þeim er ráðstafað.

Það eina sem bætir lífskjör er aukin verðmætasköpun. Við munum ekki geta talað okkur upp úr núverandi samdrætti heldur þarf markvissar aðgerðir í efnahagsmálum, sem duga til lengri tíma og bæta lífskjör, varanlegar aðgerðir sem leggja grunninn að sterkara efnahagslífi.

Innviðir

Framfarir í flutningum voru forsenda þess að Ísland gat farið að versla meira við umheiminn. Í raun eru flutningar undirstaða allra viðskipta. Ef ekki er hægt að flytja þjónustu eða vörur á milli fólks er ekki hægt að eiga nein viðskipti. Flutningar geta síðan verið margskonar og eru ekki bundnir við skip, bíla að flugvélar. Raforkuflutningur og gagnaflutningar eru sem dæmi ekki síður mikilvægir. Ein mest selda bókin í Kísildalnum er „ The Box“ og hún fjallar ekki um hefðbundna tækniuppfinningu heldur Malcolm McLean sem rak flutningabíl og hratt af stað gámabyltingunni á 6. áratugnum. Sú uppfinning lækkaði flutningskostnað heimsins um 19/20 og varð þannig undirstaða hnattvæðingar sem hefur skilað þeim ævintýralega bata í lífskjörum sem mannkynið hefur upplifað síðustu ár. Í Kísildalnum átta menn sig á því að flutningar eru forsenda viðskipta, þó eyjaskeggjar á Íslandi leiði sjaldnast hugann að slíku. Á Íslandi virðist hugmyndin um nýsköpun vera ótengd innviðum, iðnaði og tækjum. Nýsköpun er fyrst og fremst hugsuð í kringum tölvur. Við vitum samt að ef einhver gæti fundið ofurleiðara fyrir rafmagn, fundið uppá nýrri orkumyndun, nýjum þotuhreyfli, nýrri flutningsleið fyrir gögn, yrði ein slík uppfinning margfalt mikilvægari fyrir lífskjör framtíðarinnar en öll öpp heimsins til samans.

Núna er rétti tíminn

Samtök iðnaðarins komu fram með frábæra skýrslu fyrir rúmum þremur árum sem sýndi að innviðir á Íslandi hefðu verið sveltir af fjármagni frá hruni 2008. Það þyrfti 400 milljarða bara til að koma þeim í það lag sem væri ásættanlegt 2017. Síðan þyrfti mun hærri fjárhæð til að búa í haginn fyrir framtíðina. Þegar skýrslan kom út voru fjármálaráðherra og yfirvöld peningamála fljót að benda á að ekki „væri pláss“ fyrir slíkar framkvæmdir í hagkerfinu því það væri nálægt þenslumörkum. Mér finnst því óskiljanlegt að eftir fall Wow í ársbyrjun 2019 þegar sannanlega myndaðist rými til framkvæmda, eða núna eftir að heimsfaraldurinn hófst, hafi ekki verið farið í ofangreind verkefni. Þau liggja fyrir og allir hlutaðeigandi, hafnarsamlög, flugvellir, Vegagerðin, sveitarfélög, Landsnet og veitufyrirtæki eiga tilbúin arðbær verkefni sem hægt væri að hefjast handa við. Slíkar framkvæmdir nýtast bæði í dag og til lengri tíma. Þau eru ekki skammgóður vermir. Það þarf að hleypa fleirum að í þessar framkvæmdir, þær eiga ekki bara að vera á forræði hins opinbera. Við höfum tvö sláandi dæmi um gangaframkvæmdir, um Hvalfjörð og Vaðlaheiði. Með aðkomu einkaaðila tókst hin fyrrnefnda vonum framar og skilaði sér til baka á skömmum tíma. Hin síðari er minnisvarði um opinbert klúður.

Skýrslu McKinsey frá árinu 2012, „ Charting a growth path for Iceland “, var mikið hampað. Þar kom í ljós að framleiðni vinnuafls og fjármagns hjá hinu opinbera var algerlega óásættanlegt. Lausnin hefur því lengi blasað við, minni inngrip hins opinbera í atvinnulífinu bæta lífskjör almennings. En þróunin hefur verið öfug frá útkomu skýrslunnar.

Eric Piolle
Eric Piolle

Pólitískar kreddur

Grenoble er borg við Alpana í Frakklandi. Hún hefur oft verið nefnd „Kísildalur Frakklands“. Þar eru mörg öflugustu tæknifyrirtæki Evrópu með höfuðstöðvar og rannsóknarsetur. Borgarstjórinn Eric Piolle (sjá mynd) er græningi og er á móti tæknibreytingum að mörgu leyti. Hann vinnur nú að því að banna 5G væðingu svæðisins, sem hann telur að auki sóun, því 5G kerfi notar tvisvar til þrisvar sinnum meira rafmagn en 4G kerfi. Á móti kemur að nýja kerfið er tífalt afkastameira en hið eldra, en það virðist ekki hagga borgarstjóranum, eða sú staðreynd að með betri fjarskiptum minnka fólksflutningar og vöruflutningar sem útheimta mun meiri orku. Hann er með öðrum orðum tilbúinn að hætta efnahagsumsvifum og lífskjörum borgara sinna útaf pólitískum kreddum.

Að gera meira fyrir minna

Skoðanabræður Eric Piolle skilja ekki hvernig framþróun á sér stað. Þeir skilja ekki að framþróun er einfaldlega að gera meira fyrir minna. En græningjar virðast halda að öll framþróun sé á kostnað einhvers. Að einungis sé hægt að gera meira fyrir meira. Þess vegna vilja þeir núna hægja á öllu kerfinu, því þeir telja að einungis sé hægt að nýta auðlindir jarðar með einum hætti; því þarf að lifa minna og neyta minna. Þessi villutrú á í erfiðleikum með að útskýra framþróun mannkyns frá 16. öld þegar trúarkreddur viku fyrir vísindum. Þessar skoðanir sósíalistanna eru augljóslega andvísindalegar.

En hvað á að gera?

Francis Fukuyama , sem skrifaði árið 1992 hina merkilegu bók „ The End of History and the Last man“, sem reyndist fanga bjartsýni Vesturlanda við hrun sósíalismans á einstakan hátt, skrifar ásamt öðrum merkilega grein í Foreign Affairs í maí 2018 „ Beijing‘s Building Boom , How the West surrendered Global Infrastructure Development to China “. Fyrir 40 árum var Japan í fararbroddi við uppbyggingu innviða og Suður-Kórea tók við af þeim fyrir 20 árum. Nú er það Kína sem leiðir á heimsvísu. Samkvæmt greininni eru ástæðurnar einfaldar. Kína í nútímavæðingu sinni hefur einfaldlega þurft að byggja svo mikið og því hafa þeir mun meiri reynslu og þekkingu á nýjustu tækni við uppbyggingu innviða. Hin ástæðan er sú að reglugerðafargan Vesturlanda hefur kæft alla uppbyggingu og framþróun innviða. Nýjasta skýrsla OECD um Ísland er þörf áminning um þetta.

Sumir halda að það kosti ekkert að gera ekki neitt. Sömu aðilar halda líka að það kosti ekkert að hefta framþróun. Það sé því sjálfsagt að þvælast fyrir öllum framkvæmdum, skrifa um það skýrslur, halda borgarafundi, setja allt í pólitískan búning og búa til flókið net stofnana sem þurfa að lokum að kvitta upp á allt saman. Ég er með þessu alls ekki að segja að það eigi að slá af öryggiskröfum eða kröfum um vernd íbúa. En það þarf að gera sér grein fyrir því að öll höft til viðbótar kosta líklega mun meira en þau skila.

Lífeyrissjóðir landsmanna eru nú með hátt í 30 milljarða á hverjum mánuði sem þeir þurfa að fjárfesta. Það er óráðlegt að fara út með fjármagnið því óvissa alþjóðlega er mikil, krónan er lágt skráð og hlutabréfaverð úti í hæstu hæðum á meðan vextir eru þeir lægstu í sögunni. Lífeyrissjóði vantar örugga lengri tíma fjárfestingakosti. Það blasir við að fá það fjármagn inn í uppbyggingu arðbærra innviða á Íslandi.

Það er alveg skýrt hér að ofan hvað þarf að gera. Og það er ekki í boði fyrir kynslóðir framtíðarinnar að tala bara um hlutina og gera ekki neitt.

Greinin birtist tímariti Frjálsrar verslunar, sem kom út um miðjan desember. Hægt er að kaupa eintak af tímaritinu hér eða gerast áskrifandi hér .