Úrslit formannskjörs á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins kom flestum nokkuð á óvart. Flestir bjuggust við því að Bjarni Benediktsson myndi vinna en ekki með sem miklum mun sem raun ber vitni.

Ólafur Þ. Harðarson, svokallaður prófessor og helsti kosningasérfræðingur Ríkisútvarpsins, kom í viðtal við ríkisfréttamiðilinn á mánudag.

„Formaðurinn vann þarna prýðilegan sigur, þetta er góður sigur hjá Bjarna, hann fær 59% atkvæða. Guðlaugur Þór fær 40% atkvæða. Fyrir frambjóðanda sem fer gegn sitjandi formanni verður það líka að teljast prýðilegur árangur. Í rauninni þó að Guðlaugur vilji alltaf vinna, þá held ég að hann geti þegar allt er á litið, sætt sig alveg sæmilega við þessa stöðu.“

„Menn spyrja alltaf, hafa einstaklingar styrkt stöðu sína eða veikt, það er hægt að svara því út frá alls konar viðmiðum. Mitt stutta svar er að sennilega hafa þeir báðir styrkt stöðu sína á þessum landsfundi,“ bætti Ólafur við.

***

Víðáttuvitleysa í prófessornum

Þetta er víðáttuvitleysa hjá prófessornum og það er alveg ótrúlegt hvað þessir svokölluðu spekingar um stjórnmálin hafa oft rangt fyrir sér.

Óðinn sagði í síðustu viku það hafi verið fiktað við fulltrúavalið á fundinn. Það er vægt til orða tekið og því telur Óðinn fullvíst að niðurstaða á fundi þar sem eðlilega væri staðið að fulltrúavalinu hefði verið 65-70% sigur Bjarna Benediktssonar.

Staða Guðlaugs Þór veiktist mjög á fundinum. Allir hans stuðningsmenn, og mótherjar, vita að fulltrúavalið var honum mjög í vil og styrkur hans þar af leiðandi ofmetinn um langt skeið. Guðlaugur Þór og stuðningsmenn hans hljóta nú að hafa afskrifað formannsdrauminn og því munu stuðningurinn tvístrast í leit að nýjum vonarpening í Sjálfstæðisflokknum. Hver sem hann verður.

Eftir þennan sigur stendur Bjarni Benediktsson sem óskoraður leiðtogi Sjálfstæðisflokksins.

***

Óðinn veit að margir nánustu stuðningsmanna Bjarna Benediktssonar vilja nú að Guðlaugur Þór missi ráðherraembætti sitt að launum fyrir að koma svona aftan að Bjarna. Óðinn hefur ekki sérstaka trú á því og það væri úr í takt við fyrri ákvarðanir Bjarna.

En þó er það ekki óhugsandi. Því ef Bjarni hyggst hætta á kjörtímabilinu þá hefur hann engu að tapa.

Eftir þennan sigur stendur Bjarni Benediktsson sem óskoraður leiðtogi Sjálfstæðisflokksins. Hins vegar verður hann og hans menn að bregðast við allri þeirri málefnalegu gagnrýni sem sett hefur verið fram í aðdraganda þessa landsfundar. Þá fyrst er von að fylgið stígi upp úr þeim öldudal sem það hefur verið í.

Óðinn er einn af reglulegum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út 10. nóvember 2022.