*

miðvikudagur, 26. júní 2019
Þorkell Sigurlaugsson
18. apríl 2019 14:09

Viðburðarík 25 ára saga Viðskiptablaðsins

Þorkell Sigurlaugsson rekur sögu Viðskiptablaðsins í 25 ára afmælisriti sem er nýkomið í út.

Fjallað var í um Viðskiptblaðið þann 20. apríl árið 1994.
Aðsend mynd

Aðdragandann að stofnun Viðskiptablaðsins má rekja til frumkvæðis Óla Björns Kárason, hagfræðings og núverandi alþingismanns, en ég kynnst honum fyrst þegar hann var blaðamaður á Morgunblaðinu. Þá starfaði ég sem framkvæmdastjóri hjá Eimskip og var oft í samskiptum við fjölmiðla, ekki síst Óla Björn. Báðir höfðum við mikinn áhuga á að efla fréttaflutning af atvinnulífinu og um efnahagsmál og stuðla að heilbrigðara viðskiptaumhverfi og hlutabréfamarkaði.

Á þessum árum var ég í stjórn nokkurra fyrirtækja svo sem Marel, Tækniþróunar og Tæknigarðs og skömmu síðar Kauphallar Íslands og Össurar. Nýsköpun var mér alltaf ofarlega í huga og eflaust hefur það haft einhver áhrif á stefnu Eimskips. Eimskip var þá ekki einvörðungu framarlega í nýjungum á sviði flutningatækni, heldur einnig á sviði stjórnunar og nýsköpunar í atvinnulífinu. Ég hafði þá sjálfur stofnað Framtíðarsýn ehf. sem var, eins og nafnið gefur til kynna, nátengt framtíðinni, enda hefur framtíðin og framtíðarsýn ávallt heillað mig meira en fortíðin.

Framtíðarsýn réðist í stofnun Bókaklúbbs atvinnulífsins og sjálfur ég skrifaði bók um framtíðarsýn og stefnumótun fyrirtækja sem var talsverð nýjung á þeim tíma. Leiðir okkar Óla Björns lágu fljótlega meira saman. Vegna brennandi áhuga og dugnaðar Óla Björns varð Viðskiptablaðið til, og hann átti eftir að ritstýra því í mörg ár. Ég átti eftir að skrifa mikið í Viðskiptablaðið, á tímabili pistil í hverri viku.

Upphafsár Viðskiptablaðsins

Fyrsta tölublað Viðskiptablaðsins kom út 20. apríl 1994. Örn Valdimarsson, sem nú er fjárfestingastjóri hjá Eyri, hóf þarna störf í marsmánuði. Gylfi Þór Þorsteinsson var ráðinn auglýsingasölustjóri um mitt ár 1994, en það mæddi mikið á honum að byggja upp auglýsingasölu blaðsins. Halldór Baldursson byrjaði fljótlega að teikna fyrir Viðskiptablaðið og teiknaði um tíma forsíðumynd á hvert einasta tölublað og varð mikilvægur hluti af ritstjórn blaðsins. Halldór teiknar enn fyrir Viðskiptablaðið í hverri viku og hefur gert það óslitið fyrir blaðið frá upphafi.

Í fyrstu var útgáfan í samstarfi við Útgáfufélag Pressunnar, sem Friðrik Friðriksson stýrði. Útgáfufélag Pressunnar lenti í rekstrarerfiðleikum þegar leið á árið 1994 og í byrjun árs 1995 var farið í að sameina Þekkingu ehf. sem gaf út Viðskiptablaðið og útgáfufélagið Framtíðarsýn sem rak þá Bókaklúbb atvinnulífsins. Starfsemi félaganna var sameinuð og Marteinn Jónasson, framkvæmdastjóri Framtíðarsýnar, tók við sem framkvæmdastjóri sameinaðs félags. Þá flutti félagið í nýtt húsnæði í Síðumúla 14.

Undir lok árs 1995 flutti Viðskiptablaðið í Þverholt 11 þar sem Frjáls fjölmiðlun/DV var til húsa (og Listaháskólinn er í dag) og samhliða því kom til aukið samstarf við Frjálsa fjölmiðlun, útgáfufélag DV, sem einkum sneri að praktískum málum s.s. ljósmyndun og öðru slíku. Nokkrum árum síðar flutti VB úr Þverholti yfir í næsta hús í Brautarholti þar sem Hampiðjan var áður til húsa, en það hús hefur fyrir löngu verið rifið og byggðar íbúðir. Þar var Viðskiptablaðið til ársins 2003. Frjáls fjölmiðlun átti húsnæðið eins og Þverholt 11. Frjáls fjölmiðlun var í eigu feðganna Sveins R. Eyjólfssonar og Eyjólfs Sveinssonar og hafði auk útgáfu á DV eignast smátt og smátt leifar gömlu flokksblaðanna Tímans, Alþýðublaðsins, Þjóðviljans auk Dags á Akureyri. Árið 2001 hóf Frjáls fjölmiðlun síðan útgáfu Fréttablaðsins.

En það voru víðar sameiningar í gangi. Á árinu 1996 gerði ég ásamt fleirum tilraun með að byggja upp öflugt fjölmiðlafélag, sem við gáfum nafnið Fjölmiðlafélag Íslands. Félagið varð til við samruna Aflvaka ehf. og Framtíðarsýnar, en Aflvaki rak þá þrjár útvarpsstöðvar, Aðalstöðina, X-ið og Klassík FM. Það félag var í Aðalstræti og í eigu bræðranna Baldvins Jónssonar og Þormóðs Jónssonar og nokkurra fyrirtækja. Um 35 milljón krónum var safnað frá nokkrum fyrirtækjum. Þetta var dæmi um þá þróun sem var að verða á fjölmiðlamarkaði. Verkefnið gekk aftur á móti ekki upp enda kom í ljós að staða félaganna var talsvert lakari en ráð var fyrir gert og var bakkað út úr því ári síðar. Hluthöfum var endurgreitt að mestu það hlutafé sem lagt hafði verið fram.

Óli Björn var fyrsti ritstjóri Viðskiptablaðsins, frá stofnun 1994 og til ársloka 1998 þegar hann fluttist yfir á DV og tók við ritstjórn þar. Ari Edwald var ráðinn ritstjóri Viðskiptablaðsins vorið 1999, en staldraði stutt við og var ráðinn fyrsti framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins sama ár. Hann sagði reyndar ekki alveg skilið við fjölmiðlana því árið 2005 var hann ráðinn forstjóri 365 miðla. Örn Valdimarsson tók við af Ara sem ritstjóri Viðskiptablaðsins í lok árs 1999 samhliða því að vera framkvæmdastjóri félagsins.

Árið 2002 ákváðu stjórnir útgáfufélags DV og Framtíðarsýnar að sameinast og var Örn Valdimarsson framkvæmdastjóri hins sameinaða félags. Hann var ritstjóri Viðskiptablaðsins til ársloka 2004 þegar Gunnlaugur Árnason tók við sem ritstjóri og þá annaðist félagið m.a. fréttaskrif fyrir Reuters á Íslandi. Gunnlaugar lét síðan af störfum sem ritstjóri árið 2007 og Jónas Haraldsson tók við keflinu.

Breytingar á fjölmiðlamarkaði

En lítum aðeins til baka. Hvað var að gerast á fjölmiðlamarkaðnum? Á árunum 1995-1997 urðu miklar breytingar á fjölmiðlamarkaði. Upphafið má rekja til breytinga á fjölmiðlalögum og stofnun Bylgjunnar árið 1986, fyrstu einkareknu útvarpsstöðvarinnar. Um árabil hélt VB úti útvarpsþætti á Bylgjunni sem byrjaði árið 1997 og hélt áfram fram yfir aldamót. Einnig voru gerðir sjónvarpsþættir í samstarfi við Skjá einn. Þá tók ritstjórn Viðskiptablaðsins mjög virkan þátt í uppbyggingu netmiðilsins Vísis þar sem lengst af var vegleg umfjöllun um fréttir úr viðskiptum og atvinnulífi á okkar vegum. Um tíma annaðist VB fréttaskrif fyrir Reuters á Íslandi. Það komu snemma í ljós kostir þess að tengja saman prentmiðla, vefmiðla og sjónvarp.

Árið 1995 keypti Íslenska útvarpsfélagið, sem rak bæði Bylgjuna og Stöð 2, þriðjungshlut í Frjálsri fjölmiðlun. Skömmu síðar eða árið 1995 leit út fyrir að Stöð 2 fengi samkeppni þegar Stöð 3 hóf útsendingar. Undirbúningur að rekstri Stöðvar 3 hafði staðið í mörg ár, en erfiðleikar með myndlykla tafði sífellt uppbyggingu stöðvarinnar. Meðal eigenda að rekstrarfélagi Stöðvar 3, Íslenskri margmiðlun ehf. voru Nýherji, Sambíóin, Árvakur, Japis og síðan Burðarás sem kom inn í verkefnið á seinni stigum.

Á tímabili tók ég að mér forystuhlutverk fyrir þennan eigendahóp, en fljótlega kom í ljós að reksturinn yrði mjög erfiður og eigendur alls ekki allir tilbúnir að bakka félagið upp fjárhagslega sem var nauðsynlegt. Ég gekk því frá samningi um sölu á Íslenskri margmiðlun (Stöð 3) til Íslenska útvarpsfélagsins (Stöð2), nánast í skjóli nætur, aðfaranótt föstudagsins 21. febrúar 1997. Þetta var gert í óþökk sumra eigenda m.a. Sambíóanna. Jón Ólafsson, starfandi stjórnarformaður Íslenska útvarpsfélagsins, fagnaði þessu ógurlega á árshátíð Stöðvar 2 kvöldið eftir og taldi sig hafa gert góðan samning. Ekki keppti ég um fjölmiðlaathygli við hann um þennan samning og þótti sleppa vel með sölu á félagi sem stefndi í gjaldþrot.

Skömmu síðar urðu Norðurljós til með kaupum Íslenska útvarpsfélagsins á Tali og sameiningu við Skífuna. Síðar komu Jón Ásgeir Jóhannesson og Pálmi Haraldsson inn í þetta og til urðu 365 miðlar. Framhaldið þekkja flestir.

DV og Viðskiptablaðið

En víkjum þá aftur að Viðskiptablaðinu. Árið 2001 keyptu Óli Björn, Einar Sigurðsson, Ágúst Einarsson og Hjörtur Nielsen (ESÓB hópurinn svokallaði) tæplega helmingshlut í DV af Frjálsri fjölmiðlun og í kjölfarið þróuðust málin þannig að samstarf Viðskiptablaðsins var fyrst og fremst við Útgáfufélag DV. Það kom m.a. fram í flutningi starfseminnar í Skaftahlíð 2003 þar sem hluti af húsnæði DV var nýttur fyrir VB og áfram var keypt þjónusta af DV m.a. ljósmyndir. Feðgarnir Sveinn R. Eyjólfsson og Eyjólfur Sveinsson áttu áfram meirihluta í Frjálsri fjölmiðlun, sem gaf út Fréttablaðið, vefinn Vísi og rak Ísafoldarprentsmiðju.  

Rekstur Frjálsrar fjölmiðlunar gekk illa svo og DV og árið 2003 sneri Óli Björn sér aftur að Viðskiptablaðinu og keypti megnið af hlutabréfum í Framtíðarsýn, útgáfufélagið VB. Starfsemin fluttist þá í Slippfélagshúsið við Mýrargötu, þar sem nú er Hótel Reykjavík Marina. Mikillar bjartsýni gætti þá varðandi reksturinn og frá janúar 2004 var ákveðið að blaðið kæmi einnig út á föstudögum og síðan breytt í dagblað í febrúar 2007 og þá seldi Óli Björn sinn hlut í Viðskiptablaðinu. Það fór svo að það kom út fjórum sinnum í viku frá þriðjudegi til föstudags.

Um tíma var Exista, sem Lýður og Ágúst Bakkavararbræður áttu, eigandi að blaðinu og var þá Haraldur Flosi Tryggvason framkvæmdastjóri blaðsins, en síðar Haraldur Johannessen þar til hann var ráðinn ritstjóri hjá Morgunblaðinu árið 2009. Eftir bankahrunið, í desember 2008, var ákveðið að blaðið kæmi eingöngu út á fimmtudögum. Félagið tók þá einnig yfir Fiskifréttir, sérblað um sjávarútvegsmál sem fylgdi síðan blaðinu í hverri viku. Reksturinn varð þá og er enn í góðum höndum Mylluseturs sem er í eigu Péturs Árna Jónssonar og Sveins B. Jónssonar. Félagið hefur verið rekið með hagnaði allt frá árinu 2010.

Þátttakandi í sögu umbreytinga og uppstokkunar

Þegar Viðskiptablaðið hóf göngu sína vorið 1994 var fjölmiðlaumfjöllun um viðskipti og atvinnulíf ekki mikil. Hlutabréfamarkaðurinn var vissulega til staðar, en hann var lítill bæði hvað varðar fjölda félaga og umfang viðskipta. Forsvarsmenn fyrirtækja kunnu því misvel að blaðamenn væru að flytja fréttir af rekstrinum, nema í þeim tilvikum þar sem verið var að kynna vörur eða þjónustu.

Örn Valdimarsson, fyrrverandi ritstjóri Viðskiptablaðsins, rifjaði það upp, þegar ég var að safna efni í þessa grein, að erfitt hefði verið að nálgast ársreikninga skráðra fyrirtækja. Hann sagðist t.d. hafa óskað eftir ársreikningi eins stærsta fyrirtækis landsins viku fyrir aðalfund, en var neitað um eintak af ársreikningnum, en sagt að ef hann væri hluthafi gæti hann mætt á skrifstofu félagsins og kynnt sér ársreikninginn. Þetta félag var þá skráð á hlutabréfamarkaði og ekki er ég frá því að þetta félag hafi staðið mér ansi nærri á þeim tíma. Upplýsingar sem í dag þykja algerar grundvallarforsendur fyrir virkum hlutabréfamarkaði lágu alls ekki á lausu.

Fljótlega eftir að Viðskiptablaðið hóf göngu sína tók hlutabréfamarkaðurinn að stækka og eflast, samhliða grósku í atvinnulífinu almennt. Viðskiptablaðið varð virkur þátttakandi í uppvexti atvinnulífsins og hóf fljótlega að gera eigin greiningar á uppgjörum skráðra félaga og birta afstöðu til rekstrarárangurs og gengis hlutabréfa. Þetta byrjaði blaðið að gera löngu áður en bankarnir stofnuðu sérstakar greiningardeildir og hófu útgáfu fyrirtækjagreininga.

Segja má að Viðskiptablaðið hafi verið þátttakandi og ekki síður gerandi í þeirri nýsköpun sem orðið hefur í fréttaflutningi á sviði atvinnulífs- og efnahagsmála. Frjáls verslun varð síðan einnig hluti af þessari fjölskyldu, sem var lengi minn draumur. Aðrir prentmiðlar svo sem Morgunblaðið og Fréttablaðið komu einnig með sitt „viðskiptablað“ sem kemur nú út á miðvikudögum. Það var fróðlegt að rifja upp þessa sögu og horfa til baka, 25 ár og sjá að framtíðarsýn okkar sem stóðu að stofnun Viðskiptablaðsins hefur ræst.

Megi Viðskiptablaðið eiga farsæla framtíð og þjóna áfram vel íslensku atvinnulífi!

Höfundur er stofnandi Framtíðarsýnar.

Nánar er fjallað um málið í 25 ára afmælistímariti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift á sérstöku afmælistilboði hér eða pantað tímaritið.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is