*

sunnudagur, 5. desember 2021
Örn Gunnarsson
7. apríl 2020 16:02

Viðhöldum hringferð fjármagns

Birgir Ísl. Gunnarsson

Megir þú vera uppi á áhugaverðum tímum segir kaldhæðið máltæki, sagt upprunið í Kína, og líklega á það vel við um þá tíma sem við lifum nú. Samstaðan í samfélaginu hefur sjaldan verið meiri. Allir leggjast nú árarnar til að reyna að draga úr neikvæðum heilsufarslegum, félagslegum og efnahagslegum áhrifum COVID-19 veirunnar. Fyrirsjáanleg er efnahagskreppa sem getur haft mjög neikvæð langtímaáhrif á bæði heimili og fyrirtæki. Kreppan stafar einkum af því að hringekja fjármagns hefur nær stöðvast. Hvert og eitt okkar þekkir það af eigin raun að við gerum nánast ekkert annað þessa dagana en að kaupa í matinn. Aðrir kaupmenn en þeir sem selja matvörur missa viðskipti sem hefur áhrif á þeirra birgja og allt endar þetta í minni umsvifum í efnahagslífinu í heild. Afleidd áhrif á ríkissjóð í formi tapaðra skatttekna eru mikil, á sama tíma og ríkisútgjöld stóraukast vegna viðbragðsaðgerða á vinnumarkaði.

Gagnrýni á arðgreiðslur ósanngjörn

Það gengur þó ekki alls staðar illa. Á sum fyrirtæki hefur veiran tiltölulega lítil áhrif og hjá einstaka aðilum hefur þetta ástand jafnvel jákvæð áhrif á reksturinn. Að undanförnu hefur heyrst gagnrýni, bæði frá hluta af verkalýðshreyfingunni og einstaka álitsgjöfum í fjölmiðlum, vegna arðgreiðslna félaga í góðum rekstri. Þá hafa arðgreiðslur fyrri ára verið gerðar tortryggilegar. Strangar reglur gilda um úthlutun arðs á Íslandi, bæði frá lagalegu og skattalegu sjónarmiði. Skráð félög eru flest með útgefna arðgreiðslustefnu og laða með því að sér fjárfesta sem treysta á reglulegt fjárflæði af sparnaði sínum. Ef arðgreiðslur félaga, sem til þess hafa burði, stöðvast er eingöngu verið að hægja enn frekar á hringekju fjármagns í samfélaginu. Afleiðingin verður enn dýpri kreppa. Ætti ekki frekar að gagnrýna þá sem ekki greiða arð út úr félögum sínum þrátt fyrir að öll lagaleg og fjárhagsleg skilyrði séu uppfyllt? Arðgreiðslur eru einungis fjármunir sem fara úr einum vasa í annan, að frátöldum afdrætti ríkisins eftir því sem við á. Eign fer úr því að vera óbein eign í það að vera bein eign hluthafans. Hluthafi, sem fengið hefur arð, ráðstafar fjármunum á þann hátt sem honum er þóknanlegur í stað þess að þeir fjármunir séu „dautt fé“.

Aukið lánsfé er ekki nóg, það þarf eigið fé

Það verður að hafa í huga að arðgreiðslum er oftar en ekki endurráðstafað í fjárfestingar og þær eru því stór liður í því að endurlaða fjármagn inn í atvinnulífið, sem aftur er liður í að fjölga atvinnutækifærum. Þá skiptir engu máli hvort fjárfestarnir séu lífeyrissjóðir eða einkafjárfestar eða hvort fjárfest sé í sprotafyrirtækum eða stöndugum félögum með lengri sögu. Það er ekki nóg að auka aðgang að lánsfé. Til að byggja upp fyrirtæki þarf bæði lánsfé og eigið fé úr vasa fjárfesta. Það er oftast skilyrði af hálfu banka og annarra lánveitenda að hluthafar leggi til eigið fé samhliða aukinni skuldsetningu. Þar kemur laust fé, til dæmis vegna arðgreiðslna stöndugra fyrirtækja, til sögunnar.

Það er sjálfsagt að gagnrýna atvinnulífið en sú gagnrýni verður að vera sanngjörn og ekki vinna gegn því sameiginlega markmiði að skapa störf, stækka skattstofna og tryggja velsæld fólks og fyrirtækja.

Við þurfum að hafa heilsufar þjóðarinnar í öndvegi á næstu vikum og mánuðum en efnahagsmálin verða í kjölfarið stóra verkefnið. Þeir sem tilbúnir eru að hætta fjármagni sínu til að byggja upp bæði gömul og ný fyrirtæki og skapa ný störf hafa þar afar mikilvægu hlutverki að gegna.

Höfundur er framkvæmdastjóri LEX.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.