Hér var í liðinni viku minnst á viðtal á Vísi við blaðamanninn Atla Má Gylfason, þar sem fram kom að hann væri viðriðinn sölu á stolnu kjöti, ætluðu farþegum á Saga Class, sem sagðar hafa verið af sakamálafréttir undanfarið. Aðild hans hefði hins vegar hvorki komið fram fyrr né síðar í öðrum miðlum.

Þetta þótti yðar einlægum til marks um einkennilega óforvitni kolleganna. Svona ef við — af hrekkleysi og góðvild — ætlum að enginn þeirra hafi vitað af þessu fyrr. Og auðvitað er þögnin um það síðan frekar skrýtin líka. Fréttin er athyglisverð fyrir ýmsar sakir, ekki þó síst þá að blaðamaður hafi tengst því. Og það blaðamaður, sem gat sér sérstakt orð fyrir undirheimafréttir í Stundinni um árið.

Í viðtalinu lét hann þess getið að hann hefði selt ýmsum kjötið, þar á meðal lögregluþjónum blaðamönnum og ritstjórum. Af því tilefni spurði undirritaður hvers vegna enginn hefði spurt Jón Trausta Reynisson, ritstjóra Stundarinnar, hvort hann hafi keypt kjöt og hvernig það hafi smakkast.

Jón Trausti tók þetta vægast sagt mjög óstinnt upp, taldi að í þessu fælust dylgjur um aðild hans að ólöglegu athæfi og hvaðeina, krafðist afsökunarbeiðni eða rýmis til þess að tjá sig um málið. Svo tjáði hann sig eitthvað um það á Facebook líka.

***

Það er merkilegt að sjá hvað ritstjóri Stundarinnar er hörundsár, sérstaklega í ljósi þess að í pistli síðustu viku var nákvæmlega ekkert dylgjað um aðkomu hans að ætluðum brotum Atla Más.

Umfjöllunarefni pistilsins var óforvitni í fjölmiðlum og þegar Atli Már „segist hafa selt steikurnar ritstjórum, lögregluþjónum og blaðamönnum“ þá vekur það auðvitað fjölmargar spurningar. — Ekki síst vegna þess að engar fréttir höfðu fyrr verið sagðar af aðild hans.

Þegar þessi lýsing kemur á viðskiptamönnunum, þá er ekki óeðlilegt að almenningur velti fyrir sér heiðarleika blaðamannastéttarinnar, hvort samtrygging hafi aftrað því að fréttirnar kæmust fyrir almenningssjónir fyrr o.s.frv. Eða einfaldlega hvort að hann sé að segja satt um kaupendurna. Úr því fæst auðvitað ekki skorið án þess að grennslast sé fyrir um það. Svona eins og blaðamenn eiga að gera.

Jafnvel burtséð frá því og þótt einhverjar allt aðrar stéttir hefðu komið við sögu, hefðu góðir fréttamenn átt að spyrjast frekar fyrir.

Nú er það auðvitað góð regla að kaupa ekki kjöt af blaðamönnum, en hitt blasir við að Atli Már hefur tæplega sett sig í samband við ókunnuga til þess að bjóða þeim Saga-bauta til salgs. Segi hann satt um kaupendurna ræðir þar ljóslega um góðkunningja í lögregluþjónastt og blaðamenn eða ritstjóra, sem hann hefur starfað með.

Allir landsins lögregluþjónar eða þeir blaðamenn, sem hann hefur starfað með, eru fullfjölmennur hópur til þess að jafnvel alduglegustu rannsóknarblaðamenn önnuðu að spyrja. Þeir ritstjórar, sem Atli Már hefur unnið með að undanförnu eru hins vegar ekki margir, 3-4 alls. Svo hér var nefndur einn þeirra, títtnefndur ritstjóri Stundarinnar, enda var Atli Már lengst af í vist þar (hann var mjög skamma hríð á DV í fyrra).

En þar var ekki dylgjað um neitt. Þar var ekkert sagt eða gefið í skyn, heldur aðeins að það hefði verið rétt að spyrja hvort Jón Trausti hefði keypt af kjöt af manninum. Af því það væri eðlileg blaðamennska að spyrja. — Ekki af því að Jón Trausti væri sérstaklega líklegur til þess að hafa keypt kjöt annars staðar en úr búð, ekki af því honum sé það ætlað, heldur einfaldlega af því að hann er einn örfárra ritstjóra sem til greina kemur. Ef menn taka orð Atla Más trúanleg, sem auðvitað er stórt „ef“ sem einungis verður skorið úr ef menn spyrja.

***

Þetta tengist öðrum þræði gamalkunnugu vandamáli varðandi nafnbirtingar í fjölmiðlum. Stundin og DV aðhyllast (líkt og undirritaður) þá stefnu að það eigi að nafngreina það fólk, sem fjallað er um í fréttum, nema sérstök ástæða sé til annars.

Til þess stendur sú augljósa ástæða, að það er hlutverk fjölmiðla að segja fréttir undanbragðalaust og nöfn þeirra, sem um er fjallað, eru tvímælalaust fréttnæm. Þar að auki er hitt, að hjúpur nafnleysis eða ónákvæmni um þá sem um er fjallað í fréttum, getur valdið sjálfstæðum skaða. Þegar sagt er að sóknarprestur á Vestfjörðum hafi keyrt fullur, þá er verið að drótta að þeim öllum sjö eða átta. — Alveg eins og ef blaðamaður segir í viðtali að fleiri en einn ritstjóri í Reykjavík hafi keypt af sér kjöt með sögu.

***

Auðvitað var nafn Jóns Trausta hér nefnt í hálfkæringi, eins og flestum öðrum var ljóst af næstu spurningu um hvernig kjötið hefði smakkast. En stóra spurningin stendur eftir sem áður, hvers vegna enginn fjölmiðill lét þessa staðhæfingu í viðtalinu verða sér tilefni til þess að grennslast frekar fyrir um málið. Bæði Stundin og DV hafa lagt undir heilsíður af minna tilefni og þetta mál ætti að vera þeim sérstaklega hugleikið.

***

Ég sá á Facebook að Jón Trausti tengdi þetta einhverri umfjöllun í blaði hans síðastliðið haust, þar sem verktaka mín fyrir Sjálfstæðisflokkinn í liðnum kosningum kom við sögu, líkt og hún hafi verið eitthvert leyndarmál.

Það hefur vonandi ekki farið fram hjá neinum að ég hef lengst af stutt þann flokk, en frá umræddum störfum hafði bæði ég og aðrir greint löngu áður en Stundin þóttist skúbba einhverju um þau. Sú umfjöllun var ekki nákvæmari eða sanngjarnari en maður á að venjast af Stundinni, svo ég kippti mér nú ekki upp við hana þá. Ekki frekar en þessar spælingar.

***

Hitt er annað mál — og þetta er vinsamleg ábending til ritstjóra Stundarinnar — að fjölmiðlamenn þurfa að hafa þykkari skráp en þetta.

Þeir geta ekki stært sig af því að segja allt og hlífa engum, en vera svo Íslands viðkvæmustu blóm, þegar þeir eru sjálfir nefndir á nafn. Jafnvel þegar verið er að atast í þeim. Kannski sérstaklega þegar það er atast í þeim.