„Enn bólgnar báknið út, heimilin borga brúsann“. Svo segir í grein sem Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, skrifaði í síðasta mánuði en Viðreisn hefur farið mikinn í gagnrýni á ríkisstjórnina undanfarin misseri fyrir útþenslu báknsins.

***

Grundvallaráhersla Viðreisnar, sú sem flokkurinn var stofnaður um, snýst þó öðru fremur um að þenja báknið ævintýralega út. Á þetta hefur Hjörtur J. Guðmundsson, sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur, bent í pistlum sínum á fullveldi.is. Þar hefur hann reifað það sem fram kemur í gögnum í tengslum við misheppnaða umsókn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna um inngöngu í Evrópusambandið (ESB) frá árinu 2009. Þar kemur ýmislegt fram um hvað innganga hefði haft í för með sér, meðal annars að hún hefði kallað á umfangsmikla stofnanauppbyggingu hér á landi. Þ.e. „útþensla hins opinbera“ á stjórnsýslumáli.

***

Gögnin bera ljóslega með sér það sjónarmið ESB að íslensk stjórnsýsla sé ekki í stakk búin til þess að ráða við inngöngu. Í þeim segir að stjórnsýslan sé lítil og búi við takmarkaðar fjárveitingar. Ísland muni þurfa að byggja upp getu stjórnsýslunnar til að taka upp, þýða og innleiða löggjöf ESB og koma á laggirnar öllum þeim nauðsynlegu innviðum sem vera innan ESB gerir kröfu um. Einnig er fjöldi opinberra starfsmanna í stjórnsýslunni gert að umtalsefni og smæð ráðuneyta sem aðeins hafi á bilinu 26 til 214 starfsmenn hvert, að meðaltali 58 starfsmenn.

***

Þótt Týr sé hundfúll út í ríkisstjórnina - og þá sérstaklega Sjálfstæðisflokkinn - vegna útþenslu báknsins á liðnum árum, þá er ansi spaugilegt að sá flokkur sem einn stendur eftir kallandi á inngöngu í ESB skuli básúnast yfir útþenslu hins opinbera. Það er nákvæmlega það sem þau standa fyrir með því að vilja ganga í ESB.

***

Nú stendur Ísland í ströngu við að fá undanþágu frá grænþvottarreglum ESB sem að öðru óbreyttu munu hafa hörmulegar afleiðingar fyrir íslenskan efnahag, ferðaiðnað og lífskjör þjóðarinnar. Ekki er útséð um hvort undanþágan fáist. Týr telur heldur vera tilefni til að endurskoða aðild Íslands að EES samningnum sem er kominn langt út fyrir upprunalegan tilgang sinn, en að ræða inngöngu í ESB. Ef við værum í ESB hefði löggjöfin bein réttaráhrif hér og þannig yrðum við endanlega undir hælnum á reglugerðafríkunum í Brussel.

Týr er einn af reglulegum pistlum Viðskiptablaðsins, en þessi birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 2. mars.