*

laugardagur, 29. janúar 2022
Týr
25. apríl 2021 15:03

Viðreisnarbrandarinn

Týr hélt að um snemmbúið aprílgabb væri að ræða þegar þingflokkur Viðreisnar lagði til endurupptöku viðræðna um aðild að ESB.

Týr hélt að um snemmbúið aprílgabb væri að ræða þegar þingflokkur Viðreisnar lagði í lok mars fram þingsályktunartillögur um endurupptöku viðræðna um aðild að Evrópusambandinu og „samstarf við ráðherraráð ESB í gjaldeyrismálum og gagnkvæmar gengisvarnir“.

Týr er nokkuð vel að sér í peningahagfræði en á erfitt með að skilja hvernig það samstarf á að virka. Tillögurnar tvær voru þó ræddar í tæpa fjóra tíma á Alþingi í vikunni án þess að mikið væri fjallað um það í fjölmiðlum. Eftir umræðurnar hófu þingmenn Viðreisnar og starfsmenn þingflokksins að gera grín að þingmönnum annarra flokka, sem tekið höfðu þátt í umræðunum, á twitter þannig að málin fengju í það minnsta athygli Góða fólksins.

***

Grínið hélt áfram. Þingmaður Viðreisnar stakk upp á því að fólk tæki sig til í miðjum faraldri og tæki smá ferðalag í svefnherberginu – í þeim tilgangi að búa til fleiri skattgreiðendur. Frjálslyndið tekur á sig furðulega mynd þegar það snýst um framleiðslu á skattgreiðendum. Að öllu gamni slepptu er þó samhengi í þessu öllu saman.

Þingmenn Viðreisnar eru, þrátt fyrir allt þetta, vel upplýstir og vita að lífeyriskerfi flestra ríkja ESB eru í rúst, rétt eins og efnahagur þeirra og þar þurfa ríkin á fleiri skattgreiðendum að halda. Það er þó ekki staðan hér á landi en við vitum svo sem ekki hversu langan tíma það tekur forystu verkalýðshreyfinganna að eyðileggja lífeyrissjóðina.

*** 

ESB tók þó líka þátt í gríninu. Hið vinsæla morgunkorn Cocoa Puffs er nú bannað hér á landi vegna reglna ESB sem Ísland hefur innleitt. Sendinefnd ESB á Íslandi sá sig tilneydda til að bregðast við, 20 dögum eftir að fyrstu fréttir bárust af þessum ósköpum, og fullyrtu að EBS væri bara ekkert að banna Íslendingum að borða Cocoa Puffs, heldur væru það framleiðendurnir sjálfir sem hefðu flaskað á því að setja rétt efni sem uppfylla „framsæknar heilbrigðisreglur“ í vöruna. Týr gæti hlegið lengi að þessu öllu saman.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.