*

laugardagur, 12. júní 2021
Týr
6. júní 2021 12:48

Viðskiptaráð hugsar stærra

Týr hefur verið gagnrýninn á Viðskiptaráð, en í þetta sinn hrósar hann ráðinu fyrir skýrslu um stöðu Íslands í alþjóðasamkeppni.

Svanhildur Hólm Valsdóttir tók við sem framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs sl. haust.
Gígja Einarsdóttir

Týr hefur stundum verið gagnrýninn á Viðskiptaráð, jafnvel gengið svo langt að kalla það hugveitu án hugmynda hér á þessum vettvangi. Þegar Svanhildur Hólm Valsdóttir var ráðin framkvæmdastjóri sl. haust óskaði Týr henni velfarnaðar og vonaðist til þess að hún myndi rífa starfið upp eftir áralanga deyfð.

Nú er það ekki svo að Týr sjái eftir gagnrýni sinni, hún kom til af væntumþykju fyrir starfsemi ráðsins og tilgangi þess. Til að gæta sanngirni þarf Týr þó að hrósa því sem vel er gert og nú er fullt tilefni til.

* * *

Á árlegu Viðskiptaþingi í síðustu viku var fjallað um stöðu Íslands í alþjóðasamkeppni og samhliða því gefin út ný skýrsla undir fyrirsögninni Hugsum stærra. Í henni má finna fjölmargar tillögur að því hvernig auka megi hagsæld hér á landi og bæta rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja - og íslenska hagkerfisins sem á í harðri alþjóðlegri samkeppni. Bent er á fjölmarga þætti sem bæta þarf hér á landi til að auka samkeppnishæfni landsins, t.d. í skattamálum, afléttingu séríslenskra reglugerða, bættri menntun, aðgerðum til að auka erlenda fjárfestingu og fleira.

Allt eru þetta réttmæt og raunhæf atriði sem vert er að huga að og Viðskiptaráð á mikið hrós skilið fyrir að setja málið á dagskrá. Við lifum á undarlegum tíma þar sem bæði stjórnmálamenn og embættismenn leggja sitt af mörkum til að hamla eða letja erlenda fjárfestingu hér á landi og slá varnagla við öllu því sem erlent er. Tíminn er meira að segja það undarlegur, að fyrir skömmu héldu vinirnir Guðni Ágústsson og Ögmundur Jónasson erindi um hættuna af því að fá erlenda bisnessmenn til landsins. Það eitt kemur ekki á óvart, heldur hitt að erindið héldu þeir í Valhöll við góðar undirtektir fundarmanna.

* * *

Það verður aftur á móti fróðlegt að sjá hvort skýrsla Viðskiptaráðs ratar í stjórnmálaumræðuna fyrir kosningar. Á því er full þörf.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.