*

föstudagur, 21. febrúar 2020
Óðinn
4. desember 2018 19:01

Viðskiptastríð, Evrópusambandið og stefnumál Viðreisnar

Óðinn fjallar um tolldabandalög, fríverslun, Donald Trump og Viðreisn.

vb.is

Á það ættu allir að geta fallist, að Donald Trump er ekki eins og fólk er flest. Trump hóf stríðsrekstur fyrr á árinu. Ólíkt því sem tíðkaðist hjá friðarverðlaunahafanum Obama og hinum vígreifu Bush og Clinton, þá er stríð Trumps ekki háð með venjulegum vopnum, sprengjuregni og drónaaftökum, heldur með viðskiptahindrunum í formi laga og reglugerða. Af tvennu slæmu eru viðskiptastríð betri en hin. Aftur á móti eru þau ekki jafnbersýnileg, fórnarlömbin deyja ekki og menn eiga það til að gleyma afleiðingunum. Venjulega koma afleiðingar verst niður á almenningi, en snerta valdhafana lítið, auk þess að geta breyst í raunverulegt stríð.

                                                           ***

Fyrsti andstæðingurinn sem Trump valdi sér þegar hann hóf stjórnmálaafskipti var Kína. Trump ítrekaði aftur og aftur að viðskiptahallinn væri Bandaríkjunum í óhag um 500 milljarða dala árið 2017. Eins og stundum var Trump ónákvæmur. Innflutningur Bandaríkjanna frá Kína var 506 milljarðar dala en útflutningur til Kína 130 milljarðar dala. Það hallaði því á Bandaríkjamenn um 376 milljarða dala.

                                                           ***

 Að auki segir þessi tala engan veginn alla söguna á dögum greiðra samgangna og opinna heimsviðskipta. Kína er í raun stærsta samsetningarverksmiðja heims. Þangað koma íhlutir alls staðar að og er raðað saman í varning, sem svo er fluttur út aftur. Íhlutirnir eru margir framleiddir í Japan, Þýskalandi eða Suður-Kóreu og hönnun og hugvit oft frá Bandaríkjunum sjálfum. Það sem Kínverjar gera í virðiskeðjunni er að setja hlutinn saman, hratt og ódýrt.

                                                           ***

iPhone síminn er ágætt dæmi. Árið 2013 kostaði 178,96 dali að framleiða slíka síma en virðisaukningin sem varð til í Kína nam aðeins 6,44 dölum eða 3,6% af framleiðslukostnaðinum. Þrátt fyrir það segir á pakkningunni Made in China og þó að hlutur Kínverja sé aðeins 6,44 dalir þá leggjast allir 178,96 dalirnir Kínamegin í viðskiptahallajöfnunni. Ekki er hins vegar tekið tillit til hinnar merkingarinnar: Designed in California. Raunverulegur viðskiptahalli við Kína er því mun minni en tölurnar segja til um.

***

Þetta er svipuð saga og um álið, sem flutt er frá Íslandi. Það er sent til Rotterdam og því töldu sumir það með útflutningi til Evrópu og reiknaðist því svo til að við ættum við að fara beina leið til Brussel og sækja um aðild að Evrópusambandinu. En svo kom í ljós að álið flæðir þaðan um allan heim og viðskiptamyntin er ekki evra heldur Bandaríkjadalur. Lítið hefur heyrst frá Evrópusinnum síðan um þetta mál. Ekki frekar en um hinar ófullkomnu innflutningstölur, sem ofmeta innflutning frá Evrópusambandinu verulega af því að megninu af varningnum hingað er skipað um borð í Rotterdam og farmskjölin tiltekin í evrum, þó að varan kunni að vera upprunnin annars staðar og viðskiptamyntin önnur.

                                                           ***

Ýmsir hafa orðið til þess að saka Trump um geðveilu vegna viðskiptastríðsins við Kína og hótana um viðskiptastríð við aðildarríki Evrópusambandsins, Kanada og Mexíkó. Þeir hinir sömu virðast hins vegar hafa gleymt þeirri staðreynd að efnahagsbandalagið gamla breyttist í skjótt í tollabandalag. Á sérstökum vef um Evrópusambandið, evropuvefur. is, er að finna skilgreininguna á tollabandalagi:

„Tollabandalag (e. customs union) er annað eða þriðja stig  efnahagslegs samruna  (e. economic integration). Það er bandalag sem tvö eða fleiri ríki gera með sér um að efla viðskipti sín á milli. Auk niðurfellingar viðskiptahindrana á borð við innflutningstolla felur tollabandalag í sér að komið er á sameiginlegum tollum gagnvart ríkjum utan bandalagsins. Einnig segir „Evrópusambandið  er tollabandalag en hefur þróaðist áfram til frekari efnahagslegs samruna.“

                                                           ***

„Tollabandalag (e. customs union) er annað eða þriðja stig  efnahagslegs samruna  (e. economic integration). Það er bandalag sem tvö eða fleiri ríki gera með sér um að efla viðskipti sín á milli. Auk niðurfellingar viðskiptahindrana á borð við innflutningstolla felur tollabandalag í sér að komið er á sameiginlegum tollum gagnvart ríkjum utan bandalagsins. Einnig segir „Evrópusambandið  er tollabandalag en hefur þróaðist áfram til frekari efnahagslegs samruna.“

                                                           ***

Fríverslunarsamtök eru allt annars eðlis. Þar eru aðildarríkin skuldbundin til þess að eiga gagnkvæma fríverslun hvert við annað, en þeim er einnig frjálst að gera samninga við lönd utan samtakanna. Undir forystu Bjarna Benediktssonar voru tollar og vörugjöld lækkuð eða felld niður á 1.700 vöruflokkum. Þetta hefði okkur ekki verið heimilt að gera ef við værum í Evrópusambandinu og aðild okkar að Fríverslunarsamtökum Evrópu, EFTA, hefur þar engin áhrif á.

Fyrir utan það að viðskiptafrelsi – innanlands jafnt og milli landa – minnkar hættuna á átökum og stríðum, þá eykur það hagsæld. Um það er reynslan ólygnust og á einu máli. Frjáls viðskipti milli ríkja heimsins hafa skilað öllu mannkyninu ómældum ágóða á hvaða mælikvarða sem er. Hundruð milljóna manna hafa lyft sér úr sárri fátækt og neytendur á Vesturlöndum hafa notið þess að sjá verð á algengum neysluvörum lækka mjög. Þá minnka líkur á vopnuðum átökum á milli ríkja eftir því sem þau bindast nánari efnahagslegum böndum, líkt og Evrópufeðurnir frægu, Jean Monnet og Robert Schuman, þreyttust ekki á að ítreka og má heita grundvöllur Evrópuhugsjónarinnar. En af sama leiðir, að það er ekki friðvænlegt að rífa niður viðskiptahindranir milli grannþjóða til þess að reisa ókleifa múra utan um þær.

                                                           ***

Það á að fordæma alla tollamúra. Þeir sem hafa gagnrýnt Trump hvað harðast eru svokallaðir forystumenn Evrópusambandsins, en þar ríkir orðið fullkomið forystuleysi; Merkel búin að missa tökin í Þýskalandi, Macron að missa tökin í Frakklandi og Juncker búinn að missa tökin á drykkjunni. Þeir ættu að líta á eigin múra og hvaða afleiðingar þeir hafa haft á þróunarríkin í Afríku, sem ekki komast að með landbúnaðarafurðir sínar og er þannig haldið í fátækt.

                                                           ***

Það má því hrósa Trump fyrir tvennt. Að hafa opinberað tvískinnunginn í Evrópusambandsmönnum og þó ekki síður fyrir að hafa opnað augu vinstrisinnaðra menntamanna, sem allt þykjast vita, um skaðsemi tollabandalaga. Óðinn fagnar þeim sem nýjum skoðanabræðrum um ágæti fríverslunar, frelsis og framtaks.

                                                           ***

En framganga Trump er um leið skammarleg. Vel má vera að viðskiptavopnaskak hans sé aðeins ætlað til þess að draga menn að samningaborðinu, en hótanir eru einskis virði nema menn séu reiðubúnir að standa við þær og vopnaglamur hans hefur kallað á sams konar viðbrögð víða um heim, þar sem mörgum þykir nú sjálfsagðara að grípa til viðskiptahindrana og einangrunar en nokkrum hefur dottið í hug um áratugaskeið. Það mun ekki auka hagsæld eða stöðugleika í heiminum, verður Bandaríkjamönnum ekki til vegsauka og raunar ekki heldur til hagsbóta, því tollar koma ekki aðeins niður á viðskiptaþjóðunum. Þvert á móti verða nýir tollar í Bandaríkjunum fyrst og fremst skattur, sem Bandaríkjamenn einir greiða, en afleiðingarnar verða minni samkeppni, minna vöruúrval og aukin sóun.

                                                           ***

Kínverjar eru þó ekki barnanna bestir. Alkunna er hvernig þeir hafa sniðgengið alþjóðlega samninga með gjaldeyrisbrellum sínum og vísvitandi komið á því ójafnvægi í viðskiptum sínum við Bandaríkin, sem sjá má á skýringarmyndinni. Þá hafa þeir staðið í stórfelldum stuldi á hugverkum um langt skeið. Fyrstu skref vestrænna ríkja til að koma lagi á þau mál væri að beita vægari þvingunaraðgerðum gegn Kína heldur en allsherjarviðskiptastríði, sem brátt yrði gjaldmiðlastríð með tilheyrandi ójafnvægi um heim allan. Ef ekki verra.

                                                           ***

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks afrekaði það að afnema nær alla tolla og vörugjöld á nokkrum árum. Slík einhliða niðurfelling tolla er algert einsdæmi og gæti, þegar til lengri tíma er litið, reynst mikilvægasta afrek þeirrar ríkisstjórnar. Samanburðurinn við ævintýramennsku Trumps er Íslendingum mjög hagfelldur.

                                                           ***

Hins vegar mætti núverandi ríkisstjórn taka upp eina stefnumál Viðreisnar sem eitthvert vit er í (fyrir utan að lækka fasteignagjöld í Reykjavík á síðasta degi kjörtímabilsins úr 1,65% í 1,60%, eða heil 3 prósentustig þó reyndar fasteignamatið verði þá búið að hækka um tugi prósenta og fasteignagjöldin með). Það er að afnema okkar úrelta og ónýta landbúnaðarkerfi með öllum tollunum, verndartollum, skömmtunarkerfum, tollkvótum, innflutningskvótum og hvað þetta allt heitir.

                                                           ***

Íslendingum hlýtur að vera treystandi til að kaupa landbúnaðarafurðir erlendis frá, rétt eins og þeir hljóta að hafa vit á að kaupa þær ekki af efnaverksmiðjum án leiðbeiningar frá landbúnaðarráðuneytinu, lýðheilsustofnun eða tollstjóra. Rétt eins og þeim á að vera treystandi til að kaupa rauðvínsflösku í matvöruverslun.

Óðinn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.