*

miðvikudagur, 28. júlí 2021
Steinar Þór Ólafsson
14. maí 2021 14:05

Viðskiptaþáttur RÚV

„Ég hef nefnilega ekki misst úr þátt af Landanum í níu ár. Þar með talið sólahringsþáttinn haustið 2019.“

Gísli Einarsson er ritstjóri Landans.
Haraldur Guðjónsson

Áður en lengra er haldið er ágætt að gefa „trigger warning" að þessi pistill mun ekki andskotast út í RÚV. Í raun er hér smá lofsöngur. Ég hef nefnilega ekki misst úr þátt af Landanum í níu ár. Þar með talið sólahringsþáttinn haustið 2019. Ég er ekki eini aðdáandi þáttarins, raunar er hann áhorfsmesti sjónvarpsþáttur þjóðarinnar til margra ára í mælingum Gallup, að undanskildum fréttum.

Ég hef spurt mig: Hvað það er við Landann sem gerir mig svona heillaðan af honum? Er það áhugi minn á íslensku handverki? Eða viðburðir sem koma pínu spánskt fyrir sjónir svona eins og lettneska páskahátíðin í Vogum? En svarið er nei, þó ég hafi svosem gaman af hvort tveggja. Áhugi minn á þættinum ræðst af umfjöllun um framtaksamt fólki í rekstri. Það má segja að hvergi sé fjallað meira um lítinn rekstur og sanna frumkvöðla en akkúrat í Landanum hvert einasta sunnudagskvöld. Við erum að tala um fyrirtæki eins og Tungusilung í Tálknafirði, hönnunarfyrirtækið Agustav á Skólavörðustíg, veitingastaðinn Siglunes á Siglufirði og verktakafyrirtækið HeiðGuðByggir á Akureyri.

Þessi fyrirtæki, sem og þúsundir annarra lítilla og meðalstórra fyrirtækja, eru uppistaðan í hagkerfinu okkar þó að sjaldan sé fjallað um þau. Í allri umræðunni að undanförnu um mikilvægi þess að skapa hér störf er tilfinningin stundum að við séum kötturinn, hundurinn og svínið. Bíðum einfaldlega eftir því að litla gula t.d. samheitalyfjahænan komi hingað með 300 störf. Líklega verða þessi störf hins vegar sköpuð að mestu hjá litlum fyrirtækjum sem búa til verðmæti, greiða skatta og skapa kannski 3 til 30 störf hvert. En hvergi má finna betri hvatningu fyrir fólk sem gengur með litla hugmynd í maganum að láta hana verða að veruleika en á sunnudagskvöldum klukkan 19.45 á RÚV.

Höfundur er samskiptasérfræðingur.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.