Spilling hefur verið skilgreind sem misbeiting valds í þágu einkahagsmuna. (e. Abuse of entrusted power for private gain).

Spilling í stjórnmálum og stjórnkerfi leiðir mjög oft til að það verður ekki rétt gefið í viðskiptalífinu. Sum fyrirtæki fá öll bestu spilin. Önnur þurfa að sætta sig við að fá eintóma hunda, eins og sagt er á spilamáli. Spilling og mismunun af þessu tagi skekkir samkeppni, skaðar fyrirtæki, starfsfólk og neytendur og hamlar efnahagslegri þróun.

Það eru því gríðarlegir hagsmunir í húfi fyrir viðskiptalífið og fyrirtækin almennt að spillingu sé haldið niðri og markvisst að því unnið. Stuðningur fyrirtækjanna sjálfra og samtök þeirra við það mikilvæga samfélagslega verkefni er bráðnauðsynlegur sem og kröfur þeirra og samtaka til stjórnvalda um að jafnræðis sé gætt í viðskiptalífinu og leikreglum í viðskiptum fylgt af öllum en ekki bara sumum.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun voru samþykkt af fulltrúum allra aðildarríkjum þeirra árið 2015. Síðan hafa fjölmargir aðilar frá öllum sviðum samfélagsins, þ.m.t. samtök og fyrirtæki, heitið því að vinna í anda markmiðanna og sýna samfélagslega ábyrgð. Eitt heimsmarkmiðanna hljóðar segir að „dregið verði verulega úr hvers kyns spillingu og mútum."

Samtökin Transparency International voru stofnuð árið 1992 og hafa um langa hríð verið ein stærstu alþjóðlegu samtökin sem vinna að heilindum í stjórnsýslu og viðskiptalífi. Samtökin eru sjálfstæð og óháð stjórnvöldum og eru ekki rekin til að skila hagnaði. Þau starfa í meira en 100 löndum og berjast gegn spillingu og því óréttlæti og samfélagslega skaða sem hún veldur.

Íslandsdeild Transparency International hefur nú verið stofnuð. Eitt af mjög mikilvægum verkefnum og markmiðum sem deildin hefur er að taka þátt í að verja íslenskt viðskiptalíf fyrir spillingu. Það eru gríðarlegir hagsmunir í húfi fyrir íslensk fyrirtæki og fólkið í landinu að það megi takast sem best og að rétt verði gefið í íslensku viðskipatalífi, jafnræðis gætt og samkeppni þar verði samkvæmt réttum og sanngjörnum leikreglum.

Íslandsdeild Transparency International trúir því og treystir að gott samstarf takist við íslensk fyrirtæki og samtök þeirra við það mikilvæga verkefni.

Árni Múli Jónasson er framkvæmdastjóri Íslandsdeildar TI og Guðrún Johnsen formaður stjórnar.