Undanfarna daga hefur mikið verið fjallað í fjölmiðlum um hlutabréfamarkaðinn í Bandaríkjunum og kaup hjá stórum hópi almennra fjárfesta á hlutabréfum í tölvu- og raftækjaverslunarkeðjunni GameStop og fleiri fyrirtækjum. Í stuttu máli höfðu vogunarsjóðir þar í landi tekið skortstöðu í hlutabréfum GameStop og veðjað þannig á lækkun á verði hlutabréfanna, en fyrirtækið hafði átt í rekstrarerfiðleikum upp á síðkastið.

Í skortstöðunni fólst að vogunarsjóðirnir fengu hlutabréf í fyrirtækinu lánuð, seldu þau í þeirri von að geta keypt þau aftur á lægra verði og hagnast þannig á verðlækkuninni. Notendur spjallborðsins WallStreetBets á Reddit ákváðu að taka málin í sínar hendur og hófu að kaupa upp hlutabréfin í stórum stíl sem skaut hlutabréfaverðinu upp um 700% þegar mest var. Markmiðið hjá mörgum þessara notenda spjallborðsins virðist hafa verið að hækka verðið upp úr öllu valdi til að þvinga vogunarsjóðina til að kaupa bréfin til baka á uppsprengdu verði og stórtapa þannig á skortstöðunni sinni.

Í umræðunni um viðskiptin, bæði í Bandaríkjunum og annars staðar, hafa verið skiptar skoðanir um réttmæti þessara viðskipta hjá þessum svokölluðu Reddit-fjárfestum. Sumir hafa viðrað þá skoðun að vogunarsjóðirnir hafi átt þetta skilið og þarna hafi hinn almenni fjárfestir snúið á stóru Wall Street-fyrirtækin. Aðrir hafa kallað eftir viðbrögðum eftirlitsaðila til að koma í veg fyrir svona viðskiptahegðun. En var eitthvað bogið við þessi viðskipti?

Rökin fyrir banni við markaðsmisnotkun

Segja má að markaðsmisnotkun hafi verið verið bönnuð í einhverju formi á verðbréfamörkuðum í hundruð ára, í rauninni allt frá því viðskipti á verðbréfamörkuðum hófust. Markaðsmisnotkun er í grunninn þegar leitast er við að hafa áhrif á virði skráðra fjármálagerninga, eins og hlutabréfa sem eru skráð í Kauphöllinni, með því að dreifa röngum eða misvísandi upplýsingum til markaðarins, t.d. á netinu eða í blöðum. Dreifing rangra eða misvísandi upplýsinga getur einnig átt sér stað í gegnum viðskiptin sjálf.

Rökin fyrir því að banna markaðsmisnotkun eru einföld. Grunnforsenda fyrir því að markaðir eins og verðbréfamarkaðir virki sem skyldi er traust. Fjárfestar verða að geta treyst þeim upplýsingum sem eru til staðar á markaðinum, t.d. hlutabréfaverðinu sem ætti undir eðlilegum kringumstæðum að lýsa frammistöðu útgefandans hverju sinni og væntingum fjárfesta til útgefandans.

Ef hlutabréfaverðið endurspeglar ekki slíkt og er í rauninni í engu samræmi við frammistöðu fyrirtækisins, eins og raunin var með hlutabréfin í GameStop, er hætta á að fjárfestar hætti að treysta upplýsingunum á markaðinum og leiti annað með fjármagnið sitt. Með því að banna fjárfestum og útgefendum og öðrum þátttakendum á markaði að dreifa röngum eða misvísandi upplýsingum á þessum markaði er verið að stuðla að trausti fjárfesta og auka þannig líkur á að fjárfestar noti þessa skipulega markaði til að fjárfesta í.

Voru viðskiptin markaðsmisnotkun?

Ætlunin hér er ekki að skoða hvort viðskiptin í GameStop hafi verið markaðsmisnotkun samkvæmt bandarískum reglum heldur aðeins að velta því upp hvort sú hegðun sem birtist í fjölmiðlum af háttsemi Reddit-fjárfestanna svokölluðu gæti talist markaðsmisnotkun samkvæmt íslenskum lögum. Íslenska bannið hefur verið til staðar í íslenskum lögum frá árinu 1996 og byggir nú á samræmdu evrópsku regluverki sem er sífellt verið að uppfæra. Grunnhugsunin með banninu á Íslandi (og þar með í Evrópu) er það sama og bandaríska bannið: að banna dreifingu rangra eða misvísandi upplýsinga með það að markmiði að hafa áhrif á virði skráðra fjármálagerninga.

Aðferðin sem Reddit-fjárfestarnir beittu má segja að sé alþekkt aðferð til að beita markaðsmisnotkun og nefnist á ensku „short squeeze“. Taka ber fram að aðferðin getur falið í sér lögmæt viðskipti en í fræðiskrifum er hún oft tengd við markaðsmisnotkun. Aðferðin felur í sér að hækka verðið t.d. á skráðum hlutabréfum með umfangsmiklum uppkaupum til að þvinga þá fjárfesta sem hafa tekið sér skortstöðu í hlutabréfunum til að kaupa bréfin til baka á hærra verði en þeir seldu lánuðu hlutabréfin á. Miðað við fréttaflutning síðastliðna daga virðist markmiðið hjá mörgum af umræddum Reddit-fjárfestum einmitt hafa verið þetta, þ.e.a.s. að hafa áhrif á hlutabréfaverðið í GameStop með umfangsmiklum kaupum til að þvinga vogunarsjóðina til að kaupa hlutabréfin á hærra verði.

Í GameStop-viðskiptunum virðist engum röngum fréttum eða orðrómi hafa verið dreift um fyrirtækið heldur virðist ranga upplýsingagjöfin (eða blekkingin) hafa falist í því að gefa markaðinum merki um kaupáhuga en raunveruleg ástæða kaupanna virðist hafa verið að hækka hlutabréfaverðið til að þvinga vogunarsjóðina til að loka skortstöðu sinni í hlutabréfunum á töluvert hærra verði. Upplýsingarnar sem viðskiptin miðluðu til markaðarins um kaupáhuga virðast því hafa verið rangar og að vissu leyti blekkjandi. Þótt margir myndu telja viðskiptin hafa verið réttlætanleg út frá einhverjum sanngirnissjónarmiðum má ekki gleyma því að svona hegðun getur verið skaðleg verðbréfamörkuðum þar sem hún grefur undan trausti. Málið snýst ekki um að hérna sé verið að vernda stóru vogunarsjóðina sem veðja á lækkun heldur að banna ranga og misvísandi upplýsingagjöf á markaði til að stuðla að trausti fjárfesta og almennings á verðbréfamörkuðum, sem er ein af grunnforsendum skilvirks verðbréfamarkaðar.

Höfundur er lektor við lagadeild Háskólans í Reykjavík.