*

fimmtudagur, 27. janúar 2022
Týr
26. desember 2021 14:02

Vígaferli í borginni

Eyþór Arnalds las salinn álíka vel í borginni og Ragnheiður Elín Árnadóttir las Suðurlandið fyrir prófkjör haustið 2016.

Hildur Björnsdóttir lýsti yfir mótframboði gegn Eyþóri Arnalds, sitjandi oddvita Sjálfstæðisflokksins í borginni í þarsíðustu viku.
Haraldur Guðjónsson

Týr er mikill áhugamaður um innanflokks-pólitík stjórnmálaflokkanna, sem er hörð, köld og ófyrirleitin. Eins og Týr benti á í síðustu viku er aðeins tímaspursmál hvenær formaður Samfylkingarinnar verður hrakinn úr embætti af sínu eigin flokksfólki.

Það andar köldu meðal ráðherra Framsóknarflokksins, Píratar þurfa vinnustaðasálfræðing til að geta unnið saman, vinir Bensa bíða eftir því að geta hefnt fyrir ófarirnar innan Viðreisnar og ef Katrín Jakobsdóttir myndi hætta í pólitík í dag færu hnífarnir fljótt á loft.

Innanflokksátökin innan Sjálfstæðisflokksins eru ekki síður áhugaverð. Stuðningsmenn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar nýta hvert tækifæri sem þeir fá til að grafa undan Bjarna Benediktssyni og þá er að skapast mikið óþol meðal frjálshyggjumanna innan flokksins sem horfa upp á hvert málið á fætur öðru þar sem öllum gildum er vikið til hliðar til að halda friðinn í stjórnarsamstarfi við Vinstri græna.

* * *

Nú hefur dregið til tíðinda í borginni. Innan tveggja vikna frá því að Hildur Björnsdóttir lýsti því yfir að hún hygðist sækjast eftir oddvitasæti Sjálfstæðisflokksins í borginni lýsti Eyþór Arnalds, sem nú er oddviti að nafninu til, því yfir að hann hygðist ekki sækjast eftir endurkjöri. Hann hafði þó áður lýst yfir framboði. Sú ákvörðun á sér stuttan aðdraganda.

Í síðustu viku samþykkti stjórn fulltrúaráðsfélagsins að leggja fram þá tillögu að fram færi leiðtogaprófkjör í borginni í stað hefðbundins prófkjörs. Þessi tillaga er lögð fram í þeim tilgangi að tryggja hluta af núverandi borgarfulltrúum, sem vitað er að eiga engan séns í prófkjöri, sæti á lista.

Í ljós hefur komið að meginþorri stjórnar og formenn stærstu hverfisfélaganna eru mótfallin tillögunni – en það kom í ljós eftir að Eyþór hafði lýst yfir stuðningi við hana í fjölmiðlum. Hann las salinn álíka vel og Ragnheiður Elín Árnadóttir las Suðurlandið fyrir prófkjör haustið 2016.

* * *

Hildur Björnsdóttir þarf þó að sofa með opin augun yfir jólin, því á næstu vikum mun koma fram frambjóðandi sem skorar hana á hólm. Í millitíðinni segir Týr gleðileg jól.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.