„Þeir sem fá fjármagnstekjur greiða því lægri skatta en launamenn,“ sagði Oddný G. Harðardóttir nýverið í Fréttablaðinu. Þessu hefur ítrekað verið haldið fram opinberlega undanfarið. Í pistli sínum fjallar Oddný um skattgreiðslur útvegsmanna og auðlindagjöld, en hún segir hvort tveggja of lágt. Skoðum skattgreiðslurnar nánar.

Skattbyrði tekjuskatts árið 2020 var að meðaltali um 31% af atvinnutekjum fyrir par á aldursbilinu 25-64 ára, með 1-2 börn á heimili. Skattbyrði lægstu tekjutíundar þessa hóps var 19% en 37% hjá hæstu tekjutíundinni

Fjármagnstekjuskattur er 22%. Við fyrstu sýn mætti ætla að Oddný hafi rétt fyrir sér. Staðreyndin er þó sú að skatturinn leggst á nafnávöxtun en ekki raunávöxtun og þar af leiðandi einnig á verðbólgu. Skoðum fyrst fjármagnstekjuskatt á útgerðir og síðan raunverulegt skatthlutfall á fjármagnstekjur.

38% skattur af arði

Samkvæmt skýrslu Deloitte um afkomu sjávarútvegs fyrir árið 2020 nam hagnaður í greininni um 36 ma. kr., fyrir skatt. Oftast fer drjúgur hluti í frekari fjárfestingar og uppbyggingu, t.d. í nýrri tækni, betri skipum eða framleiðslulínum. Þannig hefur sjávarútvegurinn til dæmis dregið úr losun koltvísýrings um meira en helming frá lokum síðasta áratugar.

Tekjuskattur útgerða vegna ársins 2020 reiknast 7,3 ma. kr. Veiðigjöld námu 4,8 ma. kr. og tryggingagjald var áætlað 5,3 ma. kr. samkvæmt skýrslu Deloitte. Að frádregnum 20% tekjuskatti fyrirtækja var hagnaður eftir skatt því 29 ma. kr.

Í dæmaskyni skulum við gera ráð fyrir því að útgerðirnar hafi ákveðið að greiða allan hagnað ársins 2020 í arð, samtals 29 ma. kr. Af þessu dregst síðan 22% fjármagnstekjuskattur, samtals um 6,4 ma. kr. Útgerðirnar greiddu því 7,3 ma. kr. í tekjuskatt og eigendurnir svo 6,4 ma. kr. fjármagnstekjuskatt, samtals um 13,7 ma. kr. Virkt skatthlutfall væri því samtals tæplega 38%. Það eru hærri skattar en launamenn greiða.

60% fjármagnstekjuskattur?

Skoðum nú áhrif verðbólgu á fjármagnstekjuskatt. Almennt má skipta ávöxtun í tvennt, nafnávöxtun annars vegar og raunávöxtun hins vegar. Með töluverðri einföldun gildir því Raunávöxtun = Nafnávöxtun – Verðbólga.

Tökum dæmi um skattbyrði fjármagnstekjuskatts af áhættulítilli fjárfestingu, löngum ríkisskuldabréfum. Nafnávöxtun langra ríkisskuldabréfa hefur verið 5,1% að meðaltali síðustu tíu ár. Verðbólgan hefur á sama tíma verið um 3,2% að meðaltali sem skilar sér í 1,9% raunávöxtun. Miðað við 22% fjármagnstekjuskatt á nafnávöxtun samsvarar þetta tæplega 60% skatti á raunávöxtun.

Fjármagnstekjuskattur fyrir áhættulausar fjárfestingar.
Fjármagnstekjuskattur fyrir áhættulausar fjárfestingar.

Dæmið verður enn ýktara ef litið er aftur til síðustu 12 mánaða. Nafnávöxtun langra ríkisskuldabréfa hefur numið um 2,9% en öðru máli gegnir um raunávöxtunina, sem er hefur verið neikvæð um 5,4%.

Hvort er því hærra, skattur á launatekjur eða fjármagn? Í árferði verðbólgu og lágrar eða neikvæðrar raunávöxtunar er fjármagnstekjuskatturinn hærri. Því kann að vera öfugt farið þegar verðbólga er lág. Í öllu falli er fullyrðing um mun lægri skatta á fjármagn en tekjur villandi.