*

laugardagur, 20. júlí 2019
Leiðari
8. desember 2016 14:28

Vindhögg gegn Markúsi

Lagaákvæðið er skýrt og það gildir um dómara sem aðra að almennt á ekki að takmarka einstaklingsfrelsi þeirra.

Haraldur Guðjónsson

Fáir menn eru betur að sér í íslenskum rétti en Markús Sigurbjörnsson, forseti Hæstaréttar, en hann hefur um árabil setið sem dómari í Hæstarétti og ritað fjölda fræðigreina og -bóka um íslenska lögfræði.

Hann þekkir lögin almennt betur en flestir og er afar vel að sér um þau lög og reglur sem gilda um störf dómstóla og dómara. Er því lítil ástæða til að draga í efa þann skilning hans að honum hafi ekki borið að tilkynna nefnd um dómarastörf um kaup á hlutdeildarskírteinum í verðbréfasjóðum Glitnis á árunum fyrir hrun.

Reyndar eru ekki allir sammála þessari túlkun dómarans, en í svari Hjördísar Hákonardóttur, formanns nefndar um dómarastörf, við fyrirspurn RÚV segir hún nefnilega að enginn greinarmunur sé gerður á eignarhlut í hlutabréfum eða hlutabréfasjóðum. Eignarhlutirnir og upphæðir þeirra séu aðalatriðið.

Það sem vitað er um fjárfestingar Markúsar er hins vegar það að hann hafi átt töluverðar fjárhæðir í Sjóði 9, sem var skuldabréfasjóður. Má því auðveldlega færa fyrir því rök að sjóðurinn falli ekki undir skilgreiningu Hjördísar.

Rétt er að benda á það að fjárfesting í sjóði er líklega heppilegasta leið fólks í stöðu Markúsar til að ávaxta fé sitt. Með því að fjárfesta í slíkum sjóðum afsalar viðkomandi sér öllu valdi yfir því hvernig féð er ávaxtað endanlega og hefur ekkert um það að segja. Hann veit jafnvel ekki hvar féð liggur. Markús tók því rétta ákvörðun um ávöxtun sinna peninga út frá skyldum hans sem dómari.

Hvað varðar tilkynningaskylduna er, eins og áður segir, erfitt að hrekja þau rök hans að honum hafi ekki borið að tilkynna nefndinni um eign hans í sjóðunum. Orðalag viðkomandi lagaákvæðis er skýrt og það gildir um dómara sem aðra að almennt á ekki að takmarka einstaklingsfrelsi þeirra umfram það sem segir í lögum.

Hins vegar er vel þess virði að velta því fyrir sér hvort ekki sé rétt að endurskoða reglurnar og víkka þær. Þyki fólki eðlilegt að auka kröfurnar má alveg gera það, en ekki er hægt að refsa mönnum fyrir að fylgja gildandi reglum á hverjum tíma.

Ef bæta á við skyldu um að upplýsa nefndina um fjárfestingu í sjóðum er þá ekki eðlilegt að gera þá kröfu að dómarar upplýsi hana líka um skuldastöðu sína? Skuldunautur er oft mun háðari lánardrottni sínum en eigandi er félagi sem hann á hlut í. Stórskuldugur dómari er í raun í mun viðkvæmari stöðu en stóreignamaður.

En rétt er einnig að geta þess að í eina skiptið sem íslenskum hæstaréttardómara hafi verið vikið úr starfi með dómi var það ekki vegna þess að hann, Magnús Thoroddsen, hafði gerst brotlegur við lög.

Magnús hafði, sem forseti Hæstaréttar og handhafi forsetavalds, keypt áfengi á kostnaðarverði. Töldu dómararnir í máli hans hafa rýrt álit sitt siðferðislega og skert virðingu Hæstaréttar. Af þeim sökum var hann dæmdur frá embætti.

Þessi dómur hefur verið gagnrýndur, eins og reyndar aðrir dómar Hæstaréttar, enda á ekki að refsa mönnum fyrir hegðun þeirra nema skýr heimild sé til þess í lögum. Almenna reglan í frjálsu réttarríki er sú að allt er leyft sem ekki er bannað með lögum og ekki verði lagðar skyldur á herðar fólks nema með skýrum lagalegum hætti.

Hæstiréttur hefur sætt töluverðri gagnrýni undanfarið vegna dóma í svokölluðum hrunmálum, meðal annars á síðum Viðskiptablaðsins. Það er hins vegar eitt að gagnrýna á málefnalegan hátt rökstuðning dóma og annað að reyna að gera tortryggilega hegðun sem ekki felur í sér brot við lög.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.