Eflaust ætti ég að vera að eyða frítíma mínum í að læra að fjárfesta í NFTs og Crypto. Svölu krakkarnir gera það þessi misserin. Ég hef hins vegar varið síðastliðnum vikum í að lesa mig til um hvernig best sé að eignast nýja vini og rækta gamla. Smá óþægilegt umræðuefni.

Er ég að opinbera félagslega einangrun og einsemd mína á baksíðu Viðskiptablaðsins? Er ég að breyta þessum endahnút í einhvern einkamáladálk?

Ekki misskilja mig, ég á góðan vinahóp úr Verzló og er hamingjusamlega giftur en þegar ég hugsa hins vegar til síðastliðinna ára hef ég eignast aragrúa af kunningjum við að „stækka tengslanetið“ en á sama tíma eignast mjög fáa góða vini. Þetta verður töluvert flóknara þegar maður fullorðnast.

Eitt af því sem rannsóknir sýna að hafi hvað mest áhrif á hver verða góðir vinir manns snýr að tíðni. Því oftar og meiri tíma sem þú verð með viðkomandi þeim mun líklegra er að böndin styrkist, vaxtavextir vináttunnar.

En þegar maður á lítil börn og er í krefjandi starfi sem öðru nafni mætti kalla einhvers konar dauðadal vináttunnar er maður ekki að fara að hanga heima hjá einhverjum fram á rauða nótt eða slæpast með þeim heilu helgarnar líkt og maður gerði. Fyrir fullorðna krefst þetta því nýrrar nálgunar og ég skal vera fyrsti maðurinn til að viðurkenna að ég veit ekki almennilega hvernig best er að gera kunningja að vinum.

Við erum alla ævina að reyna eignast hitt og þetta; fasteign, sparnað, jafnvel verðbréf en er nóg að eignast vini bara á fyrsta fjórðungi ævinnar? Væri ekki gaman ef það eignasafn myndi líka vaxa?

Bestu máltíðir lífsins geta nefnilega verið vatn og brauð því það skiptir ekki máli hvað þú borðar heldur með hverjum.

Höfundur er samskiptasérfræðingur.