Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum undanfarnar vikur er margt sem orkar tvímælis við annan þátt í sölu ríkisins á eign sinni í Íslandsbanka. Sem kunnugt er þá seldi ríkið ríflega fimmtungshlut í bankanum 22. mars síðastliðin. Í stað þess að fara í almennt útboð eins og þegar fyrsta skrefið í einkavæðingu Íslandsbanka var stigið var efnt til útboðs með svokallaðri tilboðsleið.

Útboðið gekk greitt fyrir sig og var umframeftirspurn eftir hlutabréfum ríkisins í bankanum. En með hverjum degi sem liðið hefur frá útboðinu hefur fjöldi álitamála litið dagsins ljós. Fjölmiðlar hafa eðli málsins samkvæmt greint frá þessum álitamálum og að einhverju leyti staðið sig ágætlega við að skýra þau fyrir almenningi. Þannig er ákaflega undarlegt að ekki hafi verið gerð krafa um lágmarksupphæð þegar kom að tilboðum í hlut ríkisins eins og alla jafnan tíðkast í sambærilegum útboðum og enn undarlegra er að starfsmenn þeirra fjármálafyrirtækja sem sáu um söluna hafi tekið þátt. Að ekki sé minnst á að starfsmenn lífeyrissjóða hafi gert tilboð fyrir sig eða félaga í sinni eigin eigu á sama tíma og þeir gerðu tilboð fyrir hönd sjóðanna eins viðskiptavefurinn Innherji hefur greint frá.

***

En að einhverju leyti hafa fjölmiðlar ekki staðið sig vel og fréttaflutningurinn fyrst og fremst stýrst af þeim tilgangi að tortryggja málið í stað þess að greina frá efnisatriðum þess og leita álita á þeim. Að þessu leyti hafa fjölmiðlar gengið við hlið stjórnarandstöðunnar undanfarnar vikur.

Þannig virðist það hafa þvælst fyrir fjölmiðlum að ekki er hægt að tala um að afsláttur hafi verið veittur í útboði Bankasýslunnar á hlutabréfum í Íslandsbanka. Um tilboð var að ræða og verðið í útboðinu var einfaldlega það verð sem þátttakendur voru tilbúnir að greiða fyrir ríflega fimmtungs hlut í Íslandsbanka á þeim tímapunkti. Einnig virðist sú staðreynd þvælast fyrir fjölmiðlum að þátttakendur í útboðinu voru ekki valdir til leiks. Einungis var gerð krafa um að þátttakendur væru skráðir fagfjárfestar hjá einhverju fjármálafyrirtæki. Til þess að geta verið skráður sem slíkur þarf að uppfylla að minnsta kosti tvö af eftirfarandi skilyrðum: Að hafa átt í tilteknum fjölda viðskipta á markaði á ákveðnu tímabili; að upphæð þeirra viðskipta nemi ákveðinni upphæð og/eða hafa starfað á fjármálamarkaði og uppfylla skilyrði um ákveðna þekkingu á fjármálagerningum.

Þetta hefur leitt suma fjölmiðla í ógöngur þegar kemur að umfjöllun um útboðið. Fréttastofa Ríkisútvarpsins og Stöðvar 2 hafa þannig verið uppteknar við að flytja fréttir af því hverjir tóku þátt í útboðinu. Það sem er undirliggjandi við þann fréttaflutning er sú skoðun að óæskilegt fólk hafi tekið þátt en að sama skapi er aldrei tekið fram að sama fólkið hefur fullt frelsi til þess að kaupa bréf í bankanum í hefðbundnum markaðsviðskiptum og það var ekki að kjölfestuhlut í bankanum sem myndi svo gera það að verkum að Fjármálaeftirlitið þyrfti að leggja mat á hæfi þess.

Þessi fréttaflutningur hefur svo rímað ágætlega við kröfu stjórnarandstöðunnar um að stjórnvöld hefðu átt að handvelja þá sem væru þeim þóknanleg úr hópi þeirra sem lögðu inn tilboð. Þannig talaði Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, fyrir þessu sjónarmiði í Silfrinu á sunnudag. Þessi fréttaflutningur náði ákveðnu hámarki í kvöldfréttum RÚV á fimmtudaginn í síðustu viku. Þar var lesinn upp listi af kaupendum sem voru sagðir hafa verið í lykilhlutverki í fjármálakerfinu fyrir hrun. Fyrstur var lesinn upp Jón Hilmar Karlsson, eigandi Lyf og heilsu, en hann fagnaði einmitt þrettán ára afmæli sínu árið 2008.

***

Fjölmiðlar féllu einnig á prófinu síðustu helgi. Þá birti Páll Magnússon, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins og oddviti listans Fyrir Heimaey, færslu á Facebook-síðu sinni. Þar sagði Páll frá vini sínum sem hafði fengið símhringingu frá fjármálafyrirtæki í aðdraganda útboðsins sem varð til þess að hann keypti hlutabréf í Íslandsbanka fyrir um 100 milljónir. Að sögn Páls seldi hann svo strax morguninn eftir og hagnaðist um ríflega 10 milljónir á þessu gróðabralli.

Nánast allir fjölmiðlar fluttu fréttir af þessari færslu Páls og fékk hún mikla vigt í umræðunni sem fylgdi í kjölfarið. Það er ef til vill ofmælt að segja að þeir hafi flutt fréttir af færslunni þar sem þeir endursögðu hana án þess að leita svara við augljósum spurningum sem vöknuðu við lestur færslunnar. Þannig hefðu blaðamenn mátt vita að bréfin sem voru seld í útboðinu voru afhent sex dögum eftir að efnt var til þess.

Í ljósi þess er augljóst að vinur Páls hefur ekki getað selt bréfin í beinum viðskiptum morguninn eftir útboðið. Sú staðreynd grefur undan sannleiksgildi sögunnar svo ekki sé sterkar að orði kveðið. Vissulega er mögulegt að vinur Páls hafi gert framvirkan samning um afhendingu bréfanna byggðan á þeirri forsendu að tilboð hans yrði tekið gott og gilt en telja má afar litlar líkur á því að samningur hefði verið lokaður daginn eftir útboðið. En hafi vinur Páls sett bréfin í framvirkan samning þá hefði bankinn þurft að kaupa bréf í bankanum til að verja áhættuna. Hafi viðkomandi banki gert fjölda slíka samninga er fræðilegur möguleiki að hann hafi leyft vini Páls að loka samningnum og þá selt á bréf á móti degi eftir útboð og fengið nýju bréfin afhent síðar. Þetta er ákaflega langsótt og ólíklegt. Þannig bendir gengisþróun Íslandsbanka daginn eftir útboð ekki til að slík viðskipti hafi átt sér stað í stórum stíl.

Fjölmiðlar hefðu átt að leita svara við þessum spurningum áður en þeir birtu færslu Páls þar sem hún er frekar ótrúverðug án frekari upplýsinga. Þeir hefðu getað leitað svara hjá bönkunum um hvort framvirkir samningar hefðu verið gerðir í einhverjum mæli í tengslum við útboðið og svo hefðu þeir einfaldlega getað leitað í listann yfir kaupendur í útboðinu og fengið svör frá vini Páls hvernig þessu öllu var háttað. Það er ekki mikill fjöldi sem keypti fyrir þær upphæðir sem Páll nefnir í frásögn sinni og þeim sem koma til greina í þessu samhengi fækkar enn frekar ef gengið er út frá því að Páll Magnússon sé ekki í persónulegu vinasambandi við lögaðila á borð við eignastýringu Íslenskra verðbréfa og Landsbréf-Öndvegisbréf, svo einhver dæmi séu tekin.

***

Reyndar er ekki hægt að útiloka nána vináttu Páls við lögaðila í þessu samhengi. Hann hafði áður fullyrt að stór lífeyrissjóður hefði lagt inn tilboð í útboðinu fyrir 10 milljarða á genginu 122 en því kostaboði hefði verið hafnað af Bankasýslunni. Þessi fullyrðing Páls stangast á við það sem haft var eftir Jakobi Valgeiri Flosasyni, útgerðarmanni í Bolungarvík, í Fréttablaðinu í síðustu viku. Þar var haft eftir Jakobi Valgeiri að það hefðu verið lífeyrissjóðir sem hefðu þrýst genginu niður í 117 krónur í útboðinu og fela orð hans væntanlega í sér að verðið hefði verið hærra ef stórir stofnanafjárfestar hefðu ekki tekið þátt. Hverju sem því líður ætti að vera tiltölulega einfalt mál að kanna sannleiksgildi fullyrðinga um að stórum lífeyrissjóði hafi verið hafnað þó svo að hann hafi boðist til að kaupa hlutabréf fyrir um 10 milljarða á genginu 122 í útboðinu. Ríflega tuttugu lífeyrissjóðir tóku þátt í útboðinu. Stærstur hluti þeirra eru litlir sjóðir sem eru með eignir sínar í stýringu hjá fjármálafyrirtækinu þannig að eftir standa nokkrir stórir lífeyrissjóðir sem koma til greina. Það ætti að vera fljótunnið verk fyrir fjölmiðlafólk að hringja í þá og leita svara hvort þeir hafi lagt inn tilboð fyrir 10 milljarða á genginu 122 í útboðinu og verið hafnað.

Viðskiptablaðinu hefur borist eftirfarandi athugasemd frá Páli Magnússyni.

" Í færslu minni á facebook eru tiltekin tvö atriði varðandi söluna á Íslandsbanka og hvorugt er hrakið í þeirri grein í Viðskiptablaðinu sem hér er vísað til.

Í fyrsta lagi er frásögn kunningja míns af því, að eftir hringingu frá einum söluaðila bréfanna að kvöldi 22. mars keypti hann um milljón hluti á genginu 117 og seldi þá daginn eftir á genginu 127. Ekkert var sagt um tæknilega útfærslu þeirrar sölu enda geta hlutabréfaviðskipti farið fram með ýmsum hætti - alveg án tillits til afhendingartíma bréfanna í frumsölunni frá Bankasýslunni.

Hitt atriðið sem ég nefndi er kauptilboð sem barst frá stórum lífeyrissjóði þetta sama kvöld - sem vildi kaupa fyrir meira en 10 milljarða á síðasta skráða markaðsgengi dagsins, eða 122. Þessu tilboði var hafnað en sjóðnum boðið að kaupa fyrir rúma 3 milljarða á genginu 117. Þetta veit ég með vissu frá fyrstu hendi - og auðvelt fyrir þá á Viðskiptablaðinu að sannreyna með því að hringja einfaldlega í Bankasýsluna eða sjóðina sjálfa. Þeir eru ekki svo margir sem koma til greina.

Þeim sem vilja verja aðferðafræðina við þessa bankasölu bendi ég á að takast á við efnisatriði málsins í stað þess að reyna að skjóta sendiboðana.. "

Athugasemd ritstjórnar Viðskiptablaðsins: Rétt er að taka fram að það var ekki erindi ofangreinds fjölmiðlapistils að hrekja fullyrðingar Páls um síðasta útboð Íslandsbanka heldur að benda á augljósar spurningar sem um þær vakna og fjölmiðlar hefðu átt leita svara við þegar þeir fjölluðu um þær.