*

fimmtudagur, 19. september 2019
Týr
23. ágúst 2018 08:58

Vinir Pírata

Hvar draga hinir háheilögu og hreinlyndu Píratar mörkin og hvaða fólki þóknast þeim að vera innan um?

Haraldur Guðjónsson

Eins og frægt er hlupu þingmenn Pírata á síðustu stundu frá þeirri ákvörðun forsætisnefndar Alþingis (þar sem fulltrúi Pírata á sæti og mætir víst oftast), að forseti danska þingsins, Folketinget, ávarpaði fámenna fjöldasamkomu á Þingvöllum. Pírataþingmaðurinn Jón Þór Ólafsson á sæti í forsætisnefndinni, en seinþreyttur til vandræða sem hann þó er, gerði hann engar athugasemdir við boðið til danska þingforsetans. Ekki frekar en aðrir þingmenn Pírata eða Samfylkingar, þótt það væri kynnt rækilega fyrir þingi og þjóð á vef Alþingis og sérstaklega fyrir þingmönnum í tölvupóstum frá skrifstofu þingsins.

                        ***

Kvöldið fyrir fundinn var hins vegar tíst og lækað á samfélagsmiðlum um að forseti danska þingsins væri „umdeild“ og hefði gerst sek um óæskilega orðræðu. Það var nóg. Þingmenn Pírata fengu hland fyrir hjartað og tóku þá skyndiákvörðun eftir andvökunótt að koma ekki til hátíðarfundarins vegna nærveru Danans. Þar með tryggðu þeir að fundurinn myndi snúast um Pia Kjærsgaard og sjónarmið hennar en ekki hinn merka áfanga í Íslandssögunni fyrir 100 árum.

                        ***

Nú er það auðvitað ekki stórmannlegt að falla á síðustu stundu frá eigin ákvörðunum eins og Píratar og Samfylkingin gerðu að þessu sinni, en hver bjóst svo sem við stórmennsku af hálfu þeirra? Spurningin er fremur hvar hinir háheilögu og hreinlyndu Píratar draga mörkin? Hvaða fólk þóknast þeim að vera innan um? Hvers konar fólk vilja þeir helst hitta á fundum?

                        ***

Svarið við því fékkst nokkrum dögum síðar þegar fulltrúar alþjóðasamskiptadeildar kínverska kommúnistaflokksins sóttu Ísland heim, en hún mun hafa starfað að góðum málum allt frá fyrstu valdaárum Maós formanns. Á mynd sem birtist í DV má sjá Píratann Smára McCarthy stilla sér upp gleiðbrosandi fyrir ljósmyndara með kínversku kommúnistunum að loknum fundi þeirra. Þar hafa menn það. Píratar vilja gjarnan hitta sendinefnd eina leyfilega stjórnmálaflokks blóði drifins einræðisríkis á sérstökum fundi, en geta ekki hugsað sér að vera á Þingvöllum á sama tíma og fulltrúi vinaþjóðar og þingforseti eins fremsta lýðræðisríkis heims, sem þeir tóku sjálfir ákvörðun um að bjóða til landsins!

Þessi skoðanapistill Týs birtist í Viðskiptablaðinu 16. ágúst.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.