*

laugardagur, 28. nóvember 2020
Anna Sif Jónsdóttir
25. október 2020 13:29

Vinsamlegast hinkrið eftir starfsmanni

Innra eftirlit á sér stað víðar en margir telja. Til að mynda við sjálfsafgreiðslukassa matvöruverslana.

Höskuldur Marselíusarson

Margir halda að innra eftirlit sé verkefni sem hópur mjög mikilla sérfræðinga sinnir en í raun og veru hefur innra eftirlit margar birtingarmyndir og því er sinnt á mörgum stöðum. Ég ætla að fá að tengja tvo þætti innra eftirlits, áhættumat og eftirlitsaðgerðir við hversdagslegan hlut sem allir þekkja, sjálfsafgreiðslukassa í matvöruverslunum.

Áhættumat er greining og mat á því sem getur ógnað settum markmiðum í rekstri fyrirtækja. Matið er svo undirstaða þess hvernig brugðist er við, svo sem með eftirlitsaðgerðum sem ætlað er að draga úr áhættunni.

Leiða má líkum að því að niðurstaða áhættumats fyrir sjálfsafgreiðslukassa hafi verið að hætta væri til staðar að viðskiptavinir greiddu fyrir of fáa hluti, þ.e. ekki væru allir hlutir skannaðir með tilheyrandi fallegu píp-hljóði. Til að bregðast við þessu er innbyggð eftirlitsaðgerð í sjálfsafgreiðsluferlinu, hárnákvæm vigt er undir fletinum sem viðskiptavinir leggja vörurnar sínar á. Vigtin er það nákvæm, að ef hluti Kátínu (Cheerios) pakkans stendur út af fletinum, þá fer af stað „athuga vöruþyngd“ ferli og þá er um að gera að bregðast snöggt við því annaðhvort endar ferlið á að vigtin verður sátt og hægt er að halda áfram að skanna eða þá að kassinn kveður upp dóm og segir hátt og snjallt „Vinsamlegast hinkrið eftir starfsmanni“.

Þá er afgreiðsluferlið stopp og þá er ekkert annað að gera en að skima í kringum sig eftir starfsmanni og senda honum hjálparvana hvolpaaugnaráð. Það sem starfsmaðurinn gerir er einnig hluti af eftirlitsaðgerð en, satt best að segja, sýnist mér starfsmaðurinn alltaf gera það sama, hann veifar hvítu spjaldi fyrir framan skannann og kannski slær hann inn kóða.

Ég man ekki til þess, í eftirmiðdagstraffíkinni, að starfsmaður hafi gefið sér tíma til að stemma af strimilinn og það sem er á skannaða fletinum enda myndi það hægja mjög mikið á afgreiðsluferlinu og þá er enginn glaður því allir viðskiptavinir eru frekar til í að þjóta í gegnum ferlið í stað þess að njóta.

Ég hef mikið velt fyrir mér „Ég er með eigin poka“ skipuninni í afgreiðslukössunum því eigin pokar geta verið misþungir og ég hef aldrei verið spurð að því hversu marga eigin poka ég er með. Stundum kemur dóttir mín með að versla og þá getum við mæðgur bæði skannað og sett í poka á sama tíma.

Þetta ætti í raun að flýta ferlinu því þá skannar hún af miklum móð á meðan ég raða vörum í eigin poka. Þetta er hins vegar ansi vandasamt verk því við það að setja vöruna í poka þarf að taka vöruna af vigtarfletinum og „athuga vöruþyngd“ ferlið fer af stað á skjánum. Í þessu er galdurinn ákveðinn ryþmi og ef pokadýrið, sem er alltaf ég, vinnur nógu hratt og heldur sig innan fletis gengur þetta allt saman upp.

Síðan fyrstu áhættumöt voru gerð fyrir sjálfsafgreiðslukassa hefur bæst við ný utanaðkomandi hætta sem er smitáhætta vegna alheimsvíruss. Sem eftirlitsaðgerð til að bregðast við þessari áhættu eru starfsmennirnir sem veifa hvíta spjaldinu nú einnig vopnaðir spritti og tusku.

Þeir eru nú komnir með nýtt verkefni sem er að spritta snertifleti afgreiðslukassans á milli viðskiptavina. Ég get ekki betur séð en að starfsmenn sinni þessu nýja verkefni af mikilli röggsemi og ég efast ekki um að þeir eigi ekki í neinum vandræðum með að ná 10 þúsund skrefa markmiðinu á hverjum degi. Ég hef aðeins velt fyrir mér hvaða áhrif þetta nýja verkefni hafi á það eftirlitshlutverk sem starfsmenn hafa gagnvart athugun á vöruþyngdinni en starfsmönnum virðast ekki hafa fjölgað með þessum nýju verkefnum.

Þar sem ég er alltaf að þjóta ekki njóta þá hlýði ég afgreiðslukassanum þegar hann minnir mig á að taka kvittunina og dríf mig út, og já, vel á minnst, strimillinn og hvað ég geri við hann er einnig hluti af innra eftirliti því ég ætti að taka strimilinn heim, vera stétt minni til sóma og stemma af það sem er á strimlinum og í pokunum til að vera viss um að hafa ekki borgað fyrir of marga hluti.

Höfundur er innri endurskoðandi Kviku banka og stjórnarmaður í Félagi um innri endurskoðun.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.