*

mánudagur, 25. október 2021
Týr
25. september 2021 14:05

Vinstri beygja framundan

Týr rifjar upp árangursleysi síðustu vinstri stjórnar og bendir á að lífskjör hafi sjaldan eða aldrei verið jafn góð og nú.

Að öllu óbreyttu, þá verða leiðtogar Samfylkingar, Vinstri grænna, Viðreisnar, Pírata og Framsóknar - ýmist allir eða einhverjir - komnir áleiðis með drög að stjórnarsáttmála vinstri stjórnar þegar Týr stingur aftur niður penna í næstu viku. Miðað við kannanir er afar hæpið að núverandi ríkisstjórn haldi velli og Týr veit sem er að Viðreisn, Samfylkingin og Píratar munu reyna allt sem flokkarnir geta til að koma í veg fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn sitji áfram í ríkisstjórn. Flokkarnir munu eflaust ekki ganga svo langt að mynda ríkisstjórn með Gunnari Smára Egilssyni, en það má ekki útiloka neitt.

* * *

Hér sat vinstri stjórn við völd frá 2009-2013 og árangursleysi hennar var áþreifanlegt. „Okkur færðist vissulega mikið í fang og það má vissulega segja að það hefði verið auðveldara að hafa minna undir," sagði Steingrímur J. Sigfússon, annar forystumanna þeirrar ríkisstjórnar, í viðtali við Viðskiptablaðið í febrúar 2013. Þá hafði ríkisstjórninni, þrátt fyrir að hafa gert þetta að forgangsverkefnum, mistekist að gera umfangsmiklar breytingar á stjórnarskránni og á fiskveiðistjórnunarkerfinu auk þess sem aðildarviðræður að Evrópusambandinu höfðu siglt í strand. Öll þessi mál eru enn ofarlega á forgangslista vinstri flokkanna þó að ekkert þeirra sé til þess fallið að bæta lífskjör hér á landi.

* * *

Þess utan var skuldavandi heimilanna enn óleystur en hann var hvort eð er ekki á forgangslista Jóhönnu-stjórnarinnar. Heimilin refsuðu fyrir það í kosningum þremur mánuðum síðar og þá tók við ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks undir forystu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Þó svo að Týr hafi af ýmsum ástæðum gagnrýnt þá ríkisstjórn sem og þá sem nú situr þá verður því ekki neitað að lífskjör hér hafa sjaldan eða aldrei verið jafn góð og nú.

* * *

Mögulega höfum við því efni á vinstri stjórn. Það mun færa okkur aðeins aftur í tímann í efnahagslegu tilliti, skattar og vextir munu hækka, hagvöxtur mun minnka og óvissa skapast í þeim kjaraviðræðum sem eru fram undan. Við þolum það mögulega í fjögur ár.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.