*

mánudagur, 13. júlí 2020
Týr
8. febrúar 2020 12:05

Vinur skoðar sjálfan sig

Einn brýnasti hluti réttlátrar málsmeðferðar að unnt sé að áfrýja máli. Sá réttur er einskis virði ef sami dómarinn dæmir á efra stigi og neðra.

Róbert Spanó, dómari við Mannréttindadómstóll Evrópu og fyrrverandi forseti lagadeildar Háskóla Íslands.
Ómar Óskarsson

Undirdeild hins pólitísks kjörna Mannréttindadómstóls Evrópu sendi frá sér það álit á síðasta ári að maður, sem játaði brot sín fyrir íslenskum dómstólum, hefði ekki notið réttlátrar málsmeðferðar fyrir Landsrétti. Hæstiréttur hafði áður komist að þeirri niðurstöðu að maðurinn hefði notið réttlátrar málsmeðferðar og málsmeðferðin væri í fullu samræmi við mannréttindasáttmála Evrópu. Um það voru allir dómarar í Hæstarétti sammála. Sú niðurstaða Hæstaréttar var kærð til MDE. 

                                          ***

Meirihluti (5 af 7) undirdeildar MDE reyndist hins vegar ósammála mati Hæstaréttar. Í meirihlutanum voru fulltrúar frá Albaníu, Tyrklandi, Svartfjallalandi, Noregi og Íslandi. Sjálfsagt allt vammlaus góðmenni þótt efast megi um þekkingu þeirra flestra á íslenskum rétti. En eru menn ekki búnir að missa stjórn á alþjóðasamstarfi ef Norðmaður og Svartfellingur geta ráðið úrslitum um það hvernig dómsvaldið er skipað (og jafnvel hvaða ráðherrar sitja í ríkisstjórn?). Geta Tyrki og Albani í alvöru ýtt til hliðar lögmætum ákvörðunum ráðherra, Alþingis og Hæstaréttar Íslands? 

                                          ***

Yfirdeild MDE samþykkti síðan að taka málið fyrir og þar með hefur álit undirdeildarinnar aldrei fengið gildi. Hins vegar var frá því sagt í fréttum að fyrrverandi dómsmálaráðherra Íslands hefði sent MDE greinargerð vegna margvíslegra ásakana sem koma fram í greinargerð lögmanns brotamannsins en að MDE hefði hafnað því að dómarar sínir myndu kynna sér greinargerð ráðherrans. Er ekki hluti af réttlátri málsmeðferð hjá MDE að fá að bera af sér sakir? 

                                          ***

Einn mikilvægasti þátturinn í réttlátri málsmeðferð er að unnt sé að áfrýja máli. Sá réttur er einskis virði ef sami dómarinn dæmir á efra stigi og dæmdi á því neðra. Það væri andstætt stjórnarskrá Íslands og mannréttindasáttmála Evrópu. En þannig er því þó einmitt farið hjá MDE. Íslendingurinn Róbert Spanó, sem sat í undirdeildinni, mun einnig sitja í efri deildinni! 

                                          ***

Það er auðvitað enn einkennilegra í ljósi þess að Róbert er vinur lögmannsins sem rekur málið. Íslenskur aðstoðarmaður við MDE, Hildur Hjörvar, er svo fyrrverandi frambjóðandi Samfylkingarinnar og formaður Hallveigar, ungra jafnaðarmanna í Reykjavík. Ekkert hefur verið upplýst um aðkomu hennar að málinu og hvort hún eigi líka að vinna að því á báðum stigum.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.