Ferðaþjónusta hríslast niður í gegnum allt samfélagið og hefur víðtæk efnahagsleg, félagsleg, umhverfisleg og menningarleg áhrif, hvort sem horft er til heimamarkaðar eða á heiminn allan.

Á sama tíma hefur þróun ferðaþjónustu sem atvinnugreinar í för með sér bæði tækifæri og áskoranir.

Líkt og út í hinum stóra heimi hefur ferðaþjónusta vaxið og eflst á Íslandi á undanförnum 10 árum og skapað sér stöðu sem ein helsta útflutningsgrein landans. Greinin hefur þegar á heildina er litið haft góð áhrif á Íslandi, stutt við innviðauppbyggingu og aðra þjónustu og þar með eflt velsæld Íslendinga.

Að efla samkeppnishæfni

Íslenski ferðaklasinn gegnir mikilvægu hlutverki í vistkerfi íslensks atvinnulífs. Hlutverk hans er að efla samkeppnishæfni og verðmætasköpun í íslenskri ferðaþjónustu. Vettvangurinn stuðlar að því að efla hæfni stjórnenda og gæði greinarinnar á breiðu sviði. Starfsemi Ferðaklasans byggir á verkefnadrifnu samstarfi þeirra ólíku aðildarfélaga og hagaðila sem að klasanum standa. Keppikefli klasans er að bregðast ekki einungis við erfiðum og krefjandi aðstæðum sem kunna að koma upp og munu koma upp heldur að vera sá vettvangur sem leiðir nauðsynlegar breytingar og nýsköpun í íslenskri ferðaþjónustu með langtíma verðmætasköpun og uppbyggingu að leiðarljósi.

Ferðaþjónusta er og verður drifin áfram af fólki fyrir fólk sem sækist eftir einstakri upplifun og framúrskarandi þjónustu. Á vettvangi klasans mætast ólíkir aðilar með mismunandi þekkingu og reynslu, sem keppa innbyrðis en vinna sameiginlega að því að efla samkeppnishæfni ferðaþjónustu í heild sinni svo hún megi byggjast upp til framtíðar í jafnvægi félagslegra, efnahagslegra og umhverfislegri þátta.

Drifkraftur framfara

Það er okkur sem vinnum með greininni augljóst að ferðaþjónusta er drifkraftur framfara. Atvinnusköpun síðustu tíu ár hefur að mestu verið drifin af ferðaþjónustu um heim allan. 2019 vó greinin um 10,3% af landsframleiðslu heimsins og veitti um 330 milljónum manns atvinnu eða 1 af hverjum 10 einstaklingum. Vöxtur greinarinnar var það mikill síðastliðin fimm ár að eitt af hverjum fimm nýjum störfum sem urðu til, var að finna í ferðaþjónustu. Ferðaþjónusta er þýðingamikil fyrir alla, bæði þá sem kjósa að ferðast en ekki síður fyrir þá sem stunda viðskipti og byggja upp samfélög.

Á Íslandi fór vöxtur greinarinnar langt umfram spár og tölur á heimsvísu og hafði víðtæk áhrif á íslenskt samfélag. Það varð því ljóst þegar áhrifa heimsfaraldurs lét á sér kræla 2020-2021 að áhrifanna gætti víða og æ meir eftir því sem á leið. Það staðfestist jafnt hér sem annars staðar að ferðaþjónusta er mikilvæg stoð í hagkerfum heimsins og drífur áfram framfarir með margvíslegum hætti.

Sjálfbærni og ábyrg ferðaþjónusta

Fyrirtæki þurfa að tileinka sér sjálfbærni í einu og öllu, ekki bara í ferðaþjónustu heldur í öllum atvinnugreinum. Hvort heldur sem talað er um vöxt án aðgreiningar eða mótun stefnu, verðmætasköpun eða viðskipti. Samfélagsleg ábyrgð er hluti af DNA mengi hverrar skipulagsheildar og er lykillinn að samkeppnishæfni hvers áfangastaðar og í framhaldi fyrirtækja.

Íslenski ferðaklasinn hefur verið í fararbroddi í fræðslu og þjálfun aðildarfélaga sinna og annarra þátttakenda þegar kemur að verkefnum sem snúa að sjálfbærni og ábyrgri ferðaþjónustu og ætlar sér að vera það áfram. Framtíðarsýn vettvangsins er að ferðaþjónustan sé til á forsendum íslensks samfélags sem styðji við aukin lífsgæði og auknar efnahagslegar, félagslegar og umhverfislegar framfarir íbúanna í landinu.

Samstarf sem skilar árangri

Með auknu samstarfi, þar sem ábyrgð og aukin hæfni félaga og þátttakenda í starfsemi klasans er í fyrirrúmi næst að skapa þau eftirsóknaverðu jákvæðu áhrif sem áfangastaðir um allan heim keppast að. Með því að halda áfram að efla enn frekar aðgerðir sínar á sviði ábyrgrar stjórnunar, beina spjótum sínum að hverskonar nýsköpun sem eflir fyrirtækin í landinu og auðveldar þeim frekari verðmætasköpun, þjálfa og fræða stjórnendur og starfsmenn íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja í stafrænni þróun og virkja alþjóðlega tengslamyndun mun íslensk ferðaþjónusta áfram vera ein af mikilvægustu áhrifaöflum til framþróunar og bættra lífsgæða í landinu.

Samstarf við lykil stofnanir, áfangastaðastofur, stjórnvöld og hagsmunasamtök greinarinnar er mikilvægt því framtíð áfangastaðarins Íslands á allt undir því að okkur takist vel til.

Höfundur er framkvæmdastjóri Íslenska ferðaklasans.