Ef lýsa ætti íslensku atvinnulífi með tveimur orðum þá kæmu kraftur og sveigjanleiki fyrst í huga. Segja mætti að við værum í það minnsta Evrópumeistarar í hvoru tveggja. Áræðni og framtakssemi kæmu næst á eftir. Það hagvaxtarskeið sem nú er að baki er lýsandi fyrir þessa eiginleika okkar. Á tæpum áratug hristum við af okkur timburmenn fjármálakreppunnar, rifum okkur upp úr algjöru hruni og náðum nýjum hæðum. Á tæpum áratug breyttum við okkur úr fjármálamiðstöð í ferðamannaland.

„All-in“

Á þessum tæpa áratug fjölgaði ferðamönnum á hvern íbúa úr einum og hálfum í sjö. Ég held að fá samfélög gætu tekist á við slíkan vöxt. En við fórum líka öll „all-in“ ef svo mætti segja. Miðborginni var breytt í eitt stórt gistiheimili þar sem við náðum ekki að byggja hótelin nógu hratt. Þegar það dugði ekki til var annað hvert heimili komið í AirBnb rekstur. Veitingahús og barir spruttu upp eins og gorkúlur, nokkrir notaðir bílar urðu að bílaleiguveldi og breyttur jeppi var orðinn að afþreyingarfyrirtæki í ferðaþjónustu áður en menn vissu af. Nýtt flugfélag var hrist fram úr erminni, byggingariðnaður fór á yfirsnúning til að anna vextinum og landsmönnum fjölgaði um 10% eins og hendi væri veifað.

Það er í raun magnað að okkur hafi tekist að vaxa svona hratt án þess að það hefði verulega neikvæðar afleiðingar fyrir upplifun ferðamanna af Íslandi. En okkur tókst það! Við höfum líka náð að nýta óvenju langt tímabil hagvaxtar til góðs. Staða þjóðarbúsins er góð. Kaupmáttur er mikill, heimili og fyrirtæki nokkuð skuldlítil í sögulegu samhengi. Vandinn er hins vegar sá að við erum komin á allt of kunnuglegar slóðir í efnahagslífinu.

Það er nefnilega svo að það þarf ekki tvö orð til að lýsa helstu eiginleikum íslensks efnahagslífs. Eitt orð er nóg og það er óstöðugleiki. Og nú er komið að því að takast á við niðursveifluna. Við erum enn að byggja hótel á meðan ferðamannafjöldinn er á niðurleið. Inn á fasteignamarkaðinn streyma nú íbúðir sem ferðamenn vilja ekki lengur leigja og skyndilega er byggingariðnaður í hraðri niðursveiflu. Bankarnir að hækka álögur og draga úr útlánum á sama tíma og Seðlabanki reynir að dæla súrefni inn með vaxtalækkunum. Þetta er því miður of kunnugleg þróun þegar horft er til síðustu áratuga. Undir lok síðustu aldar var iðnaður málið. Við byggðum upp Össur og Marel og margfölduðum orkuframleiðslu fyrir stóriðju. Svo kom smá skellur en þá tók fjármálakerfið við keflinu og við byggðum upp alþjóðlega fjármálamiðstöð á fimm árum. Og þá kom stór skellur.

Mætti kannski bjóða okkur aðeins meiri stöðugleika?

Í umræðu um íslenskt efnahagslíf er oft talað um hvað það sé sérstakt. Hvað hagkerfið okkar vaxi miklu hraðar en önnur hagkerfi og því þurfum við meiri sveigjanleika og sjálfstæðan gjaldmiðil. Vandinn við þessa röksemdafærslu er hins vegar sá að yfir lengri tíma vöxum við ekkert hraðar. Við erum bara óstöðugri. Vöxum stundum hratt en drögumst líka hratt saman. Á síðustu þremur áratugum hefur landsframleiðsla á mann vaxið að meðaltali um 1,8% á ári. Það er svipað og hjá Svíþjóð og Lúxemborg en mun minna en hjá Írum og flestum nýjum ríkjum í Evrópusambandinu, ef út í það er farið. Meginvandi íslensks efnahagslífs er óstöðugleiki þess. Rót hans má alltaf rekja til sömu þátta þ.e. krónunnar okkar og samspils hennar við vinnumarkaðinn. Á undanförnum þremur áratugum höfum við farið í gegnum þrjár svona sveiflur og erum núna í miðri þeirri fjórðu. Sveiflan hefst alltaf eins. Eftir niðursveiflu er gengi krónunnar lágt, laun lág og við samkeppnishæf. Útflutningur fer því að vaxa á ný. Laun taka að hækka mikið, langt umfram framleiðni, og krónan styrkist með. Loks er samkeppnishæfni útflutningsfyrirtækjanna uppurin. Við erum orðin allt of dýr og á endanum fellur krónan til að rétta kúrsinn. Og svo byrjar ballið á nýjan leik. Fá þjóðfélög búa við jafnmikinn óstöðugleika og við í þessum efnum.

Vandinn er að við notum krónuna sem hækju í þessum efnum. Krónan verður afsökun fyrir verkalýðshreyfinguna að taka ekki ábyrgð á samkeppnishæfni til lengri tíma. Krónan er skálkaskjól fyrir ríkisstjórnir sem ekki geta hamið útgjaldaþenslu á tímum hagvaxtar. Það axlar enginn ábyrgð á gengisfellingum þegar þær koma, en það keppast allir um að þakka sér velgengnina meðan veislan stendur sem hæst. Krónan er okkur ekki aðeins dýr í formi hárra vaxta. Hún er okkur mun dýrari vegna þess efnahagslega óstöðugleika sem hún ýtir undir.

Það er illa farið með aflið sem einkennir íslenskt atvinnulíf þegar eyða þarf svona mikilli orku í að bregðast við þessum óstöðugleika. Væri ekki betra ef við gætum nýtt þennan kraft, áræðni og framtakssemi sem í okkur býr án þess að þurfa alltaf að taka stóran skell inn á milli. Án þess að þurfa alltaf að leggja allt undir og fara svo reglulega aftur á byrjunarreit.

Höfundur er þingmaður og varaformaður Viðreisnar.