*

miðvikudagur, 21. apríl 2021
Svana Gunnarsdóttir
29. mars 2021 08:44

Vísisjóðir og verðmætasköpun

„Ísland getur svo sannarlega orðið nýsköpunarlandið þar sem hagkerfið er drifið áfram af nýsköpun.“

Íslenska hagkerfið stendur á tímamótum. Meginstoðir þess byggja á auðlindanýtingu sem er ekki sjálfbært til lengri tíma litið. Það liggur fyrir að hagkerfið til framtíðar þarf að byggja á hugviti til verðmætasköpunar. Ef við viljum viðhalda sömu lífskjörum sem og ná tökum á atvinnuleysi hér á landi þá þurfa samkvæmt greiningu Samtaka iðnaðarins 60 þúsund ný störf að skapast hér á landi á næstu 30 árum eða 2 þúsund ný störf á ári. Þessi störf verða ekki til af sjálfu sér. Þau þarf að skapa og það gerist ekki nema með sköpun nýrra verðmæta og til þess þarf rétt hugarfar, aðgengi að fjármagni, vel menntuðu og hæfileikaríku vinnuafli, traustum innviðum og skilvirku hagkvæmu og stöðugu starfsumhverfi.

Nýsköpun er grunnforsenda verðmætasköpunar, samkeppnishæfni og gjaldeyrisöflunar fyrirtækja og þjóða. Nú þarf að leggja miklu meiri áherslu á að virkja hugvitið í nýsköpun til að skapa nýjar atvinnugreinar og fjölbreyttari störf til framtíðar.

Ein meginfyrirstaða nýsköpunarfyrirtækja til vaxtar hefur verið takmarkað aðgengi að fjármagni á fyrstu stigum vaxtar. Fjárfestingar í sprotafyrirtækjum eru áhættusamar og krefjast þolinmæði en þær eru að sama skapi uppspretta nýrra vel launaðra sérfræðistarfa. Það er ánægjulegt að sjá að það eru að verða til faglegir vísisjóðir á Íslandi sem hafa þekkingu á þessum eignaflokki og burði til að fjárfesta í honum.

Hvað er vísisjóður?

Vísisjóður safnar áskriftum frá fjárfestum, á Íslandi eru það aðallega lífeyrissjóðirnir sem eru þátttakendur. Þessir sjóðir fjárfesta yfirleitt í snemmbærum fjárfestingum þar sem vænta má mikils vaxtar og verðmætasköpunar. Líftími sjóðanna er almennt 7-13 ár og markmiðið að fjárfesta og selja á starfstíma sjóðsins. Þegar nýfjárfestingum er lokið, sem er yfirleitt eftir 4-5 ár, er starfstíminn nýttur til eftirfylgni og virðisaukningu á fjárfestingum. Til þess að tryggja samfellu í starfi rekstraraðilans er byrjað að safna í nýjan sjóð þegar nýfjárfestingum er lokið. Þetta eru áhættufjárfestingar en að sama skapi er möguleiki á mikilli ávöxtun. Markmiðið er að byggja upp öflug fyrirtæki sem geta verið leiðandi á sínu sviði þannig að þau skili góðri ávöxtun til fjárfesta.

Mikilvægi vísisjóða

Hér á landi gegna sjóðirnir mikilvægu hlutverki í að brúa bilið á milli sprotafjármögnunar, sem er samsett af styrkjum frá Tækniþróunarsjóði, fjárfestingum frá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins og viðskiptaenglum, og síðan sjóða sem fjárfesta í þroskuðum rekstrarfélögum. Þetta er ekki hvað mikilvægast í ljósi þeirrar staðreyndar að ef ekki er tryggt fjármagn til fyrirtækjanna til að vaxa þá ná sprotarnir ekki að verða sá burðarstólpi atvinnulífsins sem æskilegt er í samfélagi sem vill fjölbreytt atvinnulíf, vel launuð störf og fyrirtæki sem skapa gjaldeyri. Þar með er kastað fyrir róða þeirri fjárfestingu sem samfélagið hefur þegar sett í sprotafyrirtækin og þá nýsköpun sem þar er að finna.

Þrátt fyrir að nýsköpunarfyrirtæki séu komin með tekjur og viðskiptavini ríkir oft á tíðum áfram óvissa um tekjur þeirra og framtíðarvöxt þar sem hann byggir á nýrri vöru, tækni eða markaði. Hér er ekki aðeins um óvissu að ræða er varðar það hvort tekjur skili sér heldur einnig hvaða tíma það tekur og því mikilvægt að fyrirtækjum sé veittur stuðningur í formi fjármögnunar, ráðgjafar og eftirfylgni. Þarna gegna vísisjóðir lykilhlutverki.

Algengt er að það taki 10 til 15 ár fyrir sprotafyrirtæki að ná verulegum vexti. Fjárfestingar í slíkum fyrirtækjum krefjast því þolinmæði.

Eftirfylgni er lykilatriði

Það hefur sýnt sig að afgerandi árangursþáttur er eftirfylgni sjóðanna með fjárfestingum sínum og fjárfestingaferillinn sem sjóðirnir hafa þróað. Með þessu hefur skapast mikil reynsla og þekking sem styrkir fjárfestingar sjóðanna. Þessa þekkingu og reynslu er að finna í rekstraraðila sjóðanna. Þannig er eftirfylgni með sprotafjárfestingum lykilatriði svo að þær geti tekist vel.

Þrátt fyrir að nýsköpunarfyrirtæki séu komin með tekjur og viðskiptavini ríkir oft á tíðum áfram óvissa um tekjur þeirra og framtíðarvöxt þar sem hann byggir á nýrri vöru, tækni eða markaði. Hér er ekki aðeins um óvissu að ræða er varðar það hvort tekjur skili sér heldur einnig hvaða tíma það tekur og því mikilvægt að fyrirtækjum sé veittur stuðningur í formi ráðgjafar og eftirfylgni.

Aðalsmerki eftirfylgni eru árangursrík samskipti við frumkvöðla og stjórnendur fyrirtækja þar sem reynsla fjárfestingastjóra sjóðsins í rekstri fyrirtækja skilar sér, ekki aðeins í úrlausn tækifæra heldur einnig í erfiðum málum sem fylgja fjárfestingum sem þessum. Rannsóknir sýna að frumkvöðlar meta mest persónulegt samband og traust við fjárfesta og telja það grundvöll fyrir samstarfi og árangri.

Eins þarf að búa yfir því úthaldi og þrautseigju sem þarf til og með faglegum vinnubrögðum sem má sjá í ferlum, hlítingu við stefnur, góða stjórnarhætti og skýrslugjöf til hluthafa.

Verðmætasköpun er áskorun

Þumalfingurreglan um afkomu vísisjóða sem fjárfesta í tíu félögum er að allt að þriðjungur fjárfestinga nái ekki að skila höfuðstól til baka og jafnvel tapist, allt að þriðjungur nái rétt að skila höfuðstól til baka með lítilli ávöxtun og allt að þriðjungur skili einhverri ávöxtun að ráði. Loks sé talið mjög gott ef eitt félag skilar mikilli ávöxtun.

Fyrirtækin sem eru valin til fjárfestingar geta stækkað hratt þar sem sala og markaðssetning er yfirleitt erlendis. Það eru mikil tækifæri í greinum eins og fjártækni, heilsutækni, menntatækni, matvælatækni, orkutækni og umhverfistækni. Varðandi áhrif á samfélagið þá er það þannig að þegar rekstur sprotafyrirtækja er kominn á skrið verður veldisvöxtur í ráðningum og sköpun nýrra starfa. Almennt starfa tveir til tíu hjá fyrirtækjunum fyrstu þrjú árin, næstu þrjú ár fjölgar þeim í tíu til tuttugu, svo verða þeir 20-50 næstu þrjú ár og loks kemur veldisvöxtur.

Stærstu fjárfestar í vísisjóðum á Íslandi eru lífeyrissjóðirnir og gegna þeir mikilvægu hlutverki því það er nánast ógerlegt að safna í sjóð án þeirra þátttöku. Það má þakka þeim fyrir hugrekkið að stíga skrefið með þátttöku í Frumtak 1 eftir hrunið í lok 2008 og í aðra víssjóði í framhaldi af því. Með því að sinna þessum eignaflokki, þá er raunverulegur möguleiki á því að þessar fjárfestingar, hugvitsdrifnar fjárfestingar, geti orðið grunnstoð í okkar hagkerfi á næstu áratugum og uppspretta fjölbreytni í atvinnulífi til hagsbóta fyrir alla sem hér búa.

Stofnun Kríu - sjóðasjóður

Það var tekið mjög mikilvægt skref þegar ríkið ákvað að stofna sjóðasjóðinn Kríu sem mun fjárfesta í vísisjóðum með því að koma með viðbótarfjármagn í lokin þegar aðrir fjárfestar væru búnir að skila sínum fjárfestingaloforðum. Ég tel að þetta geti haft úrslitaáhrif á að sjóðir nái að loka og hefja starfsemi. Ráðherra nýsköpunar og hennar ráðuneyti eiga miklar þakkir skilið fyrir að beita sér fyrir ýmsum úrræðum sem eru til bóta fyrir vísisjóði og félögin sem þeir fjárfesta í. Má þar nefna hækkun heimilda lífeyrissjóðanna og stofnun Kríu, sem og aðgerðir fyrir nýsköpunarfyrirtæki með hækkun á endurgreiðsluhlutfalli vegna rannsóknar og þróunar, hækkun á þaki endurgreiðslna og stuðnings Kríu sem kemur með mótframlag með fjárfestum í lánum til fyrirtækja.

Árangurinn er til staðar

Ef við tökum okkar eigin sjóði sem Frumtak Ventures rekur þá höfum við fjárfest í 21 fyrirtæki frá 2009, og eru þetta fyrirtæki eins og Controlant, SidekickHealth og Meniga sem hafa náð miklum árangri. Sjóðirnir hafa fjárfest fyrir sjö milljarða króna í þessum fyrirtækjum og fengið meðfjárfesta með sér sem hafa fjárfest fyrir um 11 milljarða þannig að heildarfjárfesting í fyrirtækjunum er um 18 milljarðar. Heildarverðmat fyrirtækja í eignasafni Frumtaks sjóðanna er um 36 milljarðar í dag. Nýsköpunarfyrirtæki sem sjóðir Frumtaks eru hluthafar í eru með um 660 starfsmenn og er reiknað með að starfsmönnum þeirra muni fjölga um 70 til 100 á ári. Verðmætustu fyrirtækin í eignasafni vísisjóða bæta mestu við virði sitt á síðustu tveimur eða þremur árunum áður en þau eru seld. Þess vegna geta þessar eignir sýnt litla virðisaukningu í mörg ár áður en þau verða afar verðmæt. Þetta hefur endurspeglast greinilega í þróun á verðmati Frumtakssjóðanna síðustu ár og hafa útgöngur skilað góðri ávöxtun til fjárfesta sjóðsins.

Það hefur orðið mikil hugafarsbreyting í samfélaginu síðan við fórum af stað með fyrsta sjóðinn fyrir áratug. Það er komin miklu meiri þekking og reynsla bæði hjá fjárfestum og frumkvöðlum og það er farið að hugsa miklu stærra en áður. Það er nóg af fjárfestingartækifærifærum á Íslandi en við verðum að skapa réttar aðstæður og umhverfi til þess að skapa þau.

Ég tel að við Íslendingar séum með sköpunarkraftinn og þorið í eðlinu, sem er það mikilvægasta, allt annað er hægt að raða í kringum það. Þetta er langhlaup og það hefur sýnt sig að við erum með úthaldið, þrautseigjuna og gefumst ekki auðveldlega upp. Ísland getur svo sannarlega orðið nýsköpunarlandið þar sem hagkerfið er drifið áfram af nýsköpun sem styrkir samkeppnishæfni landsins, skapar fjölbreytt, áhugaverð og vel launuð störf ásamt því að styrkja stoðir útflutnings og gjaldeyristekjur aukast til framtíðar.

Höfunduir er rekstrarhagfræðingur og framkvæmdastjóri Frumtak Ventures. Greinin birtist fyrst í nýjasta tölublaði Frjálsrar Verslunar.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.