*

sunnudagur, 17. janúar 2021
Óðinn
16. september 2018 18:12

Vitneskja embættismanna, sögð orð og ósögð

Það sem ráðamenn skrafa og það sem þeir segja opinberlega, það skiptir máli. Bæði það sem þeir segja sannast og réttast, það sem þeir halda og líka það sem þeir láta vera að segja.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, alþingismaður og Geir Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Ókyrrðin í kringum skuldabréfaútboð Wow air hefur haft mikil áhrif á hlutabréfamarkað, skuldabréfamarkað og krónuna. Hik á starfsemi Wow air hefði án vafa umtalsverð áhrif á íslenskt efnahagslíf til skemmri tíma.

                                                                ***

Fullyrt hefur verið að stjórnvöld myndu bjarga Wow air ef vandi flugfélagsins yrði óyfirstíganlegur fyrir eigendur og stjórnendur þess. Málið er þó ekki endilega svo einfalt. Eigendur eða veðhafar í flugflota flugfélags eru fljótir að taka eignina eða veðið upp í skuldbindinguna. Tíminn gæti því reynst skammur þó dæmi séu um annað. Þegar Air Berlin varð gjaldþrota síðasta haust tóku þýsk stjórnvöld reksturinn yfir og seldu síðan hluta hans til Lufthansa. En íslensk stjórnvöld og þýsk stjórnvöld eru ekki það sama.

                                                                ***

223 milljarðar til ferðaþjónustu

Útlán stóru viðskiptabankanna þriggja til ferðaþjónustunnar námu um 223 milljörðum króna um síðustu áramót. Það eru vissulega miklir fjármunir, en jafnvel þó að allt færi á versta veg er sú upphæð auðvitað ekki öll í húfi. Öðru nær, gildi góðs ferðamannastaðar felst ekki í því hvort það er þetta rútufyrirtækið eða hitt, sem ferjar menn þangað. Rökin fyrir því að nota skattfé til að bjarga einkafyrirtæki, jafnvel umsvifamiklu fyrirtæki á borð við Wow, eru því í besta falli fráleit ef ekki beinlínis röng. Stæði vilji stjórnvalda hins vegar til þess væri vel hægt að gera það í gegnum ríkisbankana tvo. Að auki gætu stjórnendur einkabankans séð nauðsyn þess ef vægi ferðaþjónustunnar er mikið í lánabókinni.

                                                                ***

Stjórnendum bankanna er hins vegar sá vandi á höndum að dómstólar hafa víkkað út hugtakið umboðssvik í hrunmálum svo mikið, að þeim er varla stætt á að lána fé án nægjanlegra trygginga. Sem skortir einmitt í tilviki Wow air.

                                                                ***

Leki úr Stjórnarráðinu

Óðinn undrast það mjög hversu miklar upplýsingar leka úr Stjórnarráðinu um þetta og hversu skjótt. Ráðherrar jafnt sem embættismenn virðast tala ótrúlega opinskátt um stöðu mála í skjóli nafnleysis, ef marka má fréttir fjölmiðla. Minna má á að það eru þung viðurlög við því að opinberir starfsmenn segi frá nokkru, er leynt á að fara og hann hefur fengið vitneskju um í starfi  sínu, svo notast sé við orðalag hegningarlaganna frá 1940.

                                                                ***

Það er óskiljanlegt að ekki sé hafin rannsókn á því hver eða hverjir leka upplýsingum um viðkvæm málefni flugfélaganna, sem varða ekki aðeins félögin og eigendur þeirra, heldur allan ferðageirann, þúsundir launþega og í raun Íslendinga alla, þegar horft er til mikilvægis þeirra fyrir íslenskt efnahagslíf. Það eitt að það spyrjist út að stjórnvöld séu hugsanlega að vinna viðbragðsáætlun, sem snýr að tilteknum einkafyrirtækjum, getur haft gríðarleg og neikvæð áhrif á rekstur þeirra og hlutabréfaverð, ef þau eru skráð í kauphöll. Þar getur í raun skilið milli feigs og ófeigs.

                                                                ***

Þá rifjast upp atburðarásin vegna falls viðskiptabankanna haustið 2008. Þá töluðu fjölmargir ráðherrar, þingmenn og embættismenn opinskátt um stöðu bankanna og önnur málefni sem áttu að fara leynt. Það er stundum eins og vægar sé tekið á slíkum málum en öðrum, þó að mál Gunnars Andersen fyrrverandi forstjóra Fjármálaeftirlitsins, sé þar nokkur undantekning. En jafnvel í því máli þótti mörgum hann sleppa vel miðað við tilefnið.

                                                                ***

Það sem ráðamenn skrafa og það sem þeir segja opinberlega, það skiptir máli. Bæði það sem þeir segja sannast og réttast, það sem þeir halda og líka það sem þeir láta vera að segja. Að ekki sé minnst á hitt sem þeir segja gegn betri vitund.

                                                                ***

Það skiptir máli alla daga, en getur verið sérstaklega afdrifaríkt á örlagaríkum dögum.

                                                                ***

Sagði Þorgerður ósatt í ræðustól?

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir svaraði til dæmis fyrirspurn Kristins H. Gunnarssonar úr ræðustóli á Alþingi þann 12. nóvember 2008 um hæfi Þorgerðar til að taka ákvarðanir varðandi Kaupþing, þar sem eiginmaður hennar var háttsettur starfsmaður og stór hluthafi. Reyndar sagði Þorgerður Katrín í samtali við  visir.is  4. nóvember 2008 að þau hjónin, hún og Kristján Arason, hefðu sett sparnað sinn í Kaupþing: „Og virði fyrirtækisins óx eftir það þannig að við ákváðum að setja okkar sparnað í þetta félag. Við trúðum því að íslenskt efnahagslíf myndi standa sig, við trúðum því að bankakerfið væri sterkt.“

                                                                ***

Síðan sagði Þorgerður orðrétt: „Til svars þessarar fyrirspurnar vil ég strax í upphafi árétta að menntamálaráðherra fer ekki með málefni banka eða hefur komið að ákvörðunum um stofnun eða rekstur hinna nýju banka. Af ákvæðum stjórnarskrár og reglugerðum stjórnarskrár Íslands leiðir að viðskiptaráðherra fer með yfirstjórn þessara mála.“ Einnig sagði Þorgerður: „Í þessu ljósi vil ég sérstaklega árétta það sem hv. þingmaður kom inn á varðandi það lán sem Kaupþing fékk 6. október síðastliðinn upp á 500 millj. evra til nokkurra daga en það var veitt af Seðlabankanum sem er mjög sjálfstæð stofnun. Þar hef ég engin áhrif.“

                                                                ***

Samtal Davíðs og Geirs

Sjö árum seinna birti Morgunblaðið samtal Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra og Geirs Haarde forsætisráðherra. Ritari: Gjörðu svo vel. 

Davíð: Halló.

Geir: Sæll vertu.

Davíð: Sæll. Það sem ég ætlaði að segja þér, sko, sko… við út af fyrir sig getum í dag skrapað saman 500 milljónir evra, en náttúrlega, en erum þá komnir inn að beini og þá gætum við hjálpað Kaupþingi í einhverja 4-5 daga en þá getum við ekki hjálpað Landsbankanum líka, sko.

Geir: Nei.

Davíð:  Þú ert að tala um það að við eigum frekar að reyna að hjálpa Kaupþingi.

Geir: Það slær mig þannig sko og mér fannst þeir vera líka á þeirri línu í gærkvöldi, allavega þessir Morgan [Stanley] menn. 

Davíð: Ég býst við því að við fáum ekki þessa peninga til baka. Þeir segja að þeir muni borga okkur eftir 4-5 daga en ég held að það séu ósannindi… eða við skulum segja óskhyggja. 

                                                                ***

Seðlabankinn var ekki sjálfstæður

Eins og sjá má var Seðlabankinn á engan hátt sjálfstæður í þessari ákvörðun. Það var vilji ríkisstjórnar Geirs H. Haarde að veita Kaupþingi 500 milljóna evra lán skömmu fyrir fall bankans 2008, en ekki Seðlabankans eins og sést vel á samtalinu.

                                                                ***

Þorgerður Katrín var upptekin af hugtakinu „leyndarhyggju“ í kjölfar stjórnarslita síðasta haust. Óðinn skilur því ekki hvers vegna Þorgerður hefur ekki gert þessi mál upp og veltir sérstaklega þremur spurningum fyrir sér.

                                                                ***

Átti Þorgerður Katrín fund með Geir Haarde rétt fyrir símtal hans við Davíð? Lagði hún á þeim fundi áherslu á að Kaupþingi yrði veitt lán? Óskaði Þorgerður eftir því við forsætisráðherra að hann þrýsti á Seðlabankann að veita lánið?

                                                                ***

Fyrir þá sem ekki muna atburðarásina, um hagsmuni Þorgerðar af gengi hlutabréfa Kaupþings, er rétt að rifja hana upp. Kristján Arason, eiginmaður hennar, fékk heimild, rétt fyrir hrun, til þess að færa hlutabréfaeign sína og skuldir yfir í einkahlutafélag með lágmarks eigið fé (500 þús. kr). Hann var eini starfsmaður Kaupþings sem fékk slíkt leyfi, svo vitað sé.

                                                                ***

Eignir voru 7% umfram skuldir en áttu samkvæmt reglubók Kaupþings að vera 50% umfram skuldir. Eigið fé var því jákvætt við flutninginn, en varð síðar neikvætt þegar hlutabréf bankans lækkuðu ört og skuldir hækkuðu mikið vegna veikingar krónunnar. Þegar Þorgerður sagði frá sparnaði þeirra hjóna á  visir. is  námu skuldirnar um 1,7 milljörðum króna.

                                                                ***

Hæstiréttur fjallaði um lögmæti þessarar færslu (í dómi í máli nr. 593/2013), en þar var krafist greiðslu á 534 milljónum króna úr hendi Kristjáns persónulega og því haldið fram að Hreiðar Már Sigurðsson, bankastjóri Kaupþings, hefði ekki haft heimild til leysa Kristján undan ábyrgðinni. Þar kemur einnig fram að fyrir utan flutninginn hafi Kaupþing aflétt veði af hlutabréfum að verðmæti 72,4 milljónir króna sem þau hjónin héldu persónulega.

                                                                ***

Færslan yfir í einkahlutafélagið átti sér stað 12. mars 2008, hálfu ári áður en íslenskt bankakerfi hrundi. Daginn áður, 11. mars, fengu hjónin persónulega 33,5 milljónir króna í arð. Að auki seldu þau hinn 30. september 2008 hlutabréf í persónulegri eigu fyrir 70 milljónir króna, aðeins níu dögum áður en bankinn féll og Fjármálaeftirlitið tók við stjórn hans. Þá vaknar upp sú spurning hvort Þorgerður hafi vitað meira en aðrir um stöðu bankanna 13. mars og 30. september 2008 og hvort slík vitneskja falli undir reglur um  innherjaupplýsingar.

                                                                ***

Fyrst og síðast snýst það þó allt um heilindi og trúmennsku í opinberum embættum. Bæði það sem menn segja og gera, segja ekki og láta vera að gera. Af því að orð eru dýr, bæði fyrir þá sem segja þau og hina sem þau eru sögð um. Þegar um er að ræða æðstu stjórn ríkisins varða þau þjóðina alla.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.