*

þriðjudagur, 18. janúar 2022
Huginn og muninn
8. janúar 2022 08:55

Vitskert veröld Ragnars Þórs

Yfir 20 þúsund lífeyrisþegar LV nutu góðs af arðgreiðslum og milljörðum sem fjárfestar fengu á „silfurfati“.

Ragnar Þór gagnrýnir háar arðgreiðslur félaga í Kauphöllinni.
Haraldur Guðjónsson

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, birti nýársgrein á Kjarnanum um liðna helgi. Honum er greinilega mikið niðri fyrir enda ber greinin, sem er löng, fyrirsögnina „Vitskert veröld“.

Ragnar Þór agnúast út í að sala á 35% hlut ríkisins í Íslandsbanka hafi hlotið viðurkenningu sem bestu viðskipti ársins, sem og að bankastjóri Arion banka hafi fengið viðskiptaverðlaun. Segir hann að hlutur ríkisins í Íslandsbanka hafi verið seldur á undirverði og þannig hafi fjárfestar fengið milljarða á silfurfati. Þá gagnrýnir hann háar arðgreiðslur Arion banka sem og annarra félaga í kauphöllinni. „Arðgreiðslur og uppkaup eigin bréfa hafa ekki verið hærri frá hruni og stefnir í að bæti verulega í á næsta ári,“ skrifar Ragnar Þór.

Hröfnunum er bæði ljúft og skylt að upplýsa að Lífeyrissjóður verzlunarmanna (LV) er á meðal stærstu hluthafa í bæði Íslandsbanka og Arion banka. Sjóðurinn er raunar einn stærsti fjárfestirinn á íslenska hlutabréfamarkaðnum. Í nóvember sendi lífeyrissjóðurinn frá sér tilkynningu um að ákveðið hefði verið að hækka lífeyrisgreiðslur um 10%. Ekki nóg með það heldur var hækkunin afturvirk til áramótanna 2021 og var sú fjárhæð greidd með eingreiðslu.

Í tilkynningunni sagði að hækkun lífeyrisgreiðslna væri „tilkomin vegna góðrar ávöxtunar eigna undanfarin ár“. Það má því segja að 21 þúsund lífeyrisþegar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna hafi notið góðs af öllum arðgreiðslunum og milljörðunum, sem bárust á silfurfatinu.

Hrafnarnir óska Ragnari Þór gleðilegs nýs árs og vona um leið að það birti til í Húsi verslunarinnar því þrátt fyrir allt er Ísland í öfundsverðri stöðu. Hér er spáð meiri hagvexti í ár en víðast hvar í heiminum og atvinnuleysi mælist minna en fyrir faraldurinn.

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.