*

laugardagur, 25. september 2021
Týr
1. ágúst 2021 12:48

Vondu skoðanir Gísla Marteins

Þó að flestir starfsmenn RÚV haldi sig til hlés í samfélagsumræðunni nýtir Gísli Marteinn reglulega stöðu sína til að hnýta í andstæðinga sína.

Aðsend mynd

Það er ástæða fyrir því að siðareglur Ríkisútvarpsins (RÚV) kveða á um að starfsmenn ríkisstofnunarinnar virði ákveðin mörk þegar þeir taka þátt í samfélagsumræðu. Það á líka - og ekki síst - við um framkomu þeirra á samfélagsmiðlum. Fréttamenn og þáttastjórnendur hjá ríkisstofnuninni eru landsþekkt fólk og standa sem slíkt betur að vígi en flestir aðrir þegar kemur að því að taka þátt í samfélagsumræðu. Þeir hafa töluvert vald til að hafa áhrif, m.a. með því að velja um hvað er fjallað og þá hvernig og hvaða viðmælendur eru valdir hverju sinni (og um leið hverjir fá ekki að tjá sig). 

* * *

Flestir starfsmenn RÚV hafa vit á því að halda sig til hlés í umræðu um málefni líðandi stundar vitandi að þeir starfa hjá ríkisfjölmiðli sem allir þurfa að greiða fyrir. Þetta á þó ekki við um alla starfsmenn. Gísli Marteinn Baldursson er einn af þeim sem reglulega nýta stöðu sína og áhrif til að hnýta í þá sem hann telur vera pólitíska andstæðinga sína, hvort sem er í þætti sínum eða á samfélagsmiðlum. Það fólk sem hann kýs að berja á getur auðvitað ekki svarað fyrir sig á sama vettvangi á RÚV. 

* * *

Undir þessu þarf fólk að sitja og borga útvarpsgjaldið þegjandi og hljóðalaust. Einhverjir reyna að bera hönd fyrir höfuð sér en í síðustu viku fjallaði Gísli Marteinn sérstaklega um þann hóp á Twitter þegar hann sagði að það segði sína sögu „um mikilvægi Rúv hvað fólkið með allar verstu skoðanir landsins hatar stofnunina mikið". 

* * *

Nú veit Týr ekki hvað starfsmenn RÚV telja vera „verstu skoðanir landsins" en miðað við hegðun Gísla Marteins og sumra starfsmanna RÚV eru það líklega þeir sem hallast til hægri í stjórnmálum. Það verður áhugavert að sjá hvernig RÚV mun sinna skyldu sinni í aðdraganda kosninga í haust. Það á bæði við um fréttaflutning og þáttastjórnun.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.