*

laugardagur, 18. september 2021
Andrés Magnússon
24. febrúar 2017 13:24

Vöndum valið

Það lýsir ákveðnu metnaðarleysi að útbreiddasta blað landsins geri ekki kröfur um lágmarksþekkingu á landfræðiheitum og meðferð talna.

Höfðaborg í Suður Afríku, Table-fjall í bakgrunni

Fjölmiðlarýnir sá dapurlega frétt á forsíðu Fréttablaðsins á mánudag, þar sem greint var frá því að ungur Íslendingur hefði látist af slysförum í Suður-Afríku. Það hefði gerst á Table-fjalli í Cape Town þar í landi. Það virðist hafa farið framhjá blaðamanninum að á íslensku er borgin sú ævinlega nefnd Höfðaborg.

Á síðu 6 í sama blaði var stutt frétt um að samrunatilraun Kraft-Heinz og Unilever hefði farið út um þúfur.

„Tilboð Kraft var talið nema um 143 billjónum bandaríkjadollara.“ Það er vel boðið þegar haft er í huga að heimsframleiðslan er einhversstaðar um 120 billjónir Bandaríkjadala á ári.

Nei, auðvitað er þarna verið að gera algeng byrjendamistök í blaðamennsku: það sem Bandaríkjamenn kalla „billion“ nefnum við milljarð og það sem þeir nefna „trillion“ nefnum við billjón.

Það lýsir út af fyrir sig ákveðnu metnaðarleysi að útbreiddasta blað landsins geri ekki kröfur um lágmarksþekkingu á landafræðiheitum, meðferð talna og þess háttar.

Hitt er þó kannski verra, að þessi mistök benda til þess að fréttir og fréttasíður í Fréttablaðinu séu ekki prófarkalesnar. Sem er önnur tegund af metnaðarleysi, en menn gera víst fleira en gott þykir til þess að spara í þröngum rekstri fjölmiðla.

Helsta áhyggjuefnið er þó fremur að það er sami blaðamaðurinn sem skrifaði báðar þessar fréttir, og ekki bara einhver blaðamaður, heldur sjálfur aðstoðarritstjórinn Andri Ólafsson.

Það verður víst lítið við því gert þó nýjar kynslóðir blaðamanna gangi áratugum saman í sömu gildrurnar þar sem hershöfðingjarnir Staff og Stab hittast í Bavaríu og allt það, en það er verra ef ritstjórarnir eru einskis vísari, hoknir af reynslu.

                                                  * * *

Hér var í liðinni viku fundið að því að fréttastofan Bloomberg hefði birt fréttaskýringu um næsta yfirvofandi efnahagshrun Íslands, en fyrir því var hafður fyrrverandi atvinnubílstjóri, sem fréttaritarinn hafði rekist á í matvöruverslun.

Það skiptir miklu máli í fréttaflutningi að vanda heimildir og þar á meðal þarf að vanda val heimildamanna og viðmælenda.

Það er enginn vandi að finna fólk til þess að fella sleggjudóma, en til þess að það sé eitthvað að marka fréttirnar eiga blaða- og fréttamenn auðvitað að kappkosta að finna fólk, sem hefur vit á umfjöllunarefninu, reynslu eða rökstuddar skoðanir.

Þar með er ekki sagt að aðeins megi ræða við sérfræðinga, en það sakar sjaldnast að byrja þar.

                                                  * * *

Sóley Tómasdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi, kvaddi sér hljóðs í hópi fjölmiðlanörda á Facebook í gær og gerði m.a. athugasemdir við val viðmælenda vegna umræðu um kynbundinn launamun og frumvarp um jafnlaunavottun. Hún sagðist greina ákveðna hneigð í fjölmiðlaumræðu

[…] þegar fjölmiðlar draga Helga Tómasson, Einar Steingrímsson og Hannes Hólmsteinn Gissurarson fram sem sérfræðinga um kynbundinn launamun.

Þetta er skrýtin aðfinnsla. Dr. Helgi Tómasson tölfræðiprófessor er sjálfsagt helsti sérfræðingur landsins í þessum efnum og nánast einkennilegt ef ekki væri rætt við hann. Dr. Einar Steingrimsson stærðfræðiprófessor lagði orð í belg um málið á Facebook, sem síðan varð fjölmiðlum tilefni til þess að spyrja hann frekar út úr.

Sem hann gerði af öfgaleysi þó hann sé ekki skoðanalaus maður, en tók sérstaklega fram að hann væri ekki sérfræðingur á þessu sviði. Hvers vegna Sóley dró dr. Hannes Hólmstein inn í þetta er svo ráðgáta, það hefur enginn fjölmiðill rætt við hann um þetta.

Nú ræðir þar auðvitað um rammpólitískt mál, svo það er varla skrýtið þó fleiri séu til kallaðir en sérfræðingar til þess að leggja orð í belg.

Eins og gert hefur verið í fjölmiðlum undanfarna daga, en þar mætti t.d. nefna Hönnu Katrínu Friðriksson, þingflokksformann Viðreisnar, Kristínu Ástgeirsdóttur, framkvæmdastýru Jafnréttisstofu, Þorstein Víglundsson, félags- og húsnæðismálaráðherra, Elsu S. Þorkelsdóttur, lögfræðing og fyrrv. framkvæmdastjóri Jafnréttisráðs og fleiri.

Sóley nefndi þá ekki, heldur aðeins hina, sem hún er ósammála eða andsnúin!

Aðfinnslan snerist sumsé ekki um að það væri einhver hneigð í fjölmiðlum, heldur um hneigð Sóleyjar sjálfrar og mannamun (vonandi ekki kynjabundinn).

Um eldfimt mál eins og launamun kynjanna er eðlilegt að mönnum hitni í hamsi, fari jafnvel í manninn fremur en rök málsins. Það gerist í hinni pólitísku hríð dagsins. En það er hvimleitt að sjá pólitíkusuna umsvifalaust kenna fjölmiðlunum um, að þeir megi ekki tala við suma og eigi að tala við aðra.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.