*

fimmtudagur, 27. janúar 2022
Týr
19. desember 2021 18:02

Vonlaus stjórnarandstaða

Fyrstu dagar þingsins gefa ekki til kynna að stjórnarandstaðan sé öflug á nokkurn hátt.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Eyþór Árnason

Eðli málsins samkvæmt hefur mikið verið fjallað um stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, efnistök hans, skiptingu verkefna á milli ráðuneyta, stofnun nýrra ráðuneyta og auðvitað ráðherraskipan. Allt vekur þetta athygli fólks, hvoru megin sem það stendur á svonefndum vinstri-hægri ás stjórnmálanna. Þingmenn stjórnarflokkanna eru auðvitað misánægðir en meirihlutinn stendur þó á traustum grunni – enn sem komið er.

* * *

Það hefur þó minna verið fjallað um hina hliðina á peningnum, stjórnarandstöðuna. Það er þó full ástæða til að velta stöðu hennar fyrir sér. Það gerir lýðræðinu gott að til staðar sé öflug stjórnarandstaða en skilgreiningin á orðinu „öflug“ kann að vera dálítið snúin hér á landi. Sumir myndu telja það í fjölda fyrirspurna, aðrir í því hversu oft stjórnarandstaðan nær að vekja athygli á sér í fjölmiðlum eða á þingi, og enn aðrir eftir því hvort og þá hvernig henni tekst til í að hafa áhrif á mál ríkisstjórnarinnar og eftir tilvikum stoppa þau.

* * *

Samfylkingin er stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn á þingi. Verst geymda leyndarmál íslenskra stjórnmála er að nú þegar er hafin atlaga að því að velta formanni flokksins úr sessi og innan flokksins ríkir í raun algjör glundroði þar sem Reykjavíkurklíkan svokallaða tekst á við þá krata sem ekki er enn búið að bola út úr flokknum. Flokkur fólksins er næst stærstur af stjórnarandstöðuflokkunum eftir að hafa náð góðri kosningu fyrr í haust, en flokkurinn er og verður áfram eins-máls-flokkur eins og það kallast. Þar á eftir koma Píratar, sem alveg óvænt hafa lagt fram gífurlegan fjölda af fyrirspurnum á fyrstu dögum þingsins, og loks Viðreisn sem heldur að pólitíkin fari eingöngu fram á samfélagsmiðlum. Að lokum má nefna tveggja manna þingflokk Miðflokksins sem bíður daglega eftir boði í Sjálfstæðisflokkinn.

* * *

Fyrstu dagar þingsins gefa ekki til kynna að stjórnarandstaðan sé öflug á nokkurn hátt. Málflutningur hennar mun að öllu óbreyttu einkannast af einhvers konar blöndu af þrasi, popúlisma, vonleysi og misgóðum tilraunum til að upphefja sjálfa sig.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.