*

sunnudagur, 28. nóvember 2021
Týr
1. maí 2017 11:21

Vopnabrask sjóðanna

Þingmaður spyr fjármálaráðherra um hvort að íslenskir lífeyrissjóðir standi í vopnabraski.

Aðsend mynd

Andrés Ingi Jónsson, þingmað­ur Vinstri-grænna, lagði fram sérstaka fyrirspurn til fjármálaráðherra um eignasafn lífeyrissjóð­ anna. Vill hann fá að vita hvort íslenskir lífeyrissjóðir eigi í fyrirtækjum sem framleiða vopn eða íhluti í vopn, sem og upplýsingar um það hversu stór hluti eignasafns lífeyrissjóðanna sé bundinn í starfsemi sem felist í vinnslu og sölu jarðefnaeldsneytis.

***

Nú vill svo til að hann óskar eftir því að fá svörin flokkuð eftir erlendum og innlendum fjárfestingum, þótt gefa megi sér að eignarhlutur lífeyrissjóðanna í íslenskum vopnaframleiðendum sé afar takmarkaður. Þá er ekki erfitt að fá upplýsingar um eignarhluti lífeyrissjóðanna í íslenskum olíufélögum og þarf ekki tilstuðlan fjármálaráðherra til þess.

***

Hvað varðar erlenda eign lífeyrissjóðanna þá er hún að langstærstu leyti bundin í sjóðum – stýrðum sjóðum og vísitölusjóðum. Hversu auðvelt er svo að fá upplýsingar um það hvernig fjárfestingar allra þessara erlendu sjóða er upp byggð er óvíst, en Týr gerir ráð fyrir því að Andrés Ingi geri sér vel grein fyrir því.

***

Býst Týr við því að í svari ráðherra muni koma fram að erlend verðbréfaeign lífeyrissjóðanna sé að stærstum hluta bundin í sjóðum og sjóðasjóðum og að ekki sé hægt að fá nánari upplýsingar um skiptingu eignarhlutanna eftir einstökum fyrirtækjum.

***

Þetta muni þingmaðurinn grípa á lofti og básúna því að engar upplýsingar séu til um meint eignarhald íslensku lífeyrissjóðanna í vopnaframleið­ endum og öðrum illkynja fyrirtækjum, allt gagnsæi skorti og að gríðarleg þörf sé á opinberu eftirliti og sérstakri lagasetningu.

***

Alltént eru litlar líkur á því að þingmaðurinn verði sáttur við svör ráðherra, hver sem þau verða.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.