*

laugardagur, 23. október 2021
Óðinn
20. október 2016 12:43

Vopnabúr vinstrimanna er tómt

Óðinn er ekki að halda því fram að misskipting auðs og tekna geti aldrei verið vandamál, en hún er það klárlega ekki á Íslandi.

Haraldur Guðjónsson

Það getur verið erfitt fyrir stjórnarandstöðuflokka að taka þátt í kosningabaráttu í góðæri. Þegar vel árar er erfiðara fyrir stjórnarandstöðuna að finna vopn til að beita gegn sitjandi ríkisstjórn. Á þetta við um alla flokka óháð því hvar þeir eru staðsettir á hinu pólitíska litrófi. Fyrir kosningarnar núna eru það vinstriflokkarnir sem leita logandi ljósi að slíkum hugmyndafræðilegum vopnabúnaði og virðast flestir talsmenn þeirra hafa komist að þeirri niðurstöðu að jöfnuður tekna og eigna sé líklegast til að skila þeim atkvæðum í kosningunum.

***

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri-grænna, gerði umfjallanir Kjarnans og Fréttablaðsins um misskiptingu auðs og tekna að umræðuefni á Alþingi í vikunni. „Nú fyrir helgina birti Kjarninn fréttaskýringu upp úr staðtölum frá ríkisskattstjóra þar sem farið er yfir dreifingu fjármagnstekna í landinu. Þar kemur fram að fjármagnstekjur hafi aukist töluvert á undanförnum árum og hafi verið á árunum 2015 95,3 milljarðar króna. Það sem vekur athygli í þessum tölu er að 44% þessara fjármagnstekna fóru til ríkasta eina prósents landsmanna, þ.e. þessi hópur þénaði 44% af öllum fjármagnstekjum sem íslenskir skattgreiðendur fengu í fyrra, sem þýðir í raun og veru að 99% þjóðarinnar skiptu þá með sér 56% fjármagnstekna á árinu 2015.

***

Síðan er önnur frétt í Fréttablaðinu í dag um launaþróun í landinu þar fram sem kemur að helmingur allra greiddra launa í fyrra hafi farið til tveggja efstu tekjutíundanna og er vitnað til gagna Hagstofu Íslands. Sú þróun hefur aukist marktækt á undanförnum árum og er vitnað til þess að af þeim 200 milljörðum króna sem greiddar voru í laun á árinu 2015, umfram það sem var árið 2013, fari tvær af hverjum þremur krónum, og rúmlega það, til efstu tveggja tekjutíundanna, þ.e. til þeirra 40 þúsund einstaklinga sem hafa hæstar tekjur og eiga mestar eignir í þessu landi.“

***

Flokkssystir hennar, Svandís Svavarsdóttir, hjó í sama knérunn í gær þegar hún sagði að á Íslandi stæði yfir barátta um það hvort lítill hópur eigi að taka til sín miklu meira en aðrir. „[H]vort útgerðaraðallinn og Panama-yfirstéttin eigi áfram að efnast meira á kostnað hinna.“ Hún hélt áfram: „Við sjáum það á hverjum einasta degi að hinir ríku verða ríkari og misskipting er að aukast dag frá degi.“

***
Meirihlutinn rangur
Óðinn hefur margoft fjallað um þessa meintu misskiptingu og það á hversu miklum villigötum þessi umræða er. Fleiri hafa komist að sömu niðurstöðu, því Gunnar Jörgen Viggósson gerði fyrirspurn Katrínar að umfjöllunarefni í pistli sem hann fékk birtan í Stundinni af öllum miðlum.

***

Í stuttu máli hrekur hann nær allt sem fram kemur í frétt Fréttablaðsins og endar pistilinn á eftirfarandi orðum: „[M]eirihluti þeirra fullyrðinga sem Katrín Jakobsdóttir hafði eftir Fréttablaðinu á Alþingi í gær voru rangar. Á undanförnum árum hefur þróunin ekki verið sú að tvær tekjuhæstu tekjutíundir fái greiddan stærri hlut af launum landsmanna. Sömu tekjutíundir fengu ekki tvær krónur af þremur af aukningu launatekna, og aukning launatekna nam ekki 200 milljörðum milli áranna 2013 og 2015.“

***

Gini-stuðullinn er gjarnan notaður til að meta tekjudreifingu innan ríkja. Eftir því sem stuðullinn er hærri, því meiri er misskipting tekna. Ef stuðullinn er 0 þá eru allir með sömu tekjur og ef hann er 100 þá renna allar tekjur í viðkomandi ríki til eins einstaklings. Tekjujöfnuður eftir skatta er mestur á Íslandi af ríkjum OECD, var það í tíð síðustu ríkisstjórnar og er enn. Samkvæmt Gini stuðlinum hefur heldur dregist saman með tekjuháum og tekjulágum síðastliðin ár og var stuðullinn 0,4 stigum lægri (meiri jöfnuður) árið 2015 en við lok síðasta kjörtímabils.

 

Einnig er hægt að skoða þróun eigin fjár einstaklinga síðustu ár, en eigið fé er í einföldu máli eignir að frádregnum skuldum. Eigið fé einstaklinga á Íslandi hefur aukist verulega frá árinu 2010, þegar það var í lágmarki eftir fall bankanna. Alls nemur aukning eigin fjár einstaklinga 1.384,3 milljörðum króna, sem er 88% aukning á milli áranna 2010 og 2015. Hlutfallslega hefur staða einstæðra foreldra og hjóna með börn batnað mest. Árið 2010 var eiginfjárstaða einstæðra foreldra neikvæð um 6 milljarða króna, en var í árslok 2015 jákvæð um 69,4 milljarða króna. Eiginfjárstaða hjóna með börn hefur batnað um 184%, og farið úr 184,8 milljörðum í 524,3 milljarða. Til samanburðar hefur eiginfjárstaða hjóna án barna batnað um 60% á tímabilinu.

***
Hagur allra hefur vænkast

Hagstofan birtir einnig tölur um eiginfjárstöðu, flokkaða eftir tíundahlutum. Árið 2010 voru fjórir tíundu þjóðarinnar með neikvætt eigið fé, en í árslok 2015 voru tveir tíundu hlutar þjóðarinnar með neikvætt eigið fé. Þriðja tíundin komst ekki í jákvæða eiginfjárstöðu fyrr en í fyrra.

***

Á tímabilinu 2010 til 2015 hefur hagur fjórðu tíundarinnar vænkast mest hlutfallslega, en hún var með neikvæða eiginfjárstöðu um 613 milljónir króna árið 2010, en var komin í jákvæða eiginfjárstöðu upp á 6,1 milljarð í fyrra. Hlutfallslega hefur eiginfjárstaða tíunda hlutarins, þ.e.a.s. þess hluta þjóðarinnar sem mest eigið fé á, aukist minnst, eða um 39% á tímabilinu.

 

 

 

 

 

 

Hinir efnuðustu eru vissulega að auka verulega við eignir sínar í krónum talið, en hlutfallslega hefur hagur allra annarra batnað meira en þeirra. Sést þetta til að mynda af því að árið 2010 átti efnamesta tíundin um 86,4% af heildareiginfé landsmanna, en árið 2015 var hlutfallið komið niður í 63,7%.

***

Nær hvernig sem á það er litið hefur jöfnuður verið að aukast síðustu ár og er allt tal um annað í besta falli á misskilningi byggt. Hitt er svo annað að jöfnuður á ekki að vera sérstakt markmið í sjálfu sér. Aðalatriðið er það hvort almenn velsæld sé að aukast eða minnka. Það að nágranni Óðins eigi meira í dag en í gær hefur ekkert með það að gera hvort hagur Óðins sjálfs hafi vænkast eða ekki.

***

Í þessu ljósi er vert að benda á að ráðstöfunartekjur heimila jukust árið 2015 um 10,8% frá fyrra ári. Ráðstöfunartekjur á mann jukust um 9,6% milli ára og kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann jókst um 7,9%. Þá jukust heildartekjur heimila um 9,5% á milli áranna 2014 og 2015.

***

Óðinn er ekki að halda því fram að misskipting auðs og tekna geti aldrei verið vandamál, en hún er það klárlega ekki á Íslandi dagsins í dag. Stjórnarandstaðan verður því miður að halda vopnaleitinni áfram ef þeim á að takast að finna höggstað á ríkisstjórnarflokkunum.

Óðinn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu þann 13. október 2016. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.