*

þriðjudagur, 18. janúar 2022
Týr
1. september 2014 15:09

Vopninu veifað

Hans Humes flutti fyrirlestur í vikunni um reynslu sína við ráðgjöf til ríkja og fyrirtækja í skuldavanda.

Hans Humes.
Haraldur Guðjónsson

Hans Humes er bandarískur fjárfestir og ráðgjafi sem hefur sérhæft sig í úrlausn á og fjárfestingum tengdum ríkjum og fyrirtækjum í skuldavanda. Hann hefur komið að úrlausn skuldamála í ríkjum eins og Argentínu, Belís og Kasakstan og þekkir því vel til verka þegar kemur að samningaviðræðum milli lánardrottna og skuldara, hvort sem um er að ræða ríki eða einkaaðila.

***

Humes hélt í vikunni stuttan en áhugaverðan fyrirlestur um þessa reynslu sína. Hann tók ítrekað fram á fundinum að hann þekkti lítið til íslenskra aðstæðna, en fór með almennum hætti yfir hagsmuni og hvata þeirra sem sitja sínu hvoru megin við borðið í slíkum samningaviðræðum. Eins og fram kemur annars staðar í blaðinu þá furðaði Humes sig á því að lítið hefði hreyfst í átt að niðurstöðu í málum þrotabúa föllnu bankanna þótt sex ár væru nú liðin frá bankahruni. Af orðum Humes má leggja að nokkrar ástæður gætu verið fyrir því. Einn möguleiki er sá að einhver aðilinn, kröfuhafar, slitastjórnir eða stjórnvöld hafi ekki með nægilega skýrum hætti sett fram þau markmið sem hann vilji ná fram.

***

Humes nefndi aðra mögulega ástæðu, en hún er að einhver gæti verið í þeirri stöðu að geta tafið úrlausn málsins og hagnast á því. Þar kæmu til greina þeir sem rukka fyrir hvern unninn tíma. Humes átti þar við erlenda ráðgjafa, en dæmið gæti allt eins átt við slitastjórnir bankanna.

***

Týr er samt sem áður ekki á því að við slitastjórnirnar sé að sakast í þessum efnum, að minnsta kosti ekki í sama skilningi og Humes nefndi á fundinum. Slitastjórn Glitnis hefur t.a.m. sent Seðlabankanum frumvarp að nauðasamningi, sem bankinn neitaði að hleypa í gegn vegna þess að hann gæti stefnt greiðslujöfnuði Íslands í hættu.

***

Líklegasta skýringin er sú að íslensk stjórnvöld hafa ekki getað eða viljað sett fram með nægilega skýrum hætti hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að nauðasamningar hljóti náð fyrir augum þeirra. Skipaður hefur verið sérfræðingahópur sem á að undirbúa viðræður við kröfuhafana, m.a. með því að greina undirliggjandi efnahagslegar forsendur fyrir uppgjöri. Þennan hóp hefði að sjálfsögðu átt að skipa þegar árið 2009 og er með öllu óskiljanlegt að bíða þurfti til ársins 2014 eftir því að það yrði gert.

***

Humes sagði á fundinum að það hefði enginn tapað á því að ræða málin og er vel hægt að taka undir það með honum. En Humes sagði einnig að Íslendingar ættu ekki að vera hræddir við að beita gjaldþrotaleiðinni ef allt strandar í viðræðum. Það vopn er öflugt.

Stikkorð: Týr
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.