*

mánudagur, 6. desember 2021
Óðinn
9. apríl 2019 11:34

Wow air, GM og kjarasamningar

Það er hægt að halda langa fyrirlestra um hversu sérstök hver atvinnugrein er og því þurfi að taka peninga af skattborgurunum.

Aðsend mynd

Gjaldþrot Wow air hefur vond áhrif á íslenskt efnahagslíf og hag landsmanna allra. Það hefur meira að segja neikvæð áhrif á hluthafa Icelandair. Félagið er í söluferli með hótel sín og þetta umrót í ferðageiranum hefur vafalaust áhrif þar á, mjög ósennilega til aukinna hagsbóta félagsins eða hluthafa þess. Í síðustu viku var einmitt greint frá því að söluferlið, sem staðið hefur yfir síðan í nóvember, væri vonandi að komast á lokastig, en samningar standa yfir við mögulegan (ótiltekinn) kaupanda á þeim forsendum að Icelandair Group muni áfram eiga 20% í Icelandair Hotels og tengdum fasteignum. Sem er aðeins annað en lagt var upp með.

                                                               ***

Það er hins vegar fullkomlega ástæðulaust að gera of mikið úr áhrifum gjaldþrots Wow air. Það gerðu greinendur ráðgjafarfyrirtækið Reykjavík Economics á dögunum þegar þeir héldu því fram að áhrif hugsanlegs gjaldþrots Wow air yrðu þau að landsframleiðsla myndi dragast saman um 0,9 til 2,7  prósent, 2.900 manns myndu missa vinnuna og gengi krónunnar myndi veikjast.

                                                               ***

Allt útlit er, og var, fyrir að áhrifin af gjaldþroti Wow air verði mun minni og tímabundin. Það er eðli og hlutverk atvinnulífsins að bregðast við breyttum aðstæðum og það mun það vitaskuld gera fljótt og örugglega. Þrátt fyrir mikilvægi Wow air í uppgangi ferðaþjónustunnar hér, þá er afar ósennilegt að erlendir ferðamenn missi umsvifalaust áhugann á að sækja Ísland heim fyrst Wow er úr sögunni. Önnur félög grípa vitaskuld það tækifæri og fylla það tómarúm. Um 1.100 starfsmenn félagsins misstu vinnuna, en stór hluti þeirra hefur fengið starf eða mun fá starf innan skamms. Flugmenn eru eftirsóttir um allan heim og þegar hafa borist tilboð frá Cargolux og Emirates. Hjúkrunarfræðingar í bleikum búningum snúa til baka á spítalana og kennarar háloftanna í kennslustofurnar. Fjölmargir starfsmenn þeirra sem hafa þjónustað Wow air eru erlendir farandverkamenn sem munu snúa aftur til síns heima ef enga vinnu er að hafa hérlendis.

                                                               ***

Þegar hefur eitt nýtt flugfélag boðað komu sína og Wizz air hefur aukið framboð sitt til landsins. Að ógleymdu Icelandair þar sem ætlunin er að þrjár breiðþotur taki við af þeim þremur Max 8 vélum sem hafa verið teknar úr notkun auk þess sem félagið mun minnka hlutfall „via“ farþega, þeirra sem aðeins millilenda í Keflavík

                                                               ***

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, gagnrýndi andvaraleysi ríkisstjórnarinnar í Wow-málinu. Í viðtali á K100 sagði hún „Það virðist vera að ríkisstjórnin hafi [...] verið búin að fara vel yfir það hvort rétt væri að stíga inn í, fara Air Berlin leiðina t.d., og mat það sem svo að það væri ekki rétt. Ég get tekið undir að það er erfitt að ákveða hvort það er rétt að stíga inn í nema vera með mjög sterkan grundvöll fyrir því að ríkið komi inn með fjármagn. Það þarf að réttlæta það fyrir skattgreiðendum,“ Einnig sagði hún:  „Það sem kemur á óvart er undirbúningsleysið. Ríkisstjórnin hefur barið sér á brjóst fyrir að hafa fylgst með málinu afar lengi. Í tíu mánuði hefur hún fylgst með málinu.“

                                                               ***

Þingmenn Viðreisnar ganga ekki í takt. Jón Steindór Valdimarsson lagði fram fyrirspurn um skuldir Wow air við Isavia. Í samtali við mbl.is sagði Jón: „Spurningin sem verður að svara er sú hvort það sé eðlilegt að ríkisfyrirtæki á borð við Isavia leyfi slíka skuldasöfnun, hvaða áhrif það hefur á samkeppni og jafnræði flugfélaga, en síðast en ekki síst hvort rekstrinum hafi verið haldið áfram óeðlilega lengi með aðstoð ríkisfyrirtækisins Isavia. Var það vilji eigenda Isavia sem erum við sjálf?“

                                                               ***

Viðreisn er sem sagt þeirrar skoðunar að það hafi verið bæði gengið of langt og of skammt í björgun Wow air. Hann er vandrataður meðalvegurinn og skiljanlegt að margir óttist að Ísland eigi sér ekki Viðreisnar von.

                                                               ***

 Ríkisstjórnin hafði val um þrennt. Að styðja við Wow air með fjárframlögum í formi hlutfjár eða lánsfjár; að aðhafast óbeint, til dæmis með því að heimila að skuld við Isavia myndi hækka; eða aðhafast ekkert. Annaðhvort var annar eða þriðji kosturinn fyrir valinu. Hefði fyrsti kosturinn orðið fyrir valinu þá hefði sú ákvörðun verið galin, þvert á allar hugmyndir um heilbrigt atvinnulíf og tæplega í góðu samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar landsins. En slíkar ákvarðanir hafa verið teknar og vert að nefna tvö dæmi.

                                                               ***

Í miðju hruninu voru lánaðar 500 milljónir evra til Kaupþings. Að forminu til lánaði Seðlabankinn þá peningaglás, en eftir að símtal Geirs Haarde og Davíðs Oddssonar um það var opinberað kom í ljós að Seðlabankinn var á móti lánveitingunni. Þorgerður Katrín sagði á K100 að slíkar ráðstafanir þyrfti að réttlæta fyrir skatt-greiðendum. Þorgerður Katrín sat í ríkisstjórn þegar lánið var veitt og reyndi að fá samráðherra sína til að samþykkja lánveitinguna. Ekki hefur hún gert minnstu tilraun til að réttlæta það fyrir skattgreiðendum. Jafnvel þótt hún hafi átt persónulegra hagsmuni af þeim björgunartilraununum.

                                                               ***

Annað dæmi er frá lok mars 2009 þegar Barack Obama Bandaríkjaforseti ákvað að alríkisstjórnin tæki þátt í að stofna fyrirtæki sem keypti stærstan hluta reksturs af þrotabúi General Motors. Gjaldþrot GM var það fjórða stærsta í Bandaríkjunum frá upphafi. Alríkisstjórnin lagði nýja félaginu til 49,5 milljarða dala í formi lána og hlutafjárframlags en upphaflega töldu embættismenn að mun lægri fjárhæð myndi nægja. Síðast 19,5 milljarðar dala. Fyrir framlagið eignaðist bandaríska ríkið 60% hlut. Kanadísk stjórnvöld eignuðust 12% hlut. Í kjölfarið fékk félagið uppnefnið Government Motors.

                                                               ***

Góður hagnaður varð á rekstri GM árið 2010 og félagið fór í hlutafjárútboð, þar sem bandarísk og kanadísk stjórnvöld seldu stóran hluta af hlutabréfum sínum. Árið 2013 seldi bandaríska ríkið afganginn af hlut sínum í GM. Í tilefni af því sagði Obama eftirfarandi í fréttatilkynningu sem send var frá Hvíta húsinu:

                                                               ***

„Þegar ég tók við embætti rambaði bandaríski bílaiðnaðurinn, hjarta bandarísks iðnaðar, á barmi hruns. Tveir af stóru framleiðendunum þremur, GM og Chrysler, voru við það að fara í þrot og taka niður með sér birgja, dreifingaraðila og heilu samfélögin líka. Í miðri kreppu, sem var þá þegar orðin sú versta frá kreppunni miklu, var hætta á því að milljón Bandaríkjamanna til viðbótar myndu missa vinnuna. Sem forseti neitaði ég að láta þetta gerast. Ég neitaði að yfirgefa bandaríska verkamenn og mikilvægan geira bandarísks iðnaðar. En gegn því að bjarga og aðstoða GM og Chrysler með skattfé kröfðumst við ábyrgðar og árangurs. Árið 2011 markaði kaflaskipti því þá endurgreiddi Chrysler hvert einasta sent og ríflega það af skuld fyrirtækisins við bandaríska skattgreiðendur vegna fjárfestingar ríkisstjórnar minnar. Í dag hnýtum við endahnútinn á þessa sögu með því að selja þau hlutabréf sem alríkisstjórnin átti eftir vegna fjárfestingarinnar í General Motors. GM hefur nú endurgreitt hvern einasta dal sem ríkisstjórn mín varði til björgunar fyrirtækisins auk milljarða sem fyrri ríkisstjórn fjárfesti í fyrirtækinu. Tæplega fimm árum síðar eru stóru fyrirtækin þrjú öll nógu sterk til að standa á eigin fótum. Þau eru arðbær í fyrsta skipti í tæpan áratug. Um 372.000 ný störf hafa skapast í geiranum og hefur fjölgun nýrra starfa ekki verið hraðari síðan á tíunda áratug síðustu aldar. Þökk sé verkamönnunum sem vinna í verksmiðjum okkar er verið að hanna, þróa og framleiða sum af tæknivæddustu og sparneytnustu bílum í heiminum og umheimurinn er að kaupa fleiri slíka bíla en nokkru sinni fyrr.“

                                                               ***

Þessi orð forsetans eru augljóslega samin af spunameisturum. Staðreyndin er sú að Bandaríkjastjórn varði alls 49,5 milljörðum dala til að bjarga General Motors auk 1,5 milljarða dala sem runnu beint til birgja og verktaka GM. Heildarframlagið var því 51 milljarður dala. Eftir söluna á eftirstandandi hlutunum hafði stjórnin fengið 39 milljarða dala til baka. Það þýðir að tap bandarískra skattgreiðenda nam 12 milljörðum dala. Ríkisstjórn George W. Bush hafði lánað 13,4 milljarða dala af heildarfjárhæðinni. En ef sú fjárhæð hefði ekki verið lánuð, hefði félagið verið 13,4 milljörðum dala verr statt. Úr því að forsetinn ætlaði ekki að „yfirgefa bandaríska verkamenn“ hefði hann þurft að lána þá fjárhæð einnig til að bjarga fyrirtækinu.

                                                               ***

Bandaríska ríkið tapaði sem svarar rúmum 5.000 krónum á hvern Bandaríkjamann vegna björgunarinnar. Þessir peningar voru teknir af fólki sem í margt átti vart eða ekki fyrir nauðsynjum.

                                                               ***

Wow air og General Motors áttu bæði við sama vanda að stríða. Taprekstur. Því miður tókst forsvarsmönnum Wow air ekki að vinda ofan af þeim taprekstri og því fór sem fór (færri hefðu séð eftir GM enda hafa þeir sérhæft sig í að framleiða ljóta bíla). Það er hægt að halda langa fyrirlestra um hversu sérstök hver atvinnugrein er og því þurfi einmitt að taka peninga af skattborgurunum og afhenda eigendum fyrirtækja í einmitt þessari atvinnugrein.

                                                               ***

En Wow air gerði kraftaverk meðan það lifði. Flugfélagið á mjög stóran þátt í þeirri uppsveiflu sem varð í íslenskum ferðaiðnaði. En dauði þess var ekki heldur til einskis. Gjaldþrot Wow air og yfirlýsingar Gylfa Zoëga á Ríkisútvarpinu virðast hafa barið í gegn kjarasamninga á almennum vinnumarkaði.

                                                               ***

Leyfum Gylfa að eiga lokaorðin sem beint er til Gunnars Smára og félaga hans í verkalýðshreyfingunni: „Maður hélt að þetta stéttastríð hefði verið útkljáð fyrir að minnsta kosti sextíu árum. Ég hélt að allir væru farnir að skilja það að lífskjörin byggjast á því að fyrirtæki búi til verðmæti, veiti atvinnu og borgi laun.“

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.