*

laugardagur, 15. ágúst 2020
Leiðari
25. júlí 2020 10:04

Yfirburðarstaða hvers?

Rio Tinto ítrekaði í vikunni hótanir sínar um að loka álverinu í Straumsvík ef Landsvirkjun myndi ekki lækka raforkuverð til félagsins.

Birgir Ísl. Gunnarsson

Rio Tinto ítrekaði í vikunni hótanir sínar um að loka álverinu í Straumsvík ef Landsvirkjun myndi ekki lækka raforkuverð til félagsins.

Samhliða því gaf Rio Tinto út að fyrirtækið hefði lagt fram kvörtun við Samkeppniseftirlitið „vegna misnotkunar Landsvirkjunar á yfirburðastöðu fyrirtækisins“ gagnvart álverinu í Straumsvík. Með því að semja um á ólíkum kjörum í raforkusamningum milli fyrirtækja væri Landsvirkjun að misnota markaðsráðandi stöðu þess.

Í því samhengi má benda á að Rio Tinto er stærsta iðnfyrirtæki heims, með starfsemi um heim allan. Markaðsvirði félagsins er um 100 milljarðar Bandaríkjadala, sem samsvarar ríflega 40-földu eigin fé Landsvirkjunar. Hagnaður fyrirtækisins bara á síðasta ári var um þúsund milljarðar króna sem samsvarar meira en þreföldu eigin fé Landsvirkjunar.

Þá má spyrja sig hvers vegna Rio Tinto velur þennan tímapunkt til að kæra málið til Samkeppniseftirlitsins. Miðað við málshraðann og verkefnastöðuna hjá Samkeppniseftirlitinu má búast við að slík rannsókn taki fjölda ára. Á sama tíma hótar Rio Tinto því að loka álverinu á næstu misserum, fáist ekki lægra raforkuverð. Spyrja verður sig hve mikil alvara er á bak við kvörtun Rio Tinto umfram það að skapa sér samningsstöðu gagnvart Landsvirkjun.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, sagði í viðtali í vikunni að sér hefði komið kvörtunin á óvart enda hefði Rio Tinto enn ekki svarað síðasta tilboði Landsvirkjunar. Þá hafi ESA skoðað núgildandi raforkusamning við Rio Tinto sem gerður var árið 2010.

Landsvirkjun hefur samið með sama hætti í áraraðir. Orkufyrirtækið hefur bent á að það sé að semja á alþjóðlegum raforkumarkaði og viðsemjendurnir séu alþjóðleg stórfyrirtæki með starfsemi um heim allan. Þeim sé frjálst að ganga að eða hafna samningum eins og þeir kjósi.

Rio Tinto hefur beitt öllum ráðum til að koma stjórnendum Landsvirkjunar í skilning um það hve alvarleg staða álversins sé. Það hefur skilyrt launahækkanir starfsmanna við að samningar náist við Landsvirkjun og ítrekað beitt fyrir sig að undir sé lífsviðurværi 500 starfsmanna álversins.

Landsvirkjun hefur þegar veitt Rio Tinto afslátt af raforkuverði til skamms tíma. Í vor gaf Landsvirkjun út að átta af tíu viðskiptavinum Landsvirkjunar fengju afslátt af raforkuverði í hálft ár, vegna efnahagslegra áhrifa COVID-19 heimsfaraldursins, sem var að líkindum að stórum hluta útspil í viðræðunum við Rio Tinto.

Landsvirkjun er í þröngri stöðu. Landsvirkjun ber fyrst og fremst skylda að skila eiganda sínum, ríkinu, arði en ekki að sjá til þess að álverið í Straumsvík skili hagnaði. Gefi það eftir gagnvart Rio Tinto má búast við því að önnur stóriðja hér á landi banki á dyrnar og krefjist þess að fá afslátt af sínum raforkusamningum.

Þá má benda á að álverið í Straumsvík er fremur smátt í alþjóðlegum samanburði og hefur ekki verið rekið á fullum afköstum frá því að ljósbogi kom upp í álverinu í fyrra. Eitthvað sem Landsvirkjun ber ekki ábyrgð á.

Velta má fyrir sér framtíðarþróuninni á íslenskum raforkumarkaði. Raforkuverð erlendis er almennt á niðurleið í krafti þess að tæknin á bak við vind- og sólarorkuver verður sífellt ódýrari. Frá því að nýr raforkusamningur Landsvirkjunar og Norðuráls á Grundartanga við Nordpool raforkumarkaðinn tók gildi í nóvember hefur verð þar fallið um meira en 90%. Þá hefur saga íslensks kísiliðnaðar síðustu ár verið nær samfelld sorgarsaga.

Enn hefur það ekki gerst að stórnotendur raforku séu tilbúnir að greiða hærra verð fyrir umhverfisvænni raforku líkt og þá sem framleidd er hér á landi umfram óumhverfisvænni orkugjafa.

Lítið hefur gerst varðandi mögulega lagningu sæstrengs frá Íslandi og til Evrópu. Vegna stöðunnar sem uppi er hjá íslenskri stóriðju hlýtur meiri hreyfing að komast á málið. Íslendingar hljóta að stefna á að fá sem mest verðmæti fyrir sínar verðmætustu auðlindir.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.