Skýrsla fjármálaráðuneytisins um „hlut fyrirtækja í hagnaðardrifinni verðbólgu” kom út í síðustu viku. Skýrslan var unnin að beiðni þingmanna Flokks fólksins og Pírata.

Skýrslan hlaut litla athygli og fjölmiðlarýnir hefur ekki orðið var við að þeir sem báðu um
skýrsluna hafi tjáð sig um niðurstöður hennar, hvorki á þingi né annars staðar. Það verður að teljast áhugavert í ljósi þess að umfjöllunarefni skýrslunnar hefur verið mikið til tals í hinni pólitísku umræðu og á vettvangi fjölmiðlanna undanfarin ár.
Hugtakið gróðaverðbólga var um skamma hríð í tísku erlendis. Með hugtakinu er vísað til þess að verðbólga á Vesturlöndum undanfarin ár sé fyrst og fremst til komin vegna gróðabralls og óeðlilega mikillar hagnaðarsækni fyrirtækja. Það fór úr tísku þegar menn áttuðu sig að verðbólgan beggja vegna Atlantsála hafði ekkert með meinta græðgi fyrirtækjaeigenda að gera.

En það sama er ekki uppi á teningnum hér á landi. Þessari skoðun hefur verið hampað af stjórnmálamönnum á vinstri væng stjórnmálanna og af verkalýðsleiðtogum á borð við Finnbjörn A. Hermannsson, forseta Alþýðusambandsins, og Ragnari Þór Ingólfssyni, formanni VR. Stefán Ólafsson, félagsfræðingur og starfsmaður Eflingar, hefur svo gert tilraunir til að ljá þessum málflutningi fræðilegan blæ.
Þeir hafa haldið þessu sjónarmiði á lofti þó svo að gögn styðji ekki fullyrðingar um að hagnaðarhlutfall fyrirtækja hafi verið með óeðlilegum hætti undanfarin ár. Skýrsla fjármálaráðuneytisins, sem er ágætlega úr garði gerð, sýnir svo að verðbólga liðinna ára skýrist fyrst og fremst af viðvarandi útgjaldaaukningu ríkissjóðs og af lágum vöxtum á meðan heimsfaraldurinn gekk yfir.

Sem fyrr segir hafa fjölmiðlar ekki enn sem komið er leitað til þeirra sem hafa hæst galað um gróðaverðbólgu og spurt þá út í niðurstöðu skýrslunnar.

***

Einn af helstu talsmönnum þess sjónarmiðs að verðbólga hér á landi sé að mestu tilkomin vegna óeðlilegs hagnaðar fyrirtækja er
Ásgeir Brynjar Torfason, ritstjóri Vísbendingar sem útgáfufélag Heimildarinnar gefur út. Örvæntingarfull barátta ritstjórans fyrir málstaðnum afhjúpaðist eftirminnilega fyrr í vetur þegar hann skrifaði í blað sitt:

„Það að sannanir skorti fyrir óeðlilegri hagnaðaraukningu fyrirtækja þýðir ekki að sannað sé að um hana sé ekki að ræða.“

Svo mörg voru þau orð.

En af Ásgeiri Brynjari er það helst að frétta að hann bauð sig til stjórnarsetu í Landsbankanum síðastliðinn föstudag. Enginn tilnefndi Ásgeir til setunnar og lögmál framboðs og eftirspurnar réðu svo niðurstöðu stjórnarkjörsins.
Þrátt fyrir það má velta fyrir sér hvort það sé við hæfi að ritstjóri tímarits sem sérhæfir sig í umfjöllun um efnahagsmál bjóði sig fram til stjórnarsetu í stórfyrirtækjum á borð við Landsbankans. Að minnsta kosti kallar slík vegferð á einhverjar skýringar gagnvart áskrifendum blaðsins.

***

Fyrr í vetur var tímaritið Vísbending til umfjöllunar á þessum vettvangi. Þar kom fram að tímaritið var lengi vel helsti vettvangur skoðanaskipta fræðimanna um stjórnmál og efnahagsmál. Á síðustu árum hefur tímaritið orðið einsleitnara. Þar skrifa nánast eingöngu fræðimenn sem eiga flestir það sameiginlegt að vera helstu álitsgjafar um efnahagsmál í rabbþáttum Ríkisútvarpsins. Það skiptir svo sem litlu máli í hinu stóra samhengi en vitræn efnahagsumræða hefur fundið sér fjölmarga farvegi síðustu áratugi.

Nú er svo komið að tímaritið virðist vera vettvangur byltingarmanna á vinstri kantinum. Í síðasta blaði skrifar Jóhannes Hraunfjörð Karlsson um verðbólgu og krónuna. Í niðurlagi greinarinnar segir:

„Í Bandaríkjunum er litið á verðbólgu sem skaðvald sem lækkar arðgreiðslur til hluthafa. Hérlendis er þessu þveröfugt farið; verðbólgan er gullgæs hinnar íslensku fjármálastéttar sem lifir og starfar í gerviveröld. Fjármálastéttin býr ekki við krónuna. Hún skuldar ekki húsnæðislán í krónum, heldur safnar í sjóði og nýtur kosta verðtryggingarinnar með vaxtavöxtum. Fjármálaelítan hefur í reynd nýlenduvætt Ísland. Grunnþörf borgarans, heimilið, myndar fótinn fyrir rentuna og hefur lítið breyst frá tíma einokunarverslunarinnar: krónan er eins og vaðmálið forðum til innanlandsbrúks en þorskurinn malar gull fyrir kónginn. Hvenær ætlar íslensk stjórnmálastétt að vakna af dvalanum?“

Þessi skrif myndu sóma sér ágætlega á leiðarasíðu tímaritsins Rauði öreiginn sé það einhvers staðar gefið út en eiga varla heima í tímariti sem telur sig vera trúverðugan vettvang skoðanaskipta um efnahagsmál.

***

Á dögunum lét Viðreisn markaðsrannsóknarfyrirtækið Maskínu gera fyrir sig könnun. Þar var spurt: Hversu mikil eða lítil áhrif hafa verðbólga og hærri vextir haft á heimilisbókhaldið á þínu heimili?

Tæplega 70% telja að vextir og verðbólga hafi haft mikil áhrif á heimilisbókhaldið. Ber þetta miðlun peningastefnunnar fagurt vitni en vekur að sama skapi upp áleitnar spurningar um fjármálalæsi þriðjungs þjóðarinnar sem telur að vextir og verðbólga hafi lítil eða engin áhrif á heimilisbókhaldið.

Einn þeirra fjölmiðla sem gerðu könnuninni skil var DV sem líta má sem einhvers konar málgagn Viðreisnar. Í þeirri frétt segir:

„Verðbólga og háir vextir hafa mikil eða mjög mikil áhrif á heimilisbókhaldið hjá 70 prósent þjóðarinnar. Aðeins 15 prósent segja að vextir og verðbólga hafi lítil áhrif. Í tilkynningu frá Viðreisn segir að könnunin staðfesti tilfinningu fjölda fólks og fullyrðingar Viðreisnar um að staða heimilanna hafi versnað undir stjórn þessarar ríkisstjórnar: Það er forgangsmál Viðreisnar að skapa svigrúm fyrir vaxtalækkanir. Strax. Það er stærsta hagsmunamál þjóðarinnar, svo að hægt sé að lækka vexti og heimilin í landinu geti notið hagvaxtar og stöðugleika.“

Gallinn við þessa framsetningu er að könnunin gefur alls enga ástæðu til þess að draga ofangreindar ályktanir. Niðurstaða könnunarinnar er einfaldlega sú að um 70% finna fyrir áhrifum vaxta og verðbólgu á heimilisbókhaldið en ekkert er spurt um hvort áhrifin séu jákvæð eða neikvæð.

Viðreiskn krefst lægri vaxta á flettiskiltum.
Viðreiskn krefst lægri vaxta á flettiskiltum.

Vissulega bitnar hærri fjármagnskostnaður á skuldugum heimilum en að sama skapi koma háir vextir sparnaði heimila vel.

En það ætti svo sem ekki að koma á óvart að hækkun vaxta hafi áhrif á bókhald heimila. Það er einmitt tilgangurinn með þeim – að auka sparnað og draga úr neyslu og fjárfestingu til að draga úr verðbólgu.

En í þessu samhengi er rétt að halda því til haga að þrátt fyrir miklar vaxtahækkanir undanfarin misseri hefur dregið úr skuldsetningu íslenskra heimila. Eins og fram kemur í síðustu fjármálastöðugleikaskýrslu Seðlabankans þá drógust skuldir heimila að raunvirði saman í fyrra.

Skuldir heimila sem hlutfall af landsframleiðslu voru 73,1% í lok síðasta árs og lækkuðu um þrjár prósentur á árinu. Hlutfall skulda heimila af ráðstöfunartekjum lækkaði einnig í fyrra og eins og Seðlabankinn bendir á þá eru skuldahlutföll heimila lág um þessar mundir í sögulegu samhengi og miðað við það sem þekkist í nágrannalöndunum.

Fjölmiðlarýni er einn af föstum dálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrir í blaðinu sem kom út 23. aprí 2024