Seðlabankinn greip inn í á gjaldeyrismarkaði í dag og keypti krónur fyrir sex milljónir evra, um 820 milljónir króna, til að vinna gegn veikingu krónunnar samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Krónan veiktist um 0,5% í dag gagnvart dollara, sem kostar nú 121 krónu, og 0,3% gagnvart evru sem kostar 137 krónur.

Markaðsaðilar sem Viðskiptablaðið hefur rætt við telja að það sem helst skýri veikingu krónunnar eru óvissa tengd Wow air og líkur á að aflandskrónueigendur færi fé sitt úr landi á næstunni.

Í gær var greint frá því að Wow air hefði ekki greitt mótframlag í lífeyrissjóð eða séreignarsparnað í þrjá mánuði . Wow og Indigo Partners óskuðu í síðustu viku eftir fresti út 29. mars til að ganga frá fjárfestingu Indigo Partners. Áður en til þess kom könnuðu forsvarsmenn Wow hvort Icelandair hefði áhuga á að hefja viðræður á ný um kaup Icelandair á Wow en upp úr viðræðunum slitnaði í lok nóvember.