Landsvirkjun mun útvega rafmagn fyrir kísilmálmverksmiðju sem United Silicon reisir í Helguvík á Suðvesturlandi, að því er fram kemur í tilkynningu. Fyrirtækin tilkynntu í dag að öllum fyrirvörum hafi verið aflétt af raforkusölusamningi sem fyrirtækin undirrituðu í mars. Fyrirvararnir sneru meðal annars að tilheyrandi leyfisveitingum, raforkuflutningssamningum og fjármögnun.

United Silicon áformar að framkvæmdir hefjist að fullum krafti í júlí en jarðvegsframkvæmdir eru þegar hafnar á svæðinu en stefnt er að því að rekstur verksmiðjunnar, sem mun nota 35MW af afli, geti hafist 1. apríl 2016.

Fjármögnun verkefnisins er tryggð og verður í höndum Arion banka í formi hefðbundinnar verkefna- og lánsfjármögnunar annars vegar og útgáfu skuldabréfa á innlendum markaði hins vegar.

Í tilkynningunni segist Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunnar, að staðfesting raforkusölusamningsins marki merkan áfanga í uppbyggingu kísilmálmiðnaðar á Íslandi. Hann sé fullviss að kisilmálmframleiðsla eigi góða framtíðarmöguleika á Íslandi þar sem aðstæður henti iðnaðinum einkar vel. Verkefnið muni styrkja iðnþróun á Íslandi og stuðla að uppbyggingu í Helguvík.

Magnús Garðarsson, framkvæmdastjóri United Silicon hf. í Helguvík, tekur í sama streng og segir að það sé stór áfangi að aflétta öllum fyrirvörum. Með þessu skrefi sé verið að tryggja að Ísland fái þennan mikilvæga iðnað framtíðarinnar, sem muni flytja mikla þekkingu og tækni til landsins. Verið sé að tryggja stöðuga atvinnu fyrir margar kynslóðir á Reykjanesi við að framleiða kísil.