Matsfyrirtækið Moody´s metur möguleg neikvæð áhrif af brotthvarfi Wow air af markaðnum vera til skammtíma og geti dregið úr hagvexti á árinu. Til lengri tíma telur fyrirtækið þó áhrifin vera takmörkuð þar sem önnur flugfélög muni að líkindum koma inn og fylla skarð Wow.

Þannig sé fall fyrirtækisins metin til lækkunar á á horfum fyrir endurskoðun lánshæfismats ríkisins, þó ekki taki félagið ákvörðun um lækkun matsins nú. Býst matsfyrirtækið við að hagvöxtur á árinu verði hófsamur miðað við fyrra ár, eða í kringum 2-3%, eftir 4,6% hagvöxt á síðasta ári.

Loks hafa skýrsluhöfundar áhyggjur af kjaraviðræðunum, en eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gærkvöldi hafa náðst samningar milli SA og SGS og verkalýðsfélaga í samfloti með þeim, þar með talið Eflingu og VR.

Í skýrslu matsfyrirtækisins er farið yfir hækkun olíuverðs, og minni vöxt í ferðaþjónustunni sem var hafin fyrir fall flugfélagsins. Bent er á að í versta falli geti gjaldþrotið leitt til verulega minni útflutnings vegna færri ferðamanna, sem og hættan af meira atvinnuleysi geti dregið úr einkaneyslu.

Loks að snögg lækkun á gengi krónunnar geti aukið hættu á verðbólgu, sem aftur hafi áhrif á eftirspurn og fjárfestingu. Benda þeir á að krónan hafi lækkað um 12% gagnvart Bandaríkjadal síðan í september síðan fréttist af fjárhagsvanda Wow.

Fjallað er um skammtímaáhrifin af komum ferðamanna til landsins á hinu mikilvæga sumartímabili, því félagið hafi flutt um fjórðung allra ferðamanna til landsins á síðasta ári.

Samt sem áður hafi mikilvægi félagsins þegar dregist saman síðan fjárhagsvandræðin byrjuðu og það dró saman flota sinn, eða eins og Seðlabankinn bendir á um helmingurinn af umfangi ársins 2017. Með um 1.000 beina starfsmenn og fjölda afleiddra starfa geti atvinnuleysi aukist um 0,7%.