Bandaríska fyrirtækið Andreessen Horowitz, sem fjárfestir í sprotafyrirtækjum, hefur komið á laggirnar nýjum sjóði sem hefur það að markmiði að auka hlutdeild þeirra sem eru dökkir á hörund innan tæknigeirans. Sjóðurinn er ætlaður þekktum dökkum einstaklingum og meðal þeirra sem hafa fjárfest í sjóðnum eru körfuboltastjarnan Kevin Durant og leikarinn Will Smith. WSJ greinir frá þessu.
15 milljónir dollara munu fyrst um sinn vera í stýringu hjá sjóðnum og mun hann fjárfesta samhliða aðalsjóði Andreessen Horowitz, en sá sjóður er með 1,5 milljarða dollara í stýringu.
Fjárfestar sjóðsins munu hagnast ef fjárfestingar sjóðsins ganga vel en Andreesen hafa gefið það út að fyrirtækið hyggist ekki taka til sín hagnaðinn sem það kemst yfir í þessum viðskiptum, heldur muni sú upphæð renna til samtaka sem hafa það að markmiði að auka hlutdeild dökkra innan tæknigeirans.
Samkvæmt frétt WSJ eru 58% sprotafjárfesta innan tæknigeirans hvítir karlmenn og aðeins 3% fjárfesta eru dökkir á hörund.