Undirritaður hefur verið samningur um aukna byggðafestu á vinnusóknarsvæðum þéttbýlisstaða á sunnanverðum Vestfjörðum. Samningurinn felur í sér samstarf um nýtingu á 400 þorskígildistonna aflamarki árlega í þrjú ár auk mótframlags samstarfsaðila. Að samkomulaginu koma, auk Byggðastofnunar, Oddi hf. á Patreksfirði og útgerðarfyrirtækin Stegla ehf. og Garraútgerðin ehf. á Tálknafirði. Þetta kemur fram á vefnum bb.is.

Oddi hf. gerir ráð fyrir 4.000-5.000 tonna vinnslu í fiskvinnslu Odda hf. á Patreksfirði og með ríflega 60 starfsmönnum auk 25 starfa á sjó. Það er von samningsaðila að samkomulaginu sé lagður grunnur að aukinni byggðafestu á Sunnanverðum Vestfjörðum í framhaldi af lokun fiskvinnslu Þórsbergs ehf. á Tálknafirði. Þórsberg og fleiri fyrirtæki á Tálknafirði voru áður aðili að samskona samkomulagi við Byggðastofnun.

Samkomulag um Aflamark Byggðastofnunar er nú í gildi á eftirtöldum tíu stöðum: Bakkafirði, Breiðdalsvík, Djúpavogi, Drangsnesi, Flateyri, Hrísey, Raufarhöfn, Suðureyri, sunnanverðum Vestfjörðum og Þingeyri. Auk þess hefur verið samþykkt að ganga til samninga við aðila í Grímsey um nýtingu Aflamarks Byggðastofnunar.