Aflaverðmæti íslenskra skipa í ágúst nam tæpum 12,2 milljörðum króna sem er um 3% aukning samanborið við ágúst 2014. Aflaverðmæti botnfisks nam tæpum 5,9 milljörðum og jókst um 27,3%. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar.

Verðmæti uppsjávarafla nam rúmum 5,1 milljarði og dróst saman um 24,1% samanborið við ágúst 2014, vegur þar þyngst um 1,9 milljarða samdráttur í aflaverðmæti makríls. Aflaverðmæti flatfisks nam 822 milljónum í ágúst samanborið við 150 milljónir í ágúst 2014 sem skýrist helst af auknum grálúðuafla. Verðmæti skel- og krabbadýra jókst einnig á milli ára, nam tæpum 318 milljónum í ágúst samanborið við 275 milljónir í ágúst 2014.