Ekki er að óbreyttu gert ráð fyrir veiðum íslenskra skipa á kolmunna eða norsk-íslenskri síld í færeyskri lögsögu á þessu ári. Íslenski flotinn hefur þó sótt 78 til 92% af kolmunnaveiðinni inn í lögsögu Færeyja undanfarin fimm ár. Ef samningsleysi hamlar veiðum á kolmunna á næstunni kemur það beint ofan í loðnubrest sem nú er staðreynd. Í ljósi hans er samningur við Færeyinga enn meira aðkallandi en áður.

Þegar líður á vertíðina færist kolmunnaveiðin norður eftir frá írsku lögsögunni og inn í þá færeysku – sú staða verður uppi innan fárra daga ef kolmunninn fylgir göngumynstri undanfarinna ára.

Ekki gert ráð fyrir veiðum

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra, undirritaði í desember reglugerðir um heildarkvóta Íslands í kolmunna og norsk-íslenskri síld fyrir árið 2019. Ráðlögð heildarveiði á kolmunna árið 2019 samkvæmt ráðgjöf Alþjóða hafrannsóknaráðsins (ICES) er 1.143.629 tonn og er það tæplega 18% lækkun frá árinu 2018.

Hlutur Íslands samkvæmt kolmunnasamningi frá 2005 var 16,23%. Undanfarin ár hafa bæði Færeyjar og Evrópusambandið aukið hlut sinn í kolmunna um ríflega 47%. Ákvörðun Íslands um 241.000 tonna kvóta miðast við meðalhækkun annarra ríkja og er hlutdeild Íslands því 21,1%.

Ekki er hins vegar í reglugerðum ráðherra frá því í desember gert ráð fyrir heimild til handa íslenskum skipum til veiða á kolmunna og norsk-íslenskri síld í færeyskri lögsögu á þessu ári. Þar stendur málið enn.

Þungar áhyggjur

Veiðar íslenskra skipa á kolmunna hófust þegar rúm vika var liðin af febrúar. Góð veiði hefur verið að undanförnu vestur af Írlandi og ríflega fimmtungur kvótans er þegar kominn á land. Það eru gömul sannindi og ný að þegar líður á vertíðina þá færist veiðin norður eftir og inn í færeysku lögsöguna – sú staða verður uppi von bráðar eða þegar líður á aprílmánuð og í maí. Í því ljósi eru samningar um gagnkvæmar veiðiheimildir við Færeyinga sjávarútvegsfyrirtækjum og fólki í sjávarbyggðum afar mikilvægir, sérstaklega í ljósi þess að veiðistopp vegna samningsleysis kæmi beint ofan í missinn af loðnunni.

Miklir hagsmunir

Eins og Fiskifréttir sögðu frá í síðustu viku settu öll þau sveitarfélög sem mikilla hagsmuna eiga að gæta vegna uppsjávarveiða af stað vinnu í lok febrúar og byrjun þessa mánaðar, við að kortleggja þann fjárhagslega skaða sem loðnubresturinn hefur á fólk og fyrirtæki – á samfélagið allt. Fjármálastjóri Fjarðabyggðar skilaði af sér ítarlegu plaggi þar sem skilaboðin voru í meira lagi kuldaleg – Fjarðabyggð á gríðarlegra hagsmuna að gæta í uppsjávarveiðum og loðnubrestsins mun gæta á öllum sviðum samfélagsins.

Í greiningu Snorra Styrkárssonar fjármálastjóra var ekki einungis horft til loðnuveiða og vinnslu, heldur var inn í myndina tekin sú staðreynd að engir samningar eru við Færeyinga um veiðar innan þeirra lögsögu sem, að óbreyttu, mun hitta Fjarðabyggð sérstaklega illa fyrir.

„Gríðarlega mikilvægt er að þessir samningar náist og að íslenskum kolmunnaveiðiskipum verði tryggð veiðiréttindi á kolmunna í færeyskri lögsögu. Ef það gerist ekki mun það valda enn öðru áfalli í afkomu íbúa og fyrirtækja í Fjarðabyggð,“ segir í niðurlagi úttektar Snorra.

Engu logið

Og það er engu logið um hagsmuni Fjarðabyggðar í þessu tilliti. Kemur fram í samantekt Snorra að 50 til 56% alls kolmunnaafla íslenskra skipa hefur verið landað og hann unninn í Fjarðabyggð á síðustu fimm árum. Það eru tæp 600.000 tonn af 1,1 milljón tonna afla, svo stærðirnar séu settar í samhengi. Má áætla að í útflutningsverðmætum að þessi afli sem landað hefur verið í Fjarðabyggð á tímabilinu hafi skilað 17 milljörðum í útflutningstekjum – mjög nálægt því sem síðustu tvær loðnuvertíðir hafa skilað þjóðinni hvor um sig.

Enginn samningur

Samningurinn sem síðast gilti milli íslenskra og færeyskra stjórnvalda um gagnkvæmar veiðar, og þá aðgang okkar til veiða á kolmunna og norsk-íslenskri síld – fyrir árið 2018 – skilaði því að hámarksfjöldi íslenskra skipa sem gat verið á kolmunnaveiðum í færeyskri lögsögu á sama tíma var fjölgað úr tólf í fimmtán. Í þessari kröfu íslenskra stjórnvalda um fjölgun skipa má lesa mikilvægi aðgangs að lögsögu Færeyja við kolmunnaveiðarnar.

Samið var um að Færeyingar gætu veitt loðnu við Ísland sem nam 5% af ákvörðuðum heildarafla en að hámarki 25.000 tonn í stað 30.000 tonna sem var áður. Áfram voru takmarkanir á heimildum Færeyinga til að verka loðnu um borð eða landa í Færeyjum til manneldis. Heimildir Færeyinga til veiða á botnfiski voru þær sömu árið áður; 5.600 tonn. Hámark fyrir þorskveiði var 2.400 tonn og 650 tonn fyrir keilu innan þessa heildarmagns.

Ísland hélt heimild til að veiða 1.300 tonn af makríl sem eru aflaheimildir frá Færeyjum í færeyskri lögsögu en Ísland afsalaði sér 2.000 tonnum af Hjaltlandssíld sem lengi hafði verið í samningi þjóðanna, án þess að Ísland hafi nýtt sér það um árabil.

Þegar þessi samningur lá fyrir á sínum tíma var frá því sagt í tilkynningu að þjóðirnar „stefna að því að hefja vinnu við gerð rammasamnings milli landanna um fiskveiðimál sem fyrst, með það að markmiði að þeirri vinnu verði lokið fyrir 1. september á þessu ári [2018].“

Samkvæmt heimildum Fiskifrétta hefur ekkert þokast í þessu máli. Reyndar fæst ekki staðfest að samninganefndir landanna hafi yfir höfuð sest niður nýlega. Ástæðan er einföld. Færeyingar telja sig eiga meira inni miðað við fyrri samninga. Nákvæmlega það sama og Íslendingar halda fram.

Áður óþekkt harka

Bitbeinið er loðna og kolmunni.

Í lok desember 2017 felldi Kristján Þór sjávarútvegsráðherra veiðiheimildir Færeyinga í íslenskri lögsögu úr gildi, rétt áður en nefndur samningur var þó gerðu – og má segja að áður hafði ekki sést viðlíka harka í samskiptum landanna í þessari samningagerð. Þetta gerði hann eftir árlegan fund sjávarútvegsráðherra landanna fyrr í mánuðinum. Á fund­in­um hafði Ísland boðið óbreytt­an samn­ing en Fær­eyingar kröfðust auk­inna veiðiheim­ilda í botnfiski og aflétt­ingu tak­mark­ana á mann­eld­is­vinnslu á loðnu. Færeyingar notuðu kolmunnann sem fundarhamar – tilkynntu íslenskum stjórnvöldum að aðgangur til veiða á kol­munna í fær­eyskri lög­sögu fengist ekki nema að kröf­um þeirra yrði gengið.

Þá sagði Kristján Þór í viðtölum við fjölmiðla: „Þetta er svar við því að okkar skip fá ekki að veiða kolmunna í þeirra sjó á næsta ári. [...] Ég er tilbúinn að ræða breytingar á fyrra samkomulagi. En ef Ísland á að gefa eitthvað frá sér í viðskiptum við aðrar þjóðir er eðlilegt að eitthvað annað komi í staðinn.“

Samningur virðist ekki í sjónmáli, þó hann sé sennilega fljót afgreiddur setjist menn niður. Loðnubrestur virðist veikja samningsstöðu Íslendinga verulega, en á sama tíma eru Færeyingar í kjörstöðu til samninga á sama tíma og kolmunnatorfan nálgast lögsögu þeirra. Færeyingar vita hversu miklir hagsmunir eru undir fyrir Ísland – sérstaklega þegar loðnuvertíð virðist fyrir bí.