Beitir NK hélt í Smuguna til makrílveiða sl. fimmtudagdag. Hann er væntanlegur til Neskaupstaðar í dag með 1200 tonn af makríl sem fengust í sex holum, að því er fram kemur í frétt á vef Síldarvinnslunnar.

Sturla Þórðarson skipstjóri sagði að lítið hefði fengist í tveimur fyrstu holunum en þá var keyrt 40 mílur í norður og þar reyndist vera gott lóð. Aflinn fékkst að mestu um 12 mílur frá norsku línunni og gekk makríllinn í norðaustur. Að sögn Sturlu er þetta þokkalegur fiskur, að meðaltali 420-430 grömm. Siglingin heim af miðunum er um 380 mílur.

Börkur NK lagði af stað í Smuguna í gær. Að loknum þessum veiðiferðum munu skipin snúa sér að síldveiðum.

Bjarni Ólafsson AK kom til Neskaupstaðar í morgun með 250 tonn af síld þannig að vinnsla er hafin í fiskiðjuverinu að loknu vel þegnu helgarfríi.