Síldarvinnsluskipin Beitir og Börkur leggja enn stund á síldveiðar austur af landinu og allur aflinn fer til manneldisvinnslu í fiskiðjuverinu í Neskaupstað. Lokið var við að landa tæplega 1000 tonnum úr Berki í fyrradag og í gær kom Beitir með tæplega 900 tonn.
Afli skipanna er blanda af norsk-íslenskri síld og íslenskri sumargotssíld. Hlutfall sumargotssíldarinnar hefur farið vaxandi og um þessar mundir er hún um helmingur aflans.
Sturla Þórðarson, skipstjóri á Beiti, segir að um sé að ræða hina þokkalegustu síld. „Við fengum síldina núna í Reyðarfjarðardýpi og Seyðisfjarðardýpi. Við enduðum í Seyðisfjarðardýpinu um 60 mílur frá landi og þar var töluvert að sjá þegar farið var í land,“ sagði Sturla.