„Ég var svona á ruslahaugunum. Það vildi enginn vera með neitt nema það sem ég kallaði poppfiska en Aðalsteinn Sigurðsson kallaði stórfréttafiska. Menn vildu allir vera í því því þá komu þeir reglulega fram í blöðum.,“ segir Gunnar Jónsson fiskifræðingur, sem lét af störfum hjá Hafrannsóknarstofnun stuttu áður en hann varð sjötugur fyrir um tólf árum.

Hann skreppur ennþá reglulega niður á Hafró, helst einu sinni í viku, til að spjalla þar við fólkið.

„Nú er allt orðið fullt af smákrökkum þarna sem eru að vinna í öllu mögulegu, og þetta er orðið helvíti fínt því þetta er bráðskemmtilegt fólk allt saman. Ég er mjög ánægður með hann Jónbjörn sem tók við af mér í röru fiskunum. Hann lætur mig vita ef eitthvað nýtt kemur svo ég fylgist með.“

Röru fiskarnir, sem Gunnar svo nefnir, eru fágætir fiskar og furðufiskar ýmsir sem skutu stundum upp kollinum í veiðarfærum sjómanna og urðu æ algengari sjón þegar tekið var að sækja meira út á djúpmiðin.

Þessi sjaldgæfu fyrirbæri urðu smám saman að sérgrein hans í starfi, þótt aldrei hafi hann stefnt neitt sérstaklega á slíka sérhæfingu.

„Nei nei, ég var ekkert ráðinn í það. Ritgerðin mín var um flatfiska, um sandkolann, og það stóð til að ég færi í botndýr en Hermann Einarsson stoppaði það eiginlega af og ég er honum eilíflega þakklátur fyrir það. Svo lenti ég í ýmsu tilfallandi, fékk steinbít til rannsóknar og spærling og lúðu, og ýmislegt fleira. Síðan bætti ég þessu bara við og fór að safna einhverjum gögnum í sambandi við þessa röru fiska.“

Hann segir þessa gagnasöfnum reyndar hafa byrjað fljótlega eftir að hann kom til starfa hjá Hafrannsóknarstofnun, ungur maður.

„Þá var oft verið að hringja og biðja um einhvern fiskifræðing til að fá upplýsingar um hina og þessa fiska. Og þá gáfu þær yfirleitt samband við mig, stelpurnar á skiptiborðinu, því það var nú tiltölulega auðvelt að ná í mig. Það var verið að spyrja mig um hitt og þetta sem ég vissi nú ekkert um. En ég hafði vit á því að hafa bækur við höndina og hélt fólki uppi á kjaftatörn á meðan ég var að fletta upp. Svo fór ég að skrifa niður athugasemdir og eitt og annað.

Þessir minnispunktar urðu smám saman að uppistöðunni í því mikla safni upplýsinga sem síðar komu út á bókum með nöfnum yfir alla þá fiska sem fundist hafa hér við land. Hann er spurður hvort ekki hafi verið harla snúið að finna nöfn á alla þessa fiska.

„Jú jú, en það hafa ýmsir verið að hjálpa mér við það. Ég hugsa samt að það séu nokkur hundruð nöfn sem ég ber ábyrgð á. Hann minnist sérstaklega þeirra feðga, Ingimars Óskarssonar og Óskars Ingimarssonar, sem voru báðir einkar fundvísir á góð nöfn. Óskar var um tíma bókavörður á Hafrannsóknarstofnun og þá voru þeir Gunnar iðulega að gantast með nöfn á útlenskum fiskum.

[email protected]