Samtök sjómanna og sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum hafa í ályktunum sínum síðustu daga gagnrýnt rannsókn sjóslysa í tengslum við umfjöllun um sjóskaðann við Aðalvík í sumar. Þá fórst dragnótarbáturinn Jón Hákon BA og með honum einn maður.

Þrír aðrir úr áhöfninni komust lífs af en þeim var bjargað af kili bátsins á síðustu stundu, klukkustund eftir að honum hvolfdi. Fjallað var um málið í Kastljósi í síðustu viku, þar sem skipverjar gagnrýndu rannsókn málsins. Ekki síst að ekki stæði til að ná bátnum af hafsbotni. Sjóslysanefnd ber meðal annars fyrir sig kostnaði og ætlar sér ekki að ná bátnum upp, jafnvel þótt fulltrúi nefndarinnar hafi viðurkennt í Kastljósi að öðruvísi verði ekki komist að því hvers vegna bátnum hvolfdi og hvers vegna björgunarbúnaðurinn virkaði ekki.

Í Kastljósi í gærkvöldi er rætt við fyrrverandi eiganda Jóns Hákonar, sem áður hét Höfrungur BA. Jón Þórðarson á Bíldudal gerði Höfrung út frá 1988 til 2014 að hann var seldur. Jón er gagnrýninn á rannsókn slyssins og eftirlit með björgunarbúnaði sem hann segir margoft hafa klikkað. Til dæmis árið 2011, þegar Jón ætlaði að halda björgunaræfingu í höfninni þegar björgunarbáturinn um borð var uppfærður. Þá kom í ljós að báturinn, sem verið hafði um borð í Höfrungi í fjölda ára, blés ekki upp.

Greint er frá þessu á vef RÚV.