Opinberar tölur um þorskveiðar Breta í Norðursjó sýna að enginn undirmálsfiskur var í lönduðum afla frá janúar og fram í miðjan nóvember 2018. Alls var landað 21.596 tonnum af þorski á tímabilinu.

Samtökin Our Fish, sem berjast gegn bæði ofveiði og brottkasti, segja þetta benda til þess að um 7.500 tonnum af smáþorski hafi verið hent í sjóinn á þessu tímabili. Breska dagblaðið The Independent greinir frá þessu.

„Bresk stjórnvöld virðast gera sér grein fyrir því að fiskveiðiflotinn stundi ólöglegar og óskráðar veiðar á mikilvægum stofni eins og þorski í stórum stíl,“ hefur The Independent eftir Rebeccu Hubbard, verkefnastjóra hjá Our Fish.

„Það er gersamlega óskiljanlegt og óverjanlegt að svona hömlulausum brotum á reglunum sé enginn gaumur gefinn.“

Samtökin telja að með þessu hafi flotinn getað veitt að minnsta kosti þriðjungi meira en veiðiheimildir ársins ná til. Þau hafa af þessu tilefni skrifað framkvæmdastjórn Evrópusambandsins til að gera henni grein fyrir stöðunni. Jafnframt krefjast samtökin þess að þorskkvóti Breta í Norðursjó verði minnkaður um að minnsta kosti 7.500 tonn á þessu ári til að vega upp á móti brottkastinu.

Fengu viðbótarkvóta
Fyrir fjórum árum hóf Evrópusambandið að innleiða brottkastsbann, sem átti að koma að fullu til framkvæmda um síðustu áramót. Áður var skipum leyft að kasta óæskilegum afla í hafið við veiðar upp að vissu marki, en allt slíkt brottkast þurfti að skrá þannig umfangið var þekkt. Brottkastsbannið fól í sér að útgerðum var skylt að koma með allan afla í land, en á móti voru veiðiheimildir hækkaðar. Þannig fengu breskar útgerðir viðbótarþorskkvóta til veiða úr Norðursjó upp á 5.200 tonn.

Reyndin varð hins vegar sú að viðbótarkvótinn virðist víða hafa verið notaður til að koma með meiri verðmæti í land, en verðlitlum eða verðlausum afla áfram kastað í hafið.

„Raunveruleikinn er bara sá að meðan sjómenn eru andsnúnir banninu og eftirlitið er ekki betra þá er brottkast. Niðurstaðan stóra er sú að þetta er ekkert að virka. Þeir eru búnir að vera að innleiða þetta í fjögur ár og það er sáralítið sem er að koma út úr þessu,“ sagði Jónas Rúnar Viðarsson, faglegur leiðtogi hjá Matís, um brottkastbann Evrópusambandsins í Fiskifréttum fyrir stuttu.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur lagt til að rafrænu eftirliti með myndavélum verði komið á við fiskveiðar aðildarríkjanna. Stefnt er að því að fiskveiðinefnd ESB taki afstöðu til tillögunnar innan fárra vikna.