Veiking breska pundsins eftir ákvörðun Breta um að segja sig úr Evrópusambandinu samhliða styrkingu krónunnar, veldur íslenskum fiskútflytjendum áhyggjum. Þeir áætla að útflutningsverðmæti geti dregist saman um allt að 10 milljarða króna á ári. Þetta kemur fram á vef SFS.

Þar er bent á að margir hugsi sér eflaust gott til glóðarinnar vegna frétta af því að gengi breska pundsins gagnvart krónunni hafi lækkað töluvert síðustu misseri og einkum eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna um Brexit. Það er ódýrara að skreppa til Lundúna og hagkvæmara að flytja vörur inn vörur frá Bretlandi.

Þessi gengisþróun veldur fiskútflytjendum hins vegar áhyggjum og þeir sjá fram verulegan samdrátt í tekjum.

„Árið 2015 vorum við að flytja út fyrir jafnvirði 48,5 milljarða króna til Bretlands.  Við erum að sjá að árið 2015 var meðalgengi punds gagnvart krónuunni um það bil 201. Árið 2016 má gera ráð fyrir að meðalgengið verði 164. Þannig að ef maður horfir bara gróflega út frá þessu þá mætti áætla að þetta geti orðið um 9 til 10 milljarðar króna samdráttur í útflutningsverðmætum sem er auðvitað verulegt,“ segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir framkvæmdastjóri SFS.

Í byrjun mánaðarins sagði fiskvinnslufyrirtækið Frostfiskur upp 32 starfsmönnum og sögðu stjórnendur fyrirtækisins óhagstæða gengisþróun helstu ástæðuna. „Þegar tekjurnar fara að dragast saman en kostnaður lækkar ekki á móti þá étur það upp framlegðina smám saman og við erum farin að sjá áhrif þess strax og Frostfiskur er kannski fyrsta dæmið,“ segir Heiðrún.