Þær fisktegundir sem helst hafa ratað á matarborðin á breskum heimilum og veitingastöðum eru þorskur, ýsa, túnfiskur og lax. Auk þess hafa rækjur verið vinsælar.

Brotthvarf Breta úr Evrópusambandinu hefur í för með sér margvíslegar breytingar á bæði efnahagslífi og stjórn fiskveiða í Bretlandi. Þar á meðal gæti brotthvarfið ýtt undir breytta fiskneyslu.

Bresku hafverndarsamtökin Marine Conservation Society (MCS) gefa árlega út leiðbeiningar um fiskneyslu, Good Fish Guide, þar sem Bretar eru hvattir til að velja frekar fisktegundir sem veiddar eru með sjálfbærum og ábyrgum hætti en forðast þær sem ósjálfbærar teljast.

Þessar leiðbeiningar voru síðast endurnýjaðar í þessum mánuði, og þar gætir verulegra breytinga sem meðal annars eru rökstuddar með því að brotthvarf Breta úr ESB kalli á þær.

Í nýju leiðbeiningunum er Bretar hvattir til að borða meira af sandkola, lýsing, síld og makríl en minna af þorsk, ýsu, túnfisk, rækjum og lax.

Frá þessu var skýrt í breskum fjölmiðlum nýverið, meðal annars í The Independent og The Guardian . Nýju leiðbeiningarnar má síðan skoða á vef MCS .

„Breskir neytendur hafa tilhneigingu til að halda sig við stóru tegundirnar fimm,“ er haft eftir Bernadette Clarke, yfirmanni hjá MCS. Þessar fimm tegundir eru samt að stórum hluta innfluttar, meðal annars frá Íslandi. Clarke segir meiri sjálfbærni felast í því að Bretar haldi sig frekar við neyslu á þeim tegundum sem þeir veiða sjálfir. „Við erum nú að flytja út um það bil 75 prósent af öllum fiski sem við veiðum og löndum hér í Bretlandi, en erum svo í níunda sæti yfir stærstu innflytjendur fisks í heiminum.“

Væntanlega má búast við því að meira en ráðleggingar frá virtum samtökum þurfi til að breyta neysluvenjum Breta svo um muni á skömmum tíma. Til lengri tíma litið geta þó breyttir hagsmunir bresks atvinnulífs orðið til þess að neysluvenjurnar breytist með einhverjum hætti.